Hoppa yfir valmynd
16. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Viljayfirlýsing um aukið samstarf Íslands og Alþjóðabankans á sviði fiskimála

Guðlaugur Þór og Laura Tuck á fundinum í dag. Ljósmynd: EBH - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fund með Lauru Tuck varaforseta hjá Alþjóðabankanum á sviði sjálfbærrar þróunar. Á fundinum var skrifað undir viljayfirlýsingu milli Íslands og Alþjóðabankans um aukið samstarf á sviði sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda og málefna hafsins. Í viljayfirlýsingunni felst að Ísland styðji við verkefni bankans á þessu sviði, bæði með íslenskri sérfræðiþekkingu og með stuðningi við fiskimál og fiskimannasamfélög á þeim stöðum þar sem bankinn er með verkefni fyrir, til dæmis í Vestur-Afríku. Samskonar samstarf er nú þegar í gildi á sviði jarðhitanýtingar.

„Þetta aukna samstarf við bankann er mikilvægur þáttur í að nýta íslenska sérþekkingu í þróunarverkefnum og koma henni á framfæri innan alþjóðastofnana, en á það var einmitt lögð áhersla í skýrslu stýrihóps um utanríkisþjónustu til framtíðar á síðasta ári,“ segir Guðlaugur Þór. Á fundinum greindi utanríkisráðherra frá áherslu Íslands á málefni hafsins í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands og mikilvægi samstarfs Íslands og Alþjóðabankans á því sviði, enda  Alþjóðabankinn einn mikilvægasti fjármögnunaraðili sjálfbærrar þróunar.

Laura Tuck þakkaði Íslandi fyrir góða samvinnu á sviði sjálfbærrar auðlindanýtingar. Hún tók fram að stuðningur Íslands muni nýtast vel í verkefnum í aðildarríkjum bankans. Mikil þörf sé á sérfræðiaðstoð á þessu sviði.

Í síðasta mánuði auglýsti utanríkisráðuneytið, í samvinnu við Ríkiskaup, eftir ráðgjöfum til að sinna verkefnum á sviði sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda og verndunar hafsins í alþjóðlegu þróunarsamstarfi. Listi um ráðgjafa skapar grunn fyrir þá sérþekkingu sem hægt verður að leggja til verkefna á vegum Alþjóðabankans og annarra alþjóðastofnana á komandi árum. Opið er fyrir skráningar á listann til kl. 12:00, 25. maí 2018.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta