COVID-19: Hraðpróf í heilsugæslu
Heilsugæslan hefur tekið í notkun hraðpróf til greiningar á kórónuveirunni sem veldur Covid-19. Hraðprófin eru ekki notuð við einkennasýnatöku, heldur eru þau eingöngu ætluð þeim sem þurfa á þeim að halda, t.d. vegna ferðalaga, þar sem krafist er neikvæðrar niðurstöðu úr sýnatöku á landamærum og niðurstaða úr hraðprófi er tekin gild. Gjald fyrir sýnatöku með hraðprófi er 4.000 krónur, hvort sem hlutaðeigandi einstaklingur er sjúkratryggður hér á landi eða ekki.
Hér á landi hafa fram að þessu eingöngu verið notuð PCR-próf til að greina kórónuveiru í fólki og á landamærum Íslands eru aðeins teknar gildar niðurstöður úr PCR-prófum. Heilsugæslan býður einnig upp á töku PCR-prófa úr einkennalausum einstaklingum þurfi þeir á því að halda og er gjald fyrir sýnatökuna 7.000 krónur, jafnt fyrir sjúkratryggða sem ósjúkratryggða. Heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð sem kveður á um gjaldtökuna.
Mörg lönd taka gildar niðurstöður hraðprófa á landamærum. Því má gera ráð fyrir því að töluverð eftirspurn sé eftir hraðprófum hjá erlendum ferðamönnum og Íslendingum sem hyggja á ferðalög út fyrir landsteinanna. Niðurstaða úr hraðprófi liggur fyrir á um klukkustund en það getur tekið allt að sólarhring að fá niðurstöðu úr PCR-prófi.
Hraðpróf veita ekki jafnöruggar niðurstöður og PCR-próf og gildir sú regla hér á landi að ef einstaklingur greinist með kórónuveiruna í hraðprófi þarf hann jafnframt að undirgangast PCR-próf.