Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Heilsuefling og forvarnir í framhaldsskólum

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, undirrituðu í dag samning við Lýðheilsustöð og samtök framhaldsskólanema sem felur í sér stóraukna áherslu á forvarnir og heilsueflingu í framhaldsskólum landsins.

Verkefnið er til þriggja ára og markmið samningsins eru að

  • stuðla að bættri almennri líðan og heilsu nemenda
  • efla forvarnir gegn vímuefnum í framhaldsskólum
  • bæta og efla ráðgjöf við nemendur á sem flestum sviðum sem snerta velferð þeirra
  • hvetja nemendur til að taka ábyrgð á eigin heilsu og stuðla að heilbrigðum lífsháttum

Menntamálaráðuneytið leggur til starfsmann í þrjú ár til að vinna að verkefninu en hlutverk hans verður að efla starf forvarnarfulltrúa og náms- og starfsráðgjafa í framhaldsskólum. Viðkomandi mun einnig beita sér fyrir samráði við skólameistara framhaldsskóla um forvarnaraðgerðir.

Af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins verður lögð áhersla á að efla tengsl milli heilsugæslu og allra framhaldsskóla. Lýðheilsustöð mun leggja til tvo starfsmenn (annan í 50% starfi) í þrjú ár til að vinna að verkefninu. Hlutverk starfsmanna Lýðheilsustöðvar verður að halda námskeið fyrir nemendur, forvarnarfulltrúa í framhaldsskólum og aðra sem að heilsueflingu og forvörnum koma og að leiða vinnu faghóps samstarfsaðila.

Nemendafélög framhaldsskólanna munu samkvæmt samningnum standa fyrir kynningum meðal framhaldsskólanema og vinna verkefni um heilsueflingu og forvarnir.

Menntamálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og Lýðheilsustöð munu árlega leggja til fjármagn til aðgerða sem tengjast markmiðum verkefnisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta