Utanríkisráðherra fagnar meirihlutastuðningi SÞ við áheyrnaraðild Palestínu
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fagnar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi þar sem samþykkt var með miklum meirihluta atkvæða að Palestína fái stöðu áheyrnarríkis.
Utanríkisráðherra telur atkvæðagreiðsluna í gær marka þáttaskil. Nú þurfi Ísrael og Palestína að setjast að samningaborðinu sem fyrst. Öryggisráðið verði líka að hlusta á þau skilaboð sem komi frá Allsherjarþinginu og stórum meirihluta aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna.
Alls greiddu 138 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna atkvæði með ályktun þess efnis að Palestína fái stöðu áheyrnarríkis. 41 ríki sat hjá og aðeins níu voru á móti. Ísland var meðflutningsríki ályktunartillögunnar. Utanríkisráðherra fagnar því sérstaklega að mikill fjöldi evrópuríkja hafi greitt tillögunni atkvæði sitt og að öll Norðurlöndin hafi sameinast um stuðning sinn.
Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu 15. desember 2011 í kjölfar þingsályktunar þess efnis sem var samþykkt af Alþingi 29. nóvember sama ár.