Samþætting heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu í Reykjavík
Heilbrigðisráðuneytið og Velferðaráð Reykjavíkurborgar hafa undanfarna mánuði leitað leiða til að efla heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu í Reykjavík. Skoðað hefur verið með hvaða hætti skynsamlegast er að standa að tilraunaverkefni með þetta markmið í huga og hefur ráðuneytið fyrir nokkru ráðið Friðfinn Hermannsson, viðskiptafræðing hjá Capacent, til þeirra verka.
Frá árinu 2004 hefur verið unnið að því að samþætta félagslega heimaþjónustu Reykjavíkurborgar og heimahjúkrun í Reykjavík. Ráðist var í þetta verkefni í framhaldi af samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara frá árinu 2002. Reynsla af þessu verkefni hefur sýnt að skipulegt samstarf þarna á milli skilar betri yfirsýn yfir þarfir notendanna og heildstæðari þjónustu við hvern og einn. Það er mat ráðherra að það sé tímabært að stíga næstu skref til að ná betri árangri.
Undirbúningur er þegar hafin af hálfu heilbrigðisráðuneytisins við sambærilega samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu víðar, en nokkur sveitarfélög hafa leitað eftir slíku samstarfi að undanförnu.