Stjórnar kerfisbreytingum í heilbrigðisþjónustunni
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ráðið dr. Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur til starfa sem stjórnsýsluráðgjafa í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Sigurbjörg er ráðin tímabundið fram til 1.september 2008 til að stjórna undirbúningi þeirra skipulagsbreytinga sem fyrirhugaðar eru innan heilbrigðisþjónustunnar og sem lúta að endurskoðun á framkvæmd sjúkra- og slysatrygginga almannatrygginga og undirbúningi að starfsemi nýrrar stofnunar sem annast mun kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu.
Sigurbjörg lauk doktorsnámi (PhD) í stjórnsýslufræðum við London School of Economics and Political Science árið 2005, meistaranámi (MSc) í stjórnsýslufræðum við sama skóla 1999, námi í heilsuhagfræði við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands 1997 og í félagsráðgjöf í Osló 1979. Hún var lengst af yfirmaður öldrunarþjónustu hjá Reykjavíkurborg (1989-1999). Þá hefur hún starfað fyrir Alþjóðabankann í Washington sem stjórnsýsluráðgjafi á sviði heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu við aldraða og langveika í Ungverjalandi og Svartfjallalandi (2004).
Sigurbjörg hefur stundað rannsóknir á stefnumótun innan opinberrar stjórnsýslu við Yale University í Bandaríkjunum (2002) og síðar samhliða kennslu í stjórnsýslufræðum við London School of Economics (2006-2007) vann hún að rannsókn á skipulagi stefnumótunarvinnu á skrifstofum forsætisráðherra Breta. Sigurbjörg hefur undanfarið unnið sem stjórnsýsluráðgjafi, fyrst á sviði barnaverndarmála hjá breska menntamálaráðuneytinu og nú síðast við enduskipulagningu á þróunarsamvinnu Íslendinga hjá utanríkisráðuneytinu.
dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir |