Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2002

Föstudaginn, 15. nóvember 2002

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 2. maí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett sama dag.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris utan vinnumarkaðar.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 25. janúar 2002, var kæranda tilkynnt um greiðslu fæðingarstyrks. Kærandi fær síðan bréf frá sömu stofnun, dags. 11. febrúar sama ár, þar sem tilkynnt er að greiðslur til hennar séu settar í bið og beðið er um staðfestingu á að hún eigi lögheimili á Íslandi. Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 6. maí 2002 er henni tilkynnt að fyrri úrskurði hafi verið breytt og umsókn hennar um fæðingarstyrk hafi verið synjað.

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Forsaga þessa máls er sú, að í nóvember 2001 fer ég til umboðsmanns Tryggingastofnunar á Sauðárkróki, D og tala við hana um mín mál, ég segi henni að ég sé að hugsa um að eiga barnið mitt úti í B, þar sem að með því móti fái barnið ríkisfang okkar beggja foreldranna (en kærasti minn er frá B). Hún segir mér að það skipti ekki máli fyrir mig og mín réttindi hvar ég eignist barnið þar sem ég eigi og hafi alltaf átt lögheimili á Íslandi. Mér datt aldrei annað í hug en hún færi með rétt mál og ég trúi því enn í dag að hún hafi sagt mér rétt til. Ég læt hana hafa öll mín gögn sem um var beðið, ég hafði verið í mæðraeftirliti hjá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki og þaðan fékk ég vottorð um væntanlega fæðingu barnsins. Allt þetta virtist ætla að ganga eðlilega. 27. nóv. 2001 fer ég svo til B og á mitt barn 22.12.2001. 25. jan. 2002 fæ ég bréf frá Tryggingastofnun um að umsókn mín um fæðingarstyrk hafi verið afgreidd og ég fái kr. 228.090.-

Ég sendi fæðingarvottorð dóttur minnar til Hagstofu og þá fara óvæntir atburðir að gerast. Frá Hagstofu fæ ég bréf 6. febrúar 2002 um að þar sem dóttir mín sé fædd úti í B hafi ég ekki rétt til að skrá lögheimili mitt á Íslandi. Í framhaldi af þessu fæ ég bréf frá Tryggingastofnun 11. febrúar þar sem mér er tilkynnt að styrkurinn er settur á bið. Ég er búin að eiga löng og ströng bréfaskrif og símtöl við Hagstofu, þar sem ég hef mótmælt þessu. Hagstofan virðist svo sl. föstudag 27. apríl úrskurða að lögheimili mitt skuli vera í B og er sá úrskurður afturvirkur til 22. desember 2001 þ.e. á fimmta mánuð aftur í tímann. Þessi dagsetning virðist vera valin í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir að ég fái greiddan eðlilegan fæðingarstyrk. Ég á ekkert lögheimili í B og hef aldrei átt því þar í landi er ég skráð sem ferðamaður og hef þar engin önnur leyfi en dvalarleyfi. Ég kem heim til Íslands aftur 17. maí 2002. Af þessu má sjá að ég tel mig fyllilega eiga rétt á þessum styrk. Ég hef engin réttindi í öðrum löndum og ég átti lögheimili á Íslandi við fæðingu dóttur minnar og alla tíð þar á undan. Ég tel mjög óeðlilegt að slíkur úrskurður sé afturvirkur á fimmta mánuð aftur í tímann og ég og barnið mitt gerð algjörlega réttindalaus.

Ég tel markmiðið með lögum um fæðingarorlof sé ekki að gera fólk algerlega réttlaust og henda því úr landi þegar það á börn sín erlendis. Forsenda þess að ég tók þá ákvörðun að eiga barnið mitt í B en ekki á Íslandi voru þær upplýsingar sem ég fékk hjá fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins að með því væri ég hvorki að skerða mín réttindi né barnsins. Málum er mjög illa komið, ef þær upplýsingar sem maður fær hjá opinberum aðilum koma þannig í bakið á manni, að eftir stendur maður algjörlega réttindalaus."

Með bréfi, dags. 13. maí 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 12. ágúst 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærð er synjun á fæðingarstyrk foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi vegna búsetu erlendis.

Með umsókn dags. 20. nóvember 2001 sótti kærandi um fæðingarstyrk frá febrúar 2002 vegna áætlaðrar fæðingar barns þann 10. janúar 2002. Í umsókninni var tekið fram að móðir hafi ekki verið búsett erlendis á síðustu 14 mánuðum fyrir áætlaða fæðingu.

Tryggingastofnun ríkisins fékk sent afrit af bréfi þjóðskrár Hagstofu Íslands til kæranda dags. 6. febrúar 2002 í tilefni þess að borist hafði fæðingarvottorð dóttur hennar þar sem fram kom að hún fæddist erlendis. Kæranda var þar gefinn mánaðarfrestur til þess að færa sönnur á hún ætti rétt til skráningar lögheimilis á Íslandi.

Kæranda var með bréfi lífeyristryggingasvið dags. 11. febrúar tilkynnt að greiðslur fæðingarstyrks til hennar hafi verið settar í bið vegna þess að borist hafi bréf frá Hagstofu Íslands þar sem hún sé beðin um að staðfesta lögheimili á Íslandi. Greiðslur til hennar séu settar í bið þar til staðfesting hafi borist um að hún eigi lögheimili á Íslandi.

Lögheimili kæranda og dóttur hennar var síðan þann 23. apríl 2002 flutt til B um leið og dóttir hennar var skráð í þjóðskrá og miðað við fæðingardag dóttur hennar þann 22. desember 2001. Það mun vera vinnuregla hjá þjóðskrá í slíkum tilvikum, að ef því er synjað að fyrir hendi sé réttur á að hafa skráð lögheimili á Íslandi og ekki liggja fyrir staðfest gögn um frá hvaða tíma hefur verið um búsetu erlendis að ræða, er breytingu á lögheimili skráð miðað við fæðingardag barns. Lögheimili kæranda og dóttur hennar hefur verið skráð í B síðan.

Kæranda var með bréfi dags. 6. maí 2002 tilkynnt sú breyting frá fyrri úrskurði að umsókn hennar um fæðingarstyrk sé synjað þar sem hún uppfylli ekki það skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks að eiga lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Í 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) er kveðið á um greiðslur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi, þ.e. foreldra sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 13. gr. um starf á innlendum vinnumarkaði fyrir því að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 2. ml. 2. mgr. að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Um lögheimilisskilyrði í 18. gr. laganna er nánar fjallað í 12. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar er kveðið á um að skilyrðið um lögheimilis er í samræmi við búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétt til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Þegar um greiðslur vegna fæðingar er að ræða eru skilyrði fyrir greiðslum búseta hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði á undan eða hafi verið um að ræða búsetu í öðru EES-ríki á síðustu 12 mánuðum á undan að framvísað sé staðfestri yfirlýsingu (E 104) um tryggingatímabil sem lokið er í öðru EES-ríki fyrir þann tíma sem upp á vantar Bandaríkin eru ekki eitt af EES-ríkjunum þannig að þessi undantekning um að tekin sé til greina búseta á síðustu 12 mánuðum í öðru EES-ríki á ekki við. Þá á undantekning í 13. gr. reglugerðarinnar varðandi foreldra sem hafa flutt lögheimili sitt vegna náms ekki heldur við þar sem íslenskir námsmenn í B þurfa ekki að flytja lögheimili sitt þangað heldur getað þeir verið skráðir með lögheimili á Íslandi og aðsetur í B.

Í 9. a. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er fjallað um hver telst vera tryggður á Íslandi. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að það sé sá sem er búsettur hér á landi, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Þegar um greiðslur vegna fæðingar er að ræða eru skilyrði fyrir greiðslum skv. 12. gr. reglugerðarinnar búseta hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði á undan eða hafi verið um að ræða búsetu í öðru EES-ríki á síðustu 12 mánuðum á undan að framvísað sé staðfestri yfirlýsingu (E 104) um tryggingatímabil sem lokið er í öðru EES-ríki fyrir þann tíma sem upp á vantar. B eru ekki eitt af EES-ríkjunum þannig að þessi undantekning um að tekin sé til greina búseta á síðustu 12 mánuðunum í öðru EES-ríki á ekki við. Þá á undantekning í 13. reglugerðarinnar varðandi foreldra sem hafa flutt lögheimili sitt vegna náms ekki heldur við þar sem íslenskir námsmenn í B þurfa ekki að flytja lögheimili sitt þangað heldur getað þeir verið skráðir með lögheimili á Íslandi og aðsetur í B.

Í 2.-3. mgr. 9. gr. a. atl. er kveðið á um að með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga og að Tryggingastofnun ríkisins ákvarði hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi skv. lögunum.

Í 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 er kveðið á um að lögheimili manns sé sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Föst búseta er síðan skilgreind á þann veg að maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Í 2. gr. laganna er síðan kveðið á um að hver sá sem dvelst eða ætlar að dveljast á Íslandi í sex mánuði eða lengur skuli eiga lögheimili hér á landi og að sá sem dvelst eða ætlar að dveljast í landinu vegna atvinnu eða lengur megi eiga lögheimili hér.

Í samræmi við 2. gr. lögheimilislaga hefur verið litið svo á einstaklingur geti að jafnaði dvalið erlendis í allt að 6 mánuði án þess að flytja lögheimili sitt. Kærandi kveðst í kæru dags. 2. maí 2002 hafa dvalist í B frá 27. nóvember 2001 og að hún muni koma aftur til Íslands 17. maí 2002. Ekki liggja fyrir staðfestar upplýsingar um það hvenær kærandi fór til Bandaríkjanna og hvort kærandi sé kominn aftur hingað til lands eða ef svo er hvenær.

Þar sem Hagstofa Íslands flutti lögheimili kæranda til B miðað við fæðingu dóttur hennar tveimur og hálfum mánuðum eftir bréf þar sem henni var gefinn mánaðarfrestur til að sýna fram á að hún hefði rétt á að halda lögheimili hér á landi er ljóst að kannað hefur verið ítarlega hvar rétt væri að telja kæranda búsetta. Lífeyristryggingasvið hefur ekki séð fæðingarvottorð barns hennar en líklegt er að þar sé að finna upplýsingar sem gefa tilefni til að telja kæranda vera búsetta í B og að kærandi hafi ekki sýnt fram á annað.

Lífeyristryggingasvið telur skv. framansögðu að kærandi hafi verið búsett í B við fæðingu barns síns og hafi því ekki átt rétt á fæðingarstyrk hér á landi ."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. ágúst 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dagsett 18. ágúst 2002, þar sem nánar er lýst áður fram komnum sjónarmiðum kæranda.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem foreldris utan vinnumarkaðar.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks í fæðingarorlofi í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar barns. Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barnsins og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir fæðingardag, sbr. 2. mgr. 18. gr. ffl., sbr. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Um lögheimilisskilyrði 18. gr. er nánar fjallað í 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks og um undanþágur frá lögheimilisskilyrði í 13. gr. sömu reglugerðar.

Í athugasemdum með 18. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 segir að skilyrði fyrir rétti til fæðingarstyrks sé að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Átt sé við lögheimili í skilningi lögheimilislaga nr. 21/1990. Skilyrði um lögheimili hér á landi sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett sé fyrir rétti til almannatrygginga.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Ekki er í ffl. né reglugerð nr. 909/2000 að finna heimild til að víkja frá lögheimilisskilyrði 2. mgr. 18. gr. ffl. hvað varðar rétt foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi til greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar er heimilt að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem um ræðir í 1. mgr. sömu greinar. Þar sem kærandi dvaldi utan Evrópska efnahagssvæðisins kemur ákvæðið ekki til álita í máli þessu.

Kærandi ól barn 22. desember 2001. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Íslands var hún á þeim tíma með lögheimili í B.

Það vekur athygli úrskurðarnefndar að kærandi var skráð með lögheimili hér á landi til 23. apríl 2002. Þegar Hagstofa Íslands fékk upplýsingar um fæðingu barnsins í B, þá var lögheimilið kæranda skráð afturvirkt til Bandaríkjanna frá 22. desember 2001 og var miðað við fæðingardag dóttur hennar. Kærandi hafði þá einungis dvalið frá 27. nóvember 2001 í B. Álitaefni varðandi rétt kæranda til að eiga lögheimili hér á landi fellur utan úrskurðarvalds úrskurðarnefndarinnar.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Íslands uppfyllir kærandi ekki skilyrði þess að fá greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Ósk Ingvarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta