Hoppa yfir valmynd
26. maí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um niðufellingu dráttavaxta


Nordik lögfræðiþjónusta
Páll Jóhannesson, hdl.
Suðurlandsbraut 18
108 Reykjavík

Reykjavík 26. maí 2015
Tilv.: FJR15020067/16.2.3

Efni: Úrskurður vegna kröfu um niðurfellingu dráttarvaxta.

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 13. febrúar 2015, þar sem krafist er niðurfellingar dráttarvaxta vegna álagningar viðbótarauðlegðarskatts [A], kt. […].

Málavextir.
Tilefni kærumálsins er það að ráðuneytinu barst erindi kæranda með tölvupósti, dags. 3. október 2014, þar sem þess var krafist að ekki færu fram frekari innheimtuaðgerðir opinberra gjalda á meðan Seðlabanki Íslands hefði ekki afgreitt erindi kæranda og að ekki kæmi til innheimtu dráttarvaxta. Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, framsendi ráðuneytið erindið til tollstjóra.

Kærandi sendi einnig tollstjóra erindi með tölvupósti, dags. 3. október 2014, þar sem krafist var frestunar á innheimtuaðgerðum og niðurfellingar á dráttarvöxtum vegna álagningar viðbótarauðlegðarskatts á árinu 2014 og endurákvörðunar viðbótarauðlegðarskatts þann 28. ágúst 2014, hjá kærendum. Með bréfi dags. 14. nóvember 2014 var kæranda tilkynnt um að frekari innheimtuaðgerðum yrði frestað á meðan beðið væri eftir niðurstöðu afgreiðslu Seðlabanka Íslands en að kröfu um niðurfellingu dráttarvaxta væri hafnað.

Kæran lýtur að niðurfellingu dráttarvaxta vegna álagningar viðbótarauðlegðarskatts, annars vegar í álagningu vegna ársins 2014 og hins vegar vegna endurákvörðunar dags. 28. ágúst 2014 vegna gjaldáranna 2011 og 2012. Viðbótarauðlegðarskattur var ekki lagður á kæranda vegna ársins 2010.

Málsástæður og lagarök kæranda.
Kærandi telur að henni verði ekki kennt um drátt á greiðslu viðbótarauðlegðarskatts. Dregist hafi hjá Seðlabanka Íslands að afgreiða umsókn hennar um að flytja íslenskar krónur til landsins frá erlendu félagi í hennar eigu en stofn til álagningar viðbótarauðlegðarskatts byggi á eignarhaldi hennar í viðkomandi félagi. Fram kemur einnig í kæru að kærandi hafi sótt um flutning krónanna þann 14. febrúar 2014 en Seðlabanki Íslands hafi ekki afgreitt erindi hennar fyrr en með bréfi dags. 19. desember 2014 og hafi þá verið ráðist í aðgerðir erlendis sem undanþágubeiðnin lýsti.

Umsögn tollstjóra.
Ráðuneytið óskaði eftir umsögn tollstjóra með bréfi, dags. 20. febrúar 2015. Í umsögn tollstjóra, dags. 16. mars 2015, kemur eftirfarandi fram:

„Endurákvörðun viðbótarauðlegðarskatts hjá ofangreindum [...] [A], dags. 28. ágúst 2014, vegna áranna 2011 og 2012 féll í gjalddaga 10 dögum eftir álagningu skattsins, eða 7. september 2014, sbr. 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og myndar krafan dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 114. gr. sömu laga. Þá féll álagning viðbótarauðlegðarskatts þeirra á árinu 2014 í eindaga 30 dögum eftir álagningu hans og ber sömuleiðis dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags.

Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er sé skattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga. Hvað sem líður ofangreindu umsóknarferli hjá Seðlabanka Íslands þá getur það ekki leitt til þess að fella eigi niður dráttarvexti vegna þeirra krafna sem um ræðir í máli þessu.

Skattalög hafa ekki að geyma heimildir fyrir innheimtumenn ríkissjóðs til ívilnana á borð við niðurfellingu lögboðinna dráttarvaxta. Eru þeir jafnframt bundnir af jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttar og ber samkvæmt því að fara eins með sambærileg tilvik gjaldenda. Þegar af þeirri ástæðu er talið að staðfesta beri synjun tollstjóra á niðurfellingu dráttarvaxta, dags. 14. nóvember 2014.“

Viðbótarrökstuðningur kærenda.
Ráðuneytinu barst viðbótarrökstuðningur vegna stjórnsýslukærunnar, dags. 26. mars 2015. Þar er vísað til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2654/1999. Tekið er fram að í álitinu hafi komið fram að fjármálaráðuneytið hafi sett sér viðmiðunarreglu að fella ekki niður dráttarvexti nema unnt væri að sýna fram á að um mistök hafi verið að ræða af hálfu innheimtumanna ríkissjóðs eða skattstjóra sem leitt hefðu til þess að dráttarvextir hefðu fallið á skattkröfu. Þá hafi í umræddu áliti komið fram að ef um sannanlegan viðtökudrátt væri að ræða af hálfu kröfuhafa teldi ráðuneytið að beita bæri almennum reglum kröfuréttar. Komið hafi fram að „ef greiðsludrátt mætti þannig rekja til atvika sem vörðuðu kröfuhafa þá bæri ekki að greiða dráttarvexti.“ Í 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, komi fram að ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verði ekki um kennt valdi því að greiðsla fer ekki fram skuli ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verði af þessum sökum. Sama eigi við fari greiðsla ekki fram vegna þess að skuldari neyti vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða haldi af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar. Þá er auk þess vísað til IX. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu því til stuðnings að lögin eigi við um skattkröfur. Bent er á að í áðurnefndu áliti umboðsmanns Alþingis hafi það verið niðurstaða umboðsmanns að fjármálaráðuneytinu bæri að taka mál viðkomandi kvartanda upp aftur enda hefði ráðuneytið ekki tekið afstöðu til stjórnsýsluframkvæmdar vegna dráttarvaxta skatta í afgreiðslu sinni heldur alfarið byggt á því að engin heimild væri til niðurfellingar dráttarvaxta. Samkvæmt m.a. 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sé um að ræða atvik er varði kröfuhafa og af þeim sökum hafi verið farið fram á að ráðuneytið felli niður dráttarvexti skv. upphaflegu erindi og kæru. Að lokum er vísað til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með viðbótarrökstuðningnum fylgdi afrit af bankamillifærslu [A] til tollstjóra.

Umsögn ríkisskattstjóra.
Ráðuneytið óskaði eftir umsögn ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 4. maí 2015. Óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir umsögn um það hvenær gjalddagi hafi verið á þeim skattkröfum sem hlutust af endurákvörðunum ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum kærenda, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 8140/2014. Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 13. maí 2015, kemur eftirfarandi fram:

„Samkvæmt 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er gjalddagi skattkröfu vegna endurákvörðunar skatta 10 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina. Í máli þessu eru úrskurðir ríkisskattstjóra dagsettir 28. ágúst 2014 og fram tekið í þeim að þeir séu póstlagðir þann sama dag. Þennan dag voru þeir svo í raun afhentir póstinum í ábyrgðarbréfi.

Í framkvæmd hefur verið litið svo á að 10 dagarnir byrji að teljast daginn eftir póstlagningardaginn. Umboðsmaður Alþingis telur hins vegar í áliti sínu nr. 8140/2014 ekki tryggt að það sé undir öllum kringumstæðum rétt, heldur þurfi að kanna hvenær ábyrgðarbréf séu borin út til viðtakenda. Síðan segir umboðsmaður að skýra beri 6. mgr. 112. gr. tekjuskattslaganna með hliðsjón af 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaganna um að ákvörðun sé bindandi eftir að hún „er komin til aðila“ og 1. mgr. 8. gr. sömu laga hvar segir að þegar kveðið er á um frest í lögum „telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.“ Samkvæmt álitinu ber að telja frestinn frá þeim degi sem gjaldanda mátti vera kunnugt um endurákvörðunina og að gjaldanda telst ákvörðun kunn þann dag sem ábyrgðarbréf er borið til hans eða þann dag sem fyrst var unnt að sækja ábyrgðarbréf á pósthús þegar skilin er eftir tilkynning um ábyrgðarbréf (gjaldandi ekki heima). Í þessu sambandi skipti ekki máli þó gjaldandi verði áfram fjarverandi t.d. erlendis. Það seinki ekki gjalddaganum.

Í [tilviki [A] var kærandi] ekki heima 29. ágúst (föstudagur) og var því skilin eftir hjá henni tilkynning um ábyrgðarbréf. Ganga verður út frá því að þetta sé eftir lokun pósthúss og því hafi fyrst verið hægt að vitja bréfsins mánudaginn 1. september 2014. Er gjalddaginn í þeim tilvikum því 11. september 2014.

Ekki verður þannig séð að tímamark gjalddaga og eindaga hafi önnur áhrif en að upphafsdagur dráttarvaxtareiknings hnikist til til samræmis við þær viðmiðunardagsetningar sem umboðsmaður Alþingis hefur sett í tilvitnuðu áliti sínu.“

Forsendur og niðurstaða.
Ákvæði 112. og 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru afdráttarlaus að því er varðar gjalddaga, eindaga og vexti vegna opinberra gjalda og er enga heimild að finna í lögunum til að víkja frá áskilnaði þeirra um greiðslu dráttarvaxta vegna vangreiðslu opinberra gjalda. Vanþekking á lagaákvæðum leysir skuldara ekki undan skyldu til greiðslu dráttarvaxta, samkvæmt gildandi lögum, standi hann ekki skil á greiðslu skattkröfu fyrir eindaga hennar. Umrædd lagaákvæði veita þannig afar takmarkað svigrúm til töku matskenndra ákvarðana á ívilnandi hátt.

Með hliðsjón af 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, telur ráðuneytið einungis heimilt að fella niður dráttarvexti ef unnt er að sýna fram á að um mistök hafi verið að ræða af hálfu innheimtumanns eða ríkisskattstjóra sem leitt hafi til þess að dráttarvextir hafi fallið á skattkröfu. Í greinargerð með 13. gr. frumvarps sem varð að vaxtalögum nr. 25/1987 (nú 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu), sbr. þingskjal 564 á 109. löggjafarþingi 1986-87, er m.a. að finna eftirfarandi umfjöllun:
„Í þessu ákvæði er lagt til að skuldara verði ekki gert að greiða dráttarvexti ef um viðtökudrátt af hálfu kröfuhafa er að ræða. Til þess að um viðtökudrátt geti verið að ræða þarf skuldari að hafa bæði vilja og getu til að greiða og hann þarf að hafa gert kröfuhafa löglegt greiðslutilboð eða lagt féð inn á geymslureikning skv. lögum nr. 9/1978. Ákvæði þetta tekur einnig til þeirra tilvika er skuldara er rétt að halda að sér höndum um greiðslu, t.d. vegna vanefnda, eftir atvikum fyrirsjáanlegra vanefnda, af hálfu kröfuhafa.“

Framangreint á ekki við í tilfelli kæranda og með vísan til þess að gæta ber jafnræðis við innheimtu skattskulda, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, telur ráðuneytið að ekki séu skilyrði til niðurfellingar dráttarvaxta í málinu. Ekki er unnt að taka undir sjónarmið kæranda varðandi brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með tilliti til matskenndra ákvarðana ráðuneytisins, enda verður að telja að í máli þessu sé um að ræða úrlausn ágreiningsefna á grundvelli gildandi réttarreglna.

Með vísan til álits umboðsmanns Alþingis nr. 8140/2014 og umsagnar ríkisskattstjóra, dags. 13. maí 2015, telst gjalddagi skattkröfu vegna úrskurðar ríkisskattstjóra, dags. 28. ágúst 2014, 10 dögum eftir að kæranda var tilkynnt um hækkunina, eða 11. september 2014, miðað við að fyrst var hægt að vitja ábyrgðarbréfsins þann 1. september 2014.


Úrskurðarorð.
Ákvörðun tollstjóra, dags. 14. nóvember 2014, um að hafna niðurfellingu dráttarvaxta er staðfest. Gjalddagi skattkröfu vegna úrskurðar ríkisskattstjóra, dags. 28. ágúst 2014, er 11. september 2014.





Fyrir hönd ráðherra


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta