Upplýsingar um heilbrigðismál
Í tilkynningu frá Hagstofu Íslands sem stofnunin sendi frá sér í tilefni þess að Efnahags- og framfarastofnunin í París gaf út ritið “Health at a Glance 2007, OECD indicators” segir að í flestum ríkjum OECD hafa lífslíkur aukist mikið á síðustu áratugum. “Árið 2005 voru lífslíkur við fæðingu 81,2 ár á Íslandi en aðeins í Japan (82,1 ár) og Sviss (81,3 ár) voru þær hærri. Lífslíkur voru að meðaltali 78,6 ár í OECD ríkjum. Voru lífslíkur karla hæstar á Íslandi 79,2 ár en lífslíkur íslenskra kvenna í 7. sæti OECD ríkja eða 83,1 ár. Kynjamunur á lífslíkum við fæðingu var 5,7 ár að meðaltali í OECD ríkjunum árið 2005 en minnstur á Íslandi 3,9 ár.”
Í útgáfu af Health at a Glance er nú í fyrsta sinn kafli um gæði heilbrigðisþjónustunnar. Sérfræðingahópur á vegum OECD hefur þróað og valið ákveðna gæðavísa með fulltrúum aðildarríkjanna sem gefa vísbendingar um gæði þjónustunnar á nokkrum sviðum. Val gæðavísa takmarkast af ýmsum þáttum s.s samanburðarhæfni upplýsinga og aðgengi að þeim og ber sérstaklega að hafa það í huga þegar upplýsingar eru skoðaðar frá einstökum ríkjum. Þau svið sem valin voru snúa að meðferð við bráðaástandi, krabbameinsmeðferð, meðferð langvinnra sjúkdóma og forvörnum vegna smitsjúkdóma.
Sjá nánar á vef Hagstofu Íslands