Hoppa yfir valmynd
29. október 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2002

Þriðjudaginn, 29. október 2002

 

A

 gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 6. mars 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 5. mars 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 14. desember 2001, var kæranda tilkynnt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Nú er það þannig hjá Tryggingastofnun ríkisins að þegar reiknað er fæðingarorlof eru teknir saman síðustu tólf mánuðir sem viðkomandi er með í tekjur og meðaltal reiknað úr frá því. Nú ef skólaganga eða eitthvað slíkt er fyrir hendi er gengið út frá einhverju lágmarki.

Í mínu tilviki þá vann ég í búð frá 07 á morgnana til 12 á hádegi og mætti síðan beint í skólann B kl. 13.00-17.00. Þetta var mjög strembið og lýjandi því vinnan jafnt sem námið var mjög krefjandi.

Tvo af þessum mánuðum var ég því miður atvinnulaus vegna þess að vinna sem mér var boðið í kjölfar námsins dróst aðeins á langinn. Og gamli vinnuveitandinn var búinn að ráða starfskraft í minn stað."

Með bréfi, dags. 7. mars 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. mars 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærður er útreikningur á fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi er ósáttur við að ekki skuli vera tekið tillit til þess að hann var í skóla og lækkaði starfshlutfall sitt vegna þess.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Í ffl. er ekki tekið sérstaklega á því hvernig fara skuli með umsóknir um greiðslur í þeim tilvikum þegar foreldrar eru í námi og starfi á sama tíma. Í þeim tilvikum þegar foreldrar uppfylla bæði skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks námsmanna hefur lífeyristryggingasvið litið svo á að umsækjandi mætti velja þann kostinn sem hagstæðari væri. Að minnsta kosti er ljóst að réttindin verða ekki lögð saman til hækkunar á greiðslum.

Tekið skal fram að kærandi sótti einungis um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Hvorki kom fram á umsókn hans að hann væri í námi, né fylgdi umsókninni skólavottorð. Ekki var því tekið tillit til þess við afgreiðslu málsins. Hefði kærandi lagt fram fullnægjandi gögn um nám sitt, og að því gefnu að hann hefði uppfyllt skilyrði ffl. og 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um fullt nám, hefði hann getað valið að fá greiddan fæðingarstyrk sem námsmaður í stað greiðslna úr Fæðingarorlofssjóð. Fjárhæð styrksins var við fæðingu barnsins kr. 79.077 en hækkaði þann 1. janúar sl. í kr. 85.798. Þar sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda nema kr. 94.481 er ljóst að þær greiðslur eru hagstæðari kosturinn fyrir hann."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 22. mars 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof skal miða við almanaksmánuði við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í framangreindri 13. gr. ffl. er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við meðaltal heildarlauna á viðmiðunartímabilinu. Í lögunum eru engin ákvæði sem heimila frávik vegna þess að foreldri hafi verið í námi með starfi.

Barn kæranda fæddist 30. nóvember 2001. Viðmiðunartímabil útreiknings samkvæmt framangreindu verður því frá september 2000 til og með ágúst 2001.

Kærandi uppfyllir skilyrði þess að fá greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Hluta viðmiðunartímabilsins var hann samtímis við nám í skólanum B og við störf á vinnumarkaði. Með vísan til þess sem að framan greinir telur nefndin að eigi sé heimild til að breyta útreikningi greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði af þeim sökum.

Ekki verður lagt mat á það hvort kærandi uppfyllti skilyrði þess að fá greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Svo sem fram er komið uppfyllir kærandi skilyrði þess að fá greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði en sú greiðsla er hærri en greiðsla fæðingarstyrks til námsmanns.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir hdl.

Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri

Ósk Ingvarsdóttir læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta