Sjálfbær fjármögnunarrammi ríkissjóðs uppfærður og viðauki um fjármögnun jafnréttisverkefna gefinn út
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út uppfærðan fjármögnunarramma fyrir sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs, en upphaflegur rammi var gefinn út í september 2021. Við uppfærslu á rammanum voru fyrst og fremst gerðar minniháttar breytingar til að tryggja að tekið sé mið af nýjustu alþjóðlegu viðmiðunarreglum. Auk uppfærslunnar hefur verið gefinn út viðauki við fjármögnunarrammann um fjármögnun verkefna sem stuðla að kynjajafnrétti. Þetta gerir ríkissjóði kleift að fjármagna sig m.a. með útgáfu sjálfbærra, grænna, blárra, félagslegra og/eða kynjaðra skuldabréfa, innanlands og erlendis.
Gerð sérstaks viðauka um jafnrétti endurspeglar áherslur ríkisstjórnarinnar á jafnréttismál og valdeflingu kvenna og metnað til að vera í fararbroddi þegar að kemur að beitingu tækja opinberra fjármála og fjármálamarkaða til að stuðla að jafnrétti. Vinnan við viðaukann var leidd af fjármála- og efnahagsráðuneytinu með þátttöku frá öðrum ráðuneytum og stofunum auk sérfræðiráðgjafar frá UN Women.
Markaður með sjálfbær skuldabréf hefur vaxið hratt á undanförnum áratug og fjölbreytileiki aukist. Líkt og með önnur sjálfbær fjármögnunartæki er aukin eftirspurn eftir fjárfestingartækifærum sem stuðla að sjálfbærni og jafnrétti, en enn sem komið er hefur ekkert ríki gefið út sérstök kynjuð skuldabréf (e. gender bonds).
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Uppfærsla á fjármögnunarrammanum er mikilvægt skref í átt að útgáfu sjálfbærra skuldabréfa en við sjáum stöðugt aukna eftirspurn eftir slíkum bréfum. Sérstakur viðauki um kynjajafnrétti er spennandi viðbót. Við erum, og ætlum áfram að vera, í fararbroddi á alþjóðavísu þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Hér horfum við sérstaklega til opinberu fjármálanna og hvernig hægt er að virkja fjármálamarkaði í auknum mæli á því sviði.“
Með útgáfu undir þessum fjármögnunarramma er verið að fjármagna skilgreind útgjöld ríkissjóðs og má skipta þeim í fjóra flokka:
- Græn verkefni (loftslags- og umhverfismál); t.d. orkuskipti í bílaflota og þungaflutningum, innviðir fyrir rafhjól og reiðhjól, grænar byggingar, varnir gegn snjóflóðum og náttúruvá, aðlögun að hringrásarhagkerfinu, skógrækt, endurheimt votlendis o.fl.
- Blá verkefni (loftslags- og umhverfismál tengd hafinu, sjávarútvegi og tengdum greinum); t.d. rafvæðing hafna, orkuskipti skipa og ferja, átak í fráveitumálum o.fl.
- Félagsleg verkefni; t.d. félagslegt húsnæði, sjúkrarými, stuðningur við fólk með mismikla starfsgetu, aðgerðir til að draga úr brotthvarfi úr framhaldsskóla o.fl.
- Jafnréttisverkefni; t.d. fjárfesting í umönnunarhagkerfinu til að draga úr ólaunuðum umönnunarstörfum kvenna, félags- og efnahagslegur stuðningur við konur í viðkvæmri stöðu, aðgerðir til að koma í veg fyrir, bregðast við og rannsaka kynferðisbrot, stuðningur og styrkir til frumkvöðla sem tilheyra hópum sem hallar á o.fl.
Allir verkefnaflokkar eru taldir styðja við framgang eins eða fleiri af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjónanna og saman taka þeir til allra markmiðanna 17.
Fjármögnunarramminn og viðaukinn hafa verið yfirfarnir af sjálfsæðum vottunaraðila, CICERO Shades of Green, sem er nú hluti af S&P Global. CICERO gefur grænum og bláum verkefnum „dökkgræna“ einkunn (e. Dark Green) sem er besta mögulega einkunn, en sú einkunn gefur til kynna að verkefni sem ætlunin er að fjármagna, stuðli að langtímasýn sem miðar að minni kolefnislosun og aðlögun að loftslagsbreytingum. Félagsleg- og jafnréttisverkefni eru ekki metin með sama hætti en fá mjög jákvæða umsögn. Að áliti CICERO, miða þau félagslegu verkefni sem metin eru hæf, að því að styrkja félagslega innviði á Íslandi með trúverðugum hætti og eru þau talin styðja við aðgerðir sem ætlað er að mæta þeim áskorunum sem taldar eru mest aðkallandi á sviði jafnréttismála.