Nr. 142/2017 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 14. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 142/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU16120066
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 4. janúar 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. desember 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Danmerkur.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 1. mgr. 36. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 42. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og og 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests sbr. sama ákvæði.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 4. nóvember 2016. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 8. nóvember 2016, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku, Bretlandi og Svíþjóð. Þann 15. nóvember 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 23. nóvember 2016 barst svar frá dönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 12. desember 2016 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Danmerkur. Kærandi kærði ákvörðunina þann 4. janúar 2017 til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 20. desember 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 11. janúar 2017. Viðbótargögn í málinu bárust 24. janúar, 6. febrúar og 7. febrúar 2017. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Danmerkur. Lagt var til grundvallar að Danmörk virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Danmerkur ekki í sér brot gegn 45. gr. laga þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. sömu laga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Danmerkur, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur jafnframt fram að í viðtali við kæranda kom fram að hann greindist með [...] í Danmörku fyrir u.þ.b. fimm árum síðan. Kærandi væri því að öllum líkindum í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Heilbrigðiskerfið í Danmörku væri með því betra sem gerist í heiminum og Danmörk í tíunda sæti yfir ríki OECD sem eyði hvað mestum fjármunum til heilbrigðiskerfisins. Þá var vísað til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi frá 21. janúar 2011 (nr. 30696/09) en þar kæmi fram að þegar vísbendingar væru um að aðildarríki meðhöndli ekki hælisleitendur í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar beri öðrum aðildarríkjum að nýta undanþáguákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar og taka málið til efnismeðferðar. Ekkert benti þó til þess að dönsk stjórnvöld fari ekki eftir þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem þau gangist við. Við mat á því hvort unnt væri að endursenda einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar var bent á niðurstöðu Mannréttindadómstólsins í máli A.S. gegn Sviss frá 30. júní 2015 (nr. 39350/13). Þar taldi dómurinn að það væri ekki brot á 3. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að flytja aftur til Ítalíu sýrlenskan hælisleitanda sem þjáðist af alvarlegri áfallastreituröskun og átti auk þess fjölskyldu í Sviss. Talið var að mál Sýrlendingsins fæli ekki í sér þær mjög óvenjulegu aðstæður sem þyrfti til að ná alvarleikastigi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að þegar framangreind atriði væru metin í heild væri það mat stofnunarinnar að ekkert standi því í vegi að unnt sé að senda kæranda aftur til Danmerkur.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Fram kemur í greinargerð kæranda að hann komi frá […] á landamærum […] og […] þar sem finna megi hinn alræmda […]. Orsakir flótta kæranda frá […] megi rekja til hótana […] en kærandi hafi unnið fyrir […] herinn sem túlkur.
Í greinargerð kemur fram að kærandi sé haldinn mjög alvarlegum geðsjúkdómi en í Danmörku hafi hann verið greindur með […]. Þá hafi hann jafnframt verið talinn […]. Kærandi taki lyf vegna sjúkdóms síns og hafi hann einnig hitt lækna hér á landi vegna veikinda sinna. Þá hafi kærandi einnig sótt opin úrræði […], en það hafi reynst honum afar hjálplegt. Undir andmælum umsækjanda í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að kærandi sé umsækjandi um alþjóðlega vernd sem sé að öllum líkindum í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Fram kemur í greinargerð að miðað við staðfestan sjúkdóm kæranda liggi ljóst fyrir að hann falli undir skilgreiningu 6. tl. 3. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga sem aðili með mjög alvarlega geðröskun eða geðfötlun.
Meðal gagna málsins sé synjun danska dómsmálaráðuneytisins um dvalarleyfi af mannúðarástæðum til handa kæranda, eftir að málið hafði verið endurupptekið þar úti. Niðurstöður hinna dönsku stjórnvalda séu athyglisverðar fyrir þær sakir hve mikið traust þau beri til Medical Country of Origin Information (MedCOI) annars vegar og hins vegar fyrir það hve auðveldlega þau telji að kærandi geti flust á milli staða í […]. Auðveldlega megi finna gagnrýni lærðra manna á upplýsingarnar í MedCOI um að þær byggi frekar á fræðilegu aðgengi en raunverulegu til lyfja og læknishjálpar og því hve lokaður gagnagrunnurinn er en þannig sé erfitt fyrir óháða að sannreyna upplýsingarnar úr honum. Í því sambandi sé vert að vekja athygli á því að dönsk stjórnvöld virðist ekki kanna verð hinna nauðsynlegu lyfja í […] í ákvörðun sinni en svarið við spurningunni um hvort þau séu fáanleg verði í raun til einskis ef þau reynist of dýr fyrir kæranda eins og líklegt megi telja. Varðandi endursendingu kæranda til […] og möguleikann fyrir kæranda til að flytja sig um set þar til þess að geta nálgast þau lyf og þá læknishjálp sem honum sé nauðsynleg er vísað til skýrslu Flóttamannastofnunar […].
Dönsk stjórnvöld hyggi þannig ekki aðeins á endursendingu kæranda þvert á tilmæli Flóttamannastofnunar heldur vinni þau alls ekki það nauðsynlega mat sem tilmælin kveði á um þegar gera eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd það að flytja sig um set í heimaríki. Séu þetta stórir vankantar á hinni dönsku ákvörðun. Ákvörðun Útlendingastofnunar byggi alfarið á samþykki danskra stjórnvalda sem samþykki endurviðtöku með vísan til d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.
Fram kemur í greinargerð að krafa kæranda um að verða ekki sendur aftur til Danmerkur byggi aðallega á því að þangað megi ekki senda hann vegna non-refoulement reglu þjóðarréttar. Þannig megi færa fyrir því sterk rök að sem einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu muni þær aðstæður sem búast megi við í Danmörku vera svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá standi kærandi frammi fyrir staðfestri hættu á að vera sendur frá Danmörku til […]. Samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga megi hvorki senda útlending til svæðis þar sem hann sé í yfirvofandi hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð né þangað þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis. Samkvæmt gögnum málsins megi fella mál kæranda undir c-lið 1. mgr. 36. gr. um útlendinga en af hálfu kæranda er talið augljóst að þrátt fyrir að fella megi mál kæranda undir þann lið sé ótækt að beita heimildinni í tilviki kæranda. Þvert á móti njóti hann verndar 42. gr. laga um útlendinga sem mæli fyrir um áðurnefnda non-refoulement reglu. Þá er vísað til þess að ákvæði 1. mgr. 36. gr. laganna kveði á um heimild til að synja um efnismeðferð en ekki skyldu.
Verði ekki fallist á að endursending kæranda til Danmerkur brjóti í bága við 42. gr. laga um útlendinga er vísað til þess að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í slíkum tilvikum beri stjórnvöldum skylda til að taka umsókn til efnismeðferðar með vísan til orðalags ákvæðisins.
Í greinargerð kæranda kemur fram að Danmörk reki eina ströngustu innflytjendalöggjöf í Evrópu og að málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna séu mjög eldfim þar í landi. Fjölmörg tilvik hafi komið upp þar sem ráðist hafi verið á búsetuúrræði umsækjenda um alþjóðlega vernd eða hjálparstofnanir sem aðstoði umsækjendur og innflytjendur. Þegar straumur flóttamanna hafi farið að aukast á árunum 2014 og 2015 hafi ríkisstjórn Danmerkur beitt sér gegn því að flóttamenn leiti til landsins. Auglýst hafi verið í dagblöðum […] að flóttafólk væri ekki velkomið í Danmörku. Lög hafi verið sett sem kveðið hafi á um rétt ríkisins til að leggja hald á verðmæti þeirra flóttamanna sem komið hafi inn í landið. Þann 24. maí 2016 hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu í máli Biao gegn Danmörku (mál nr. 38590/10) að dönsku lögin um fjölskyldusameiningu flóttamanna hafi brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.
Í greinargerð kæranda er bent á að mannréttindavandamál séu til staðar í hæliskerfinu í Danmörku og að greint hafi verið frá þessum vandamálum í opinberum skýrslum. Þau vandamál sem um ræði séu t.a.m. ófullnægjandi heilbrigðisskoðun og aðgangur að heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga sem fengið hafi synjun á umsókn sinni, vanhöld á því að lögregluþjónar beri auðkenni og lagalegar takmarkanir á ferðafrelsi. Þá hafi takmarkanir á möguleikum umsækjenda um alþjóðlega vernd til þess að vinna eða stofna fyrirtæki verið gagnrýndar. Þá er af hálfu kæranda vísað til þess að fram hafi komið gagnrýni á langvarandi varðhald einstaklinga sem fengið hafi synjun á umsókn sinni auk þess sem ekki sé nægilega gætt að greiningu sérstaklega viðkvæmra einstaklinga, svo sem þolenda pyndinga, fólks með geðræn vandamál og barna.
Gerðar eru alvarlega athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og röksemdir hennar í greinargerð kæranda. Útlendingastofnun vitni til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli A.S. gegn Sviss frá 30. júní 2015 (nr. 39350/13) niðurstöðu sinni til stuðnings. Af hálfu kæranda er mikilvægi og þeim skilningi sem stofnunin leggi í dóminn mótmælt. Í dóminum hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd þjáðst af áfallastreituröskun eingöngu og dómstóllinn hafi tekið það sérstaklega fram að viðkomandi væri ekki alvarlega veikur. Í tilviki kæranda þjáist hann ekki eingöngu af […] heldur einnig af alvarlegum geðsjúkdómi, […]. Málavextir kæranda líkist því mun meira dómi Mannréttindadómstólsins í máli D gegn Bretlandi frá 2. maí 1997 (nr. 30240/96) þar sem brottvísun fársjúks aðila var talin vera brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá fjalli Útlendingastofnun í ákvörðun sinni um ágæti heilbrigðiskerfisins í Danmörku án þess að nefna það að kærandi muni ekki geta notið þess þar sem hans bíði áframsending til […]. Íslensk stjórnvöld geti ekki horft framhjá þeirri staðreynd að kæranda hafi nú þegar verið hafnað um alþjóðlega vernd í Danmörku og verði sendur til […]. Heilbrigðiskerfi […] sé slæmt en […]% íbúa landsins hafi engan aðgang að lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.
Þá er á það bent í greinargerð að kerfisbundinn galli á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríki sé ekki ákvörðunarástæða fyrir því að umsókn sé tekin til meðferðar í öðru aðildarríki en því sem beri ábyrgð skv. Dyflinnarreglugerðinni. Það fái stoð í greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu, frá desember 2015. Þar komi meðal annars fram að nýlegir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafi skýrt að það sé ekki nauðsynlegt að sýna fram á kerfislæga annmarka á málsmeðferð eða móttöku umsækjenda í viðtökulandinu heldur skuli miða við það hvort veruleg ástæða sé til að ætla að hlutaðeigandi einstaklingur standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð í viðtökuríkinu sem samrýmist ekki 3. gr. mannréttindasáttmálans.
Byggt er á því, verði ekki fallist á aðalkröfu, að við ákvarðanatöku í máli kæranda hafi svo gróflega verið brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsókn stjórnvalds, að ekki komi annað til greina en að ógilda ákvörðunina og taka umsóknina til meðferðar hjá Útlendingastofnun að nýju. Varðandi rannsókn Útlendingastofnunar er bent á í greinargerð að niðurstöður stofnunarinnar séu ekki studdar nægum gögnum. Heimildir er finna megi í greinargerð kæranda hreki í mikilvægum atriðum rökstuðning Útlendingastofnunar og sýni að nákvæmari rannsóknar sé þörf. Með tilliti til 10. gr. stjórnsýslulaga og 22. gr. sömu laga, um efni rökstuðnings, verði að gera þá kröfu að Útlendingastofnun vísi ítarlega til heimilda máli sínu til stuðning. Skortur á heimildum geti ekki talist nægur grundvöllur fyrir jafn íþyngjandi ákvörðunum eins og raun beri vitni í máli kæranda. Af hálfu kæranda sé því haldið fram að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 10. gr. stjórnsýslulaga um að við ákvörðun skuli stjórnvald rannsaka mál til þaula. Rannsóknarreglan sé öryggisregla og leiði brot á henni alla jafna til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Í rannsóknarreglunni felist m.a. sú skylda stjórnvalds að sjá til þess, af eigin frumkvæði, að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Um þetta atriði vísast til bréfs Umboðsmanns Alþingis til forstjóra Útlendingastofnunar frá 5. ágúst 2015. Þar komi fram í 3. kafla bréfsins að þegar kemur að samspili reglna stjórnsýsluréttarins um rannsókn mála, andmælarétt og leiðbeiningarskyldu stjórnvalds sé ábyrgð þess mikil við að undirbúa mál sín vel.
Verði hvorki fallist á aðalkröfu né varakröfu kæranda er sú krafa gerð til þrautavara að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Fyrir liggur í máli þessu að dönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Danmerkur er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.
Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Kærandi hefur við málsmeðferð hjá kærunefnd útlendingamála lagt fram margvísleg gögn er varða m.a. heilsufar hans. Þar á meðal er ákvörðun dómsmálaráðuneytisins í Danmörku varðandi beiðni kæranda um endurskoðun á umsókn hans um dvalarleyfi af mannúðarástæðum, dags. 20. maí 2014. Þar kemur fram að í læknisfræðilegum gögnum er lágu fyrir í máli kæranda í Danmörku komi fram að kærandi þjáist af […] og taki lyf við þessum sjúkdómum. Þá hafi kærandi sögu um […] auk þess sem hann þjáist af […]. Kærandi hefur ennfremur lagt fram tvö læknabréf frá Magnúsi Haraldssyni geðlækni á Landsspítalanum. Í bréfi Magnúsar frá 19. janúar 2017 kemur fram að kærandi hafi sögu um […] og hafi verið greindur með […] í Danmörku. Fram kemur í bréfinu að kærandi hafi verið í verulegu ójafnvægi vikurnar á undan, […]. […] Kærandi sýni merki áfallastreitu sem séu viðvarandi kvíði, svefntruflanir og hann þoli illa áreiti og margmenni. Ljóst sé að kærandi sé með alvarleg geðræn veikindi og þurfi að vera í meðferð […]. Þá auki álag tengt óvissu um umsókn hans um alþjóðlega vernd eflaust á einkenni og vanlíðan hans. Í seinna bréfi Magnúsar frá 1. febrúar 2017 er lagt mat á hvaða áhrif flutningur kæranda til Danmerkur muni hafa á andlegt ástand hans. Þar segir meðal annars að það sé mat læknis að fari kærandi á stað þar sem hann hafi ekki tryggan samastað eða finni fyrir lágmarks öryggi sé hætt við að líðan hans versni verulega […]. Í ljósi framangreindra gagna um heilsufar kæranda er það mat kærunefndar að andleg veikindi kæranda séu þess eðlis að hann teljist vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.
Heilsufar er einn af þeim þáttum sem stjórnvöldum ber að líta til við mat á því hvort aðstæður umsækjanda um alþjóðlega vernd teljist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mæli þannig með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar. Fara þarf fram heildstætt mat á aðstæðum umsækjanda þar sem litið er til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki, þ.m.t. hvort sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandi hefur aðgang að í viðtökuríki sé fullnægjandi. Kærunefnd leggur áherslu á að mat á því hvort heilsufar umsækjanda teljist sérstakar aðstæður er ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi móttökuríkis heldur þarf matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli með hliðsjón af atvikum málsins. Meðal þeirra atvika sem sérstaklega þarf að líta til eru áhrif flutnings til viðtökuríkis á heilsufar umsækjanda að teknu tilliti til aðstæðna við flutnings, sbr. einkum 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Verði niðurstaða heildstæðs mats á atvikum málsins sú að gögn málsins bendi eindregið til þess að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar komi til með að hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu umsækjanda telur kærunefnd að taka beri slíkar umsóknir til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda sé þá öruggt að einstaklingur verði ekki fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð við framkvæmd slíkrar ákvörðunar, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 68. gr. stjórnarskrárinnar.
Eins og að framan greinir kemur fram í læknisfræðilegum gögnum málsins að kærandi sé með alvarleg geðræn veikindi og þurfi að vera í meðferð […]. Það sé mat læknis að fari kærandi á stað þar sem hann hafi ekki tryggan samastað eða finni fyrir lágmarks öryggi sé hætt við að líðan hans versni […]. Þá hefur komið fram […]. Fyrir liggur að kærandi hefur fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Danmörku og verið synjað um endurupptöku á máli hans varðandi dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku sem fengið hafa endanlega niðurstöðu í máli sínu má ráða að þeim er skylt að dvelja í svokölluðum brottflutningsmiðstöðvum fram að brottvísun þeirra frá landinu. Dæmi eru um að umsækjendur um alþjóðlega vernd dvelji í þessum miðstöðvum í lengri tíma. Í ljósi þeirra upplýsinga sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í brottflutningsmiðstöðvum í Danmörku er það mat nefndarinnar að þær aðstæður séu ekki þess eðlis að kærandi teljist þar hafa tryggan samastað eða finni fyrir lágmarks öryggi. Benda læknisfræðileg gögn málsins, sem eru eins og áður segir umfangsmikil og ítarleg bæði hvað varðar alvarleika veikinda kæranda og mögulegar afleiðingar flutnings, því eindregið til þess að hætt sé á að líðan kæranda versni verulega við flutning til Danmerkur, óháð þeirri heilbrigðisþjónustu sem stendur honum til boða í Danmörku, […]. Í ljósi alvarleika framangreindra sjúkdóma og mögulegra afleiðinga veikindanna fyrir kæranda er það mat kærunefndar að einstaklingsbundnar aðstæður kæranda séu svo sérstakar að í þessu tilviki sé rétt að taka mál hans til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Að öllu framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að þrátt fyrir að staðfesting danskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd liggi fyrir þá beri, eins og hér háttar sérstaklega til, að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar kæranda yfir á íslensk stjórnvöld enda séu fyrir hendi sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á sérstökum aðstæðum kæranda.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.
Anna Tryggvadóttir
Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir