Hoppa yfir valmynd
17. október 2016 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Menningarhús áFljótsdalshéraði

Mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélagið Fljótsdalshérað hafa staðfesta vilja sinn til áframhaldandi samstarfs um undirbúning og fjármögnun að byggingu menningarhúss í Fljótdalshéraði.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs undirrituðu viljayfirlýsingu um undirbúning og fjármögnun að byggingu menningarhúss í Fljótdalshéraði.

Annars vegar er gert ráð fyrir uppbyggingu menningarhúss í Sláturhúsinu sem verði gert að fjölnota menningarhúsi fyrir sviðslistir, tónlist, sýningar, vinnustofur, ungmennastarf auk gestaíbúðar fyrir listamenn. Hins vegar verði reist ný burst við Safnahúsið, líkt og ráð var fyrir gert í upprunalegum teikningum, sem verði til að bæta aðstöðu fyrir safnkost, sýningar og til fyrirlestrarhalds, auk aðstöðu fyrir fræði- og rannsóknarstörf.

Í janúar 1999 kynnti þáverandi ríkisstjórn áform sín um að stuðla að byggingu menningarhúsa á Akureyri, Fljótsdalshéraði, Ísafirði, Norðvesturlandi og Vestmannaeyjum. Á Ísafirði varð samkomulag um að þrjú hús yrðu tekin undir starfsemi menningarhúss, þ.e. Edinborgarhúsið, tónlistarsalur við Tónlistarskólann og Gamla sjúkrahúsið fyrir skjalasafn og listasafn. Endurbótasjóður menningarbygginga stóð að mestu fyrir hlut ríkisins, en sjóðurinn hefur verið aflagður. Að var veitt fé til endurnýjunar á Miðgarði í Skagafirði. Hugmyndir um frekari byggingu menningarhúss á Sauðárkróki eru til athugunar og ráðgert að skipa þarfagreiningarnefnd um verkefnið. Ríkið veitti fé til byggingar Hofs á Akureyri og Eldheima í Vestmannaeyjum af hluta þess andvirðis sem fékkst fyrir sölu Símans.

Á Fljótsdalshéraði er samstaða um að leggja til uppbyggingu menningarhúss í Sláturhúsinu og í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Um er að ræða breytingar á neðri hæð Sláturhússins sem yrði ætluð undir sýningar, vinnustofur, ungmennastarf auk íbúðaraðstöðu fyrir listamenn og frágang frystiklefa á efri hæð þar sem verða rými fyrir sviðslistir, tónlist, sýningar og fleira. Við Safnahúsið verði reist önnur burst sem gert var ráð fyrir í upphaflegu teikningum. Þar er ætlunin að verði aðstaða fyrir sýningar, minni uppákomur s.s. fyrirlestra, tónlistarflutnings auk fundaraðstöðu og aðstöðu fyrir fræði- og rannsóknarstörf.

Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 480 m.kr. og yrði kostnaður ríkisins 288 m.kr. en sveitarfélagsins 192 m.kr. miðað við hlutfallsskiptinguna 60/40 líkt og við byggingu annarra menningarhúsa á landsbyggðinni.

Í viljayfirlýsingunni kemur meðal annars fram að miðað er við að heildarkostnaður verði eigi hærri en 480 m.kr. miðað við byggingarvísitölu eins og hún er í september 2016, þar með talið hönnun, búnaður og allur annar kostnaður svo húsnæðið verði hæft til þeirrar nýtingar sem samþykkt verður. Kostnaðarskipting verði með þeim hætti að hlutur ríkisins verður 60 hundraðshlutar á móti 40 hundraðshlutum sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs, líkt og við byggingu annarra menningarhúsa á landsbyggðinni. Fljótsdalshérað mun annast og bera ábyrgð á framkvæmdum og bera allan kostnað af þeim umfram 480 m.kr. heildarkostnað.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti mun beita sér fyrir 288 m.kr. fjárframlagi úr ríkissjóði en sveitarfélagið fyrir 192 m.kr. fjárframlagi samkvæmt ofangreindri kostnaðarskiptingu. Stuðningur þessi kemur ekki í veg fyrir að fleiri aðilar komi að frekari uppbyggingu menningaraðstöðu í sveitarfélaginu.

Með vísan til 5. og 21. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál mun ráðuneytið gera tillögu um að í fjármálaáætlun ársins 2018 verði gert ráð fyrir þessu verkefni og að tillaga um fjárheimildir vegna þess verði lögð fram sem hluti af frumvarpi til fjárlaga ársins 2018.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta