Hoppa yfir valmynd
23. maí 2017 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 295/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. maí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 295/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17040024

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. apríl 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. mars 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Tékklands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda fyrir að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 30. nóvember 2016. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 13. desember 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Tékklandi, sbr. 4. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun af tékkneskum yfirvöldum. Þann 19. janúar 2017 barst svar frá tékkneskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli a-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 13. mars 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Tékklands. Kærandi kærði ákvörðunina þann 12. apríl 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 26. apríl 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Tékklands. Lagt var til grundvallar að Tékkland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Tékklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Enn fremur var það mat Útlendingastofnunar að í Tékklandi væru engin viðvarandi mannréttindabrot og að íbúar landsins gætu fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð lögreglu eða annarra yfirvalda. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Tékklands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að hann vilji ekki fara til Tékklands. Upphaflega hafi hann ætlað að sækja um alþjóðlega vernd í Tékklandi en snúist hugur þar sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar í [...] hafi vitað að hann hafi verið í Tékklandi. Fulltrúi [...] stjórnvalda hafi haft samband við eiginkonu kæranda og beðið hana að upplýsa um hvar kærandi væri staddur. Þá hafi kærandi verið einn dag í Tékklandi og þekki ekki til hæliskerfisins þar í landi.

Krafa kæranda um að verða ekki sendur aftur til Tékklands byggir aðallega á því að þangað megi ekki senda hann vegna non-refoulement reglu þjóðaréttar sem komi fram í 42. gr. laga um útlendinga. Þær aðstæður sem kærandi muni mæta við endursendingu til Tékklands séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 42. gr. laga um útlendinga. Ákvæði 1. mgr. 36. gr. feli að sama skapi aðeins í sér heimild til handa stjórnvöldum til að synja um efnismeðferð en ekki skyldu.

Verði ekki fallist á það að endursending kæranda til Tékklands brjóti í bága við framangreind ákvæði alþjóðasamninga og íslenskra laga telur kærandi að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum nr. 115/2010 sem breyttu þágildandi lögum um útlendinga. Með hinum nýju lögum um útlendinga sé leiddur í ljós vilji löggjafans til að víkka út gildissvið ákvæðisins miðað við beitingu stjórnvalda á sambærilegu ákvæði í eldri lögum um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er að finna umfjöllun um þá gagnrýni sem tékknesk stjórnvöld hafi sætt fyrir að notast við varðhald fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í miklum mæli og er vísað til ýmissa heimilda hvað það var, þ. á m. ummæla umboðsmanns borgara í Tékklandi og mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Í þeim komi fram vaxandi áhyggjur af beitingu tékkneskra stjórnvalda á varðhaldi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Aðstæður í varðhaldi séu afar slæmar, jafnvel verri en í fangelsi og jafngildi bráðu og alvarlegu mannúðarvandamáli. Umsækjendur séu færðir í varðhald í járnum og hafi ekkert ferðafrelsi meðan á varðhaldinu standi. Farsímar séu bannaðir, hreinlæti í svefnklefum sé ábótavant og matur sem þar sé á borð borinn sé næringarlítill. Skortur á túlkaþjónustu í varðhaldi valdi því að erfitt sé fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd að sækja sér heilbrigðisþjónustu og þá hafi stjórnvöld ákveðið að stöðva fjárveitingar til lögfræðiþjónustu fyrir umsækjendur í varðhaldi. Því sé endurgjaldslaus lögfræðiþjónusta ekki lengur í boði nema frá sjálfboðaliðum sem oft eigi erfitt með að fá greiðan aðgang að umsækjendum í varðhaldi. Enn fremur hafi lengd varðhalds verið sérstaklega gagnrýnd en umsækjendum sé haldið þar í allt að 180 daga. Fyrir dvölina í varðhaldinu þurfi þeir svo að borga sjálfir, u.þ.b. 266 evrur fyrir hvern mánuð.

Þá hafi hatur á útlendingum í Tékklandi vaxið með auknu streymi flóttafólks til landsins. Hafi forseti Tékklands meðal annars lýst þeirri skoðun sinni opinberlega að tékknesk stjórnvöld eigi alfarið að hætta að veita flóttafólki vernd.

Enn fremur er á það bent í greinargerð kæranda að kerfisbundinn galli á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríki sé ekki forsenda þess að umsókn sé tekin til meðferðar í öðru aðildarríki en því sem ber ábyrgð skv. Dyflinnarreglugerðinni. Það fái stoð í niðurstöðu Hæstaréttar Bretlands frá 2014, ákvarðandi túlkun dómstóls Evrópusambandsins frá 16. febrúar 2017 og greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu frá desember 2015. Ekki sé nauðsynlegt að sýna fram á kerfislæga annmarka á málsmeðferð eða móttöku umsækjenda í viðtökulandinu heldur skuli miða við það hvort veruleg ástæða sé til að ætla að hlutaðeigandi einstaklingur standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð í viðtökuríkinu sem samrýmist ekki 3. gr. mannréttindasáttmálans. Sönnun á því að um kerfisbundinn galla sé að ræða sé einungis ein leið til þess að sýna fram á að viðkomandi umsækjandi um alþjóðlega vernd sé í hættu á illri meðferð en ekki hindrun sem þurfi að yfirstíga. Sé um kerfisbundinn galla að ræða í hæliskerfi viðkomandi ríkis þá skuli hafa slíkt til hliðsjónar en það geti ekki verið úrslitaatriði um endursendingu umsækjanda.

Að lokum er á því byggt í greinargerð kæranda að Útlendingastofnun hafi með ákvörðun sinni brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sem sé lögfest í 10. gr. stjórnsýslulaga, þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Þær fáu heimildir sem Útlendingastofnun vísi til séu úreltar og nýrri útgáfur nú fáanlegar. Kærandi hafi vísað til fjölmargra heimilda sem hreki í mikilvægum atriðum rökstuðning Útlendingastofnunar og sýni að nákvæmari rannsóknar sé þörf. Skortur á heimildum geti ekki talist nægur grundvöllur fyrir jafn íþyngjandi ákvörðun eins og raun beri vitni í máli kæranda. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga sé öryggisregla og leiði brot á henni alla jafna til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Í reglunni felist m.a. sú skylda stjórnvalds að sjá til þess, að eigin frumkvæði, að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Vísar kærandi til III. kafla bréfs umboðsmanns Alþingis til forstjóra Útlendingastofnunar frá 5. ágúst 2016 en þar segi að þegar komi að samspili reglna stjórnsýsluréttarins um rannsókn mála, andmælarétt og leiðbeiningarskyldu stjórnvalds sé ábyrgð þess mikil við að undirbúa mál sín vel. Telji kærandi svo gróflega brotið gegn framangreindri rannsóknarreglu að ekki komi annað til greina en að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar og að taka skuli mál kæranda til meðferðar að nýju hjá Útlendingastofnun. Enn fremur sé mælt fyrir um það í 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga að Útlendingastofnun beri skylda til að tryggja að einstaklingsbundin greining fari fram á heilsufarsástandi umsækjanda um alþjóðlega vernd, bæði líkamlegu og andlegu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að tékknesk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli a-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Tékklands er byggt á því að kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun af tékkneskum yfirvöldum.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Tékklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· 2016 Country Reports on Human Rights Practices – Czech Republic (United States Department of State, 3. mars 2017),

· Amnesty International Report 2016/17 – Czech Republic (Amnesty International, 22. febrúar 2017),

· Freedom in the World 2016 – Czech Republic (Freedom House, 12. ágúst 2016)

· Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2015 (European Union: European Asylum Support Office, júlí 2016),

· Immigration Detention in the Czech Republic (Global Detention Project, september 2016) og

· EDAL Country Overview – Czech Republic (European Database of Asylum Law, 21. febrúar 2014).

Í framangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Tékklandi eiga rétt á viðtali áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra og fá aðstoð túlks í gegnum alla málsmeðferðina ef þess þarf. Viðtölin eru tekin af starfsmönnum innanríkisráðuneytis Tékklands sem jafnframt úrskurða í málum. Endurgjaldslaus lögfræðiþjónusta er ekki til staðar en umsækjendur geta leitað til hjálparsamtaka varðandi slíka aðstoð. Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni geta þeir áfrýjað til viðkomandi héraðsdómstóls. Staðfesti héraðsdómstóll neikvæða niðurstöðu innanríkisráðuneytisins geta umsækjendur áfrýjað máli sínu til æðri stjórnsýsludómstóls. Fyrir dómstólum eiga umsækjendur rétt á lögmanni eða sérfræðingi á vegum hjálparsamtaka án endurgjalds ef þeir hafa ekki bolmagn til að greiða fyrir slíka þjónustu sjálfir.

Af framangreindum gögnum má jafnframt ráða að þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem koma á löglegan hátt til Tékklands eru færðir í móttökumiðstöðvar. Komi umsækjendur á ólöglegan hátt til landsins geta þeir á hinn bóginn verið færðir í varðhald eða sérstaka móttökumiðstöð á alþjóðlegum flugvelli. Ljóst er af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér að tékknesk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir notkun sína á varðhaldi. Varðar sú gagnrýni einkum lengd varðhaldsins, skort á túlkaþjónustu og upplýsingagjöf og að umsækjendur séu látnir standa undir kostnaði við varðhaldið. Á hinn bóginn kemur einnig fram í framangreindum gögnum að umboðsmaður borgara í Tékklandi hafi greint frá því í nóvember 2015 að aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í varðhaldi hafi batnað á undanförnum misserum. Í nýútgefinni skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur að sama skapi fram að lögfræðiþjónusta er aðgengileg þeim sem eru í varðhaldi í Tékklandi.

Kærunefnd hefur sérstaklega skoðað gögn um notkun tékkneskra stjórnvalda á varðhaldi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Meðal gagna í fyrri málum, sem kærunefnd hefur haft til meðferðar og fjalla um endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Tékklands, er tölvupóstur frá innanríkisráðuneyti Tékklands, dags. 16. desember 2016, vegna fyrirspurnar Útlendingastofnunar, dags. 15. desember 2016. Fyrirspurn Útlendingastofnunar laut að því hvort þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem sendir eru til Tékklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, verði settir í varðhald. Í svari innanríkisráðuneytis Tékklands kemur fram að í þeim málum þar sem tékknesk stjórnvöld taka ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd (e. Take Charge Cases), líkt og þau hafa gert í máli kæranda, er umsækjendum almennt komið fyrir í móttökumiðstöðvum en ekki varðhaldi. Þá kemur einnig fram í ofangreindu svari að innanríkisráðuneyti Tékklands sé ekki kunnugt um að varðhaldi hafi verið beitt í slíkum málum frá því núgildandi Dyflinnarreglugerð tók gildi. Telur kærunefnd því með hliðsjón af framangreindu að ekki sé tilefni til þess að ætla að brotið verði gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga með endursendingu kæranda þangað.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Tékklandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Tékklands brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Tékklandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Tékklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi hefur greint frá því að hann óttist ákveðna aðila í heimalandi sínu. Hann geti þó ekki sagt fyrirfram hvort hann óttist eitthvað eða einhvern í Tékklandi. Hann hafi viljað fara eins langt frá heimalandi sínu og hann hafi getað þar sem áðurnefndir aðilar elti hann. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að kærandi geti leitað aðstoðar yfirvalda í Tékklandi óttist hann tilgreinda aðila eða að á honum verði brotið.

Kærandi, sem er [...] ára karlmaður, kvað [...] í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 16. febrúar 2017. Ekkert í gögnum málsins bendir því til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að sérstakar ástæður mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 16. febrúar 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 30. nóvember 2016.

Í greinargerð kæranda er byggt á því að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki verið studd nægilegum gögnum og því hafi stofnunin ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 10. gr. stjórnsýslulaga um að við ákvörðun skuli stjórnvald rannsaka mál til þaula. Er það afstaða kærunefndar að ekkert bendi til þess að slíkur ágalli hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægjanlega upplýst. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd skuli stjórnvöld afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Samkvæmt framansögðu er gerð krafa um rannsókn stjórnvalda sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Kærunefnd gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki stuðst við nýjustu tiltæku gögn um aðstæður í Tékkland. Kærunefnd telur að stofnuninni beri að byggja á nýjustu tiltæku gögnum hverju sinni. Hins vegar í ljósi þeirrar niðurstöðu sem kærunefnd hefur komist að varðandi aðstæður kæranda í Tékklandi er það mat kærunefndar að sá ágalli leiði ekki til þess að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar er þetta varðar.

Í máli þessu hafa tékknesk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Tékklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta