Hoppa yfir valmynd
29. október 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 37/2002

Þriðjudaginn, 29. október 2002

 

A

 gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 3. júlí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. sama dag.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni, með bréfi dags. 5. apríl 2002.

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Ég hef ekki getað stundað fullt nám í Háskóla Íslands sökum fötlunar barns míns, fætt 21. janúar 1998, þar sem ég hef metið það svo að ég hef þurft að aðstoða það meira heima og þess vegna haft minni tíma til heimanáms. Ég hef þó reynt að auka við mig einingum á hverri önn eftir því hvaða námskeið hafa verið í boði.

Ég fæddi sveinbarn 16. apríl 2002. Síðustu sextán mánuði fyrir fæðingu var þannig háttað: Á vorönn 2001 var ég með 13,5 einingar í töflu. Frá maí – sept. 2001 vann ég 50% vinnu hjá B. Á haustönn 2001 er ég með 9 einingar í töflu sem voru síðustu einingar fyrir lokaverkefni. Mér finnst það ekki vera rétt að námsmenn þurfi að taka fleiri einingar en þeir þurfa í raun til að fylla upp í einingafjölda og eru þar með komnir með umfram einingar til þess eins að eiga rétt á fullum fæðingarstyrk. Á vorönn 2002 er ég skráð með 6 einingar í töflu auk þess sem ég vann 20% vinnu hjá B frá janúar til mars. Samkvæmt framansögðu hefði ég þurft að bæta við mig 3-6 einingum á haustönn 2001 og á vorönn 6-9 einingum til þess að vera fullviss um það að fá greiddan fullan fæðingarstyrk sem í raun hefði aldrei gengið upp þar sem ég er rétt við það að ljúka námi frá Háskóla Íslands.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna segir að fæðingarstyrkur til foreldris í fullu námi eigi að vera 74.867 kr. á mánuði. Ekki er tekið fram í lögunum hvert fullt nám er. Á staðfestu vottorði frá Háskóla Íslands er ég skráð í fullt nám frá janúar 2001 til maí 2002. Á önnunum 2001 tók ég allar þær einingar sem ég þurfti til að ljúka námi mínu."

Með bréfi, dags. 2. ágúst 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 13. ágúst 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Kærandi óskar eftir að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

Almennt er miðað við að 100% nám við Háskóla Íslands nemi 15 einingum á önn. Lágmarksfjöldi eininga til að skilyrða 14. gr. rgl. um fullt nám sé uppfyllt er því 11 á önn. Kærandi uppfyllir ekki þetta skilyrði og varð að synja umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna. Með hliðsjón af niðurstöðu Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í kærumáli nr. 47/2001 var sú staðreynd að kærandi var að ljúka námi og tók því ekki fullan einingafjölda ekki talin geta haft áhrif á afgreiðslu umsóknar hennar."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. ágúst 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 20. ágúst 2002, þar segir m.a.:

"Í greinargerð frá TR dags. 13. ágúst sl. segir að 11 einingar þurfi til að uppfylla skilyrði um fæðingarstyrk námsmanna. Eins og ég hef áður bent á tók ég allar þær einingar sem ég þurfti til að ljúka námi mínu. Einnig kemur fram í bréfi mínu dags. 19. júní sl. að ég er með 13,5 einingar á vorönn 2001 en einungis 9 einingar á haustönn 2001 sem eru mínar síðustu einingar og lít ég svo á að miðað við almanaksárið 2001 uppfylli ég því skilyrðið um fæðingarstyrk námsmanna.

Í því námi sem ég legg stund á sem aðalgrein við HÍ er oft ekki um auðugan garð að gresja í námskeiðavali og því hef ég reynt að taka þau sem hafa verið í boði með hliðsjón af áður völdum valkúrsum. Þar sem ég tek aðalgreinina til 60 eininga eru aðeins 15 einingar þar af sem valeiningar.

Mig langar einnig að benda á mál nr. 48/2001 og tek undir það sem þar er sagt í bréfi frá kæranda að fólk útskrifast á mismunandi tímum árs og kvenstúdentum er gert "ókleyft að eignast börn á fyrri hluta árs, þar sem ekki er fræðilegur möguleiki að uppfylla kröfuna um 6 mánaða samfellt nám"

Í lokin langar mig að benda á að í lögunum varðandi skólafólk er ekki hægt að tala um jafnrétti þar sem verðandi faðir sem er námsmaður hefur alla möguleika á að halda áfram í sínu námi án tillits til þess á hvaða tíma árs barnið fæðist. Í ljósi þessa finnst mér það því vera athugandi að gera róttæka breytingu hvað varðar fæðingarstyrk til námsmanna."

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Jafnframt segir að sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Með hliðsjón af því að kærandi elur barn 16. apríl 2002, er tólf mánaða viðmiðunartímabilið samkvæmt framangreindu frá apríl 2001 til og með mars 2002. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í fullu námi á vorönn 2001. Kærandi var hvorki á haustönn 2001 né á vorönn 2002 í fullu námi samkvæmt yfirliti frá Háskóla Íslands yfir námsferil hennar. Þar af leiðandi uppfyllir kærandi ekki það skilyrði að hafa verið í fullu námi í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi því ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur til kæranda er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir hdl.

Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri

Ósk Ingvarsdóttir læknir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta