Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 6. nóvember 2020

Heil og sæl.

Við heilsum á ný eftir annasama viku í utanríkisþjónustunni. Eðlilega hefur vikan einkennst af mikilli spennu vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum en kaffibollum starfsmanna í ráðuneytinu fjölgaði verulega á síðustu dögum sem auðvitað má rekja beint til forsetakosninganna og þeirrar staðreyndar að Ísland er ekki á sama tímabelti og Bandaríkin.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra fundaði stíft í vikunni og gærdagurinn var einkar líflegur. Hæst bar símafund ráðherra með Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna þar sem viðskipta- og efnahagsmál voru í brennidepli og lýsti Guðlaugur Þór meðal annars yfir ánægju með formlegt efnahagssamráð ríkjanna sem sett var á laggirnar eftir fund ráðherranna í fyrra.

„Bein og milliliðalaus samskipti við helstu ráðamenn í okkar mikilvægasta viðskiptalandi eru ómetanleg enda höfum við náð markverðum áföngum undanfarin misseri. Reglubundið efnahagssamráð hefur verið fest í sessi og Íslandsfrumvarpið er nú í umfjöllun Bandaríkjaþings. Fundur okkar Pompeo í dag staðfesti enn frekar góð tengsl ríkjanna og að væntingar um að þau geti aukist enn frekar séu á rökum reistar,“ sagði Guðlaugur Þór um fund hans með Pompeo.

 

🇮🇸🇺🇸Ég átti í dag símafund með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem viðskipta- og efnahagsmál voru...

Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Thursday, 5 November 2020



Í gær fóru einnig fram þrír fjarfundir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um varnar- og öryggismál. Ráðherra sat fund varnarmálaráðherra NORDEFCO, varnarmálaráðherrafund Norðurlandanna og Eystrasaltsríkja (NB8), og varnarmálaráðherrafund Norðurhópsins. Á fundi NORDEFCO var m.a. áhersla lögð á samráðsvettvang samstarfsins um hættuástand sem komið var á fót árið 2019. Vettvangnum er ætlað er að bæta upplýsingaskipti og samráð ef hættuástand skapast og hefur hann m.a. verið nýttur á yfirstandandi ári til þess að ræða viðbrögð við heimsfaraldrinum.

„Frá stofnun NORDEFCO-samstarfsins árið 2009 hefur öryggisumhverfi okkar breyst verulega og samvinna hefur aldrei verið mikilvægari. Heimsfaraldur kórónuveirunnar sýnir glögglega hvernig heilbrigðisvá getur þróast út í að verða að ógn við öryggi sem undirstrikar enn frekar mikilvægi þess að við snúum bökum saman,“ sagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra eftir fundinn í gær.

Á miðvikudag ávarpaði Guðlaugur Þór ráðherrafund Evrópuráðsins þar sem hann lét í ljós áhyggjur af kynbundnu ofbeldi og takmörkunum á frelsi blaðamanna og ræddi jafnfram stöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Í ávarpi sínu lagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra megináherslu á að mannréttindi væru virt í hvívetna í öllum 47 aðildarríkjum Evrópuráðsins á tímum heimsfaraldursins. Þá ræddi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra framlag Mannréttindadómstóls Evrópu til verndar mannréttindum í álfunni undanfarna áratugi. „Gleymum ekki að orðspor getur spillst við hvert skref sem stigið er af leið eða til baka. Ísland styður áframhaldandi starf dómstólsins,“ sagði Guðlaugur Þór.

Í Lettlandi var Ísland formlega tekið inn í fjölþjóðalið Atlantshafsbandalagsins á þriðjudag þegar íslenski fáninn var dreginn að húni á Adazi herstöðinni skammt utan við höfuðborgina Riga. Sérfræðingur á sviði upplýsingamála starfar nú þar á vegum Íslensku friðargæslunnar. Artis Pabriks varnarmálaráðherra Lettlands hélt tölu og minntist í ávarpi sínu á að Ísland hafi verið fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Lettlands eftir fall Sovétríkjanna. Fyrir það stæði lettneska þjóðin í ævarandi þakkarskuld við Íslendinga. Sú ákvörðun Íslands hafi sýnt að á meðan stórþjóðir heims bæru pólitíska ábyrgð, þá bæru minni þjóðir siðferðislega ábyrgð. Sagðist ráðherrann vona að íslenski fáninn muni blakta við hún í Adazi um ókomin ár.

Þá sögðum við einnig frá því að ný eftirlitsflugvél breska flughersins hefði verið nefnd „Spirit of Reykjavik“ til þess að minnast þýðingu Reykjavíkur í sigri bandamanna í orrustunni um Atlantshafið. 

Á mánudag bárust óhugnanlegar fréttir frá Vínarborg þar sem skotárásir voru framdar en mannfall varð og fjölmargir særðust. Guðlaugur Þór fordæmdi árásirnar og lýsti yfir samstöðu með íbúum Austurríkis.

Árásirnar í Vínarborg komu í kjölfarið á hryðjuverkum sem framin hafa verið í Frakklandi að undanförnu. Guðlaugur Þór hefur lýst yfir hryllingi vegna árásanna í færslum á Twitter, sagt þær atlögu að tjáningarfrelsinu og að berjast yrði gegn hvers kyns öfgahyggju sem ógnaði lífi okkar og gildum.

Árásirnar sem framdar voru í Vín áttu sér stað aðeins nokkrum götum frá aðsetri fastanefndar Íslands í Vín og ræddi mbl.is m.a. við Guðna Bragason, fastafulltrúa Íslands hjá ÖSE vegna þeirra.

Sé litið til starfsemi sendiskrifstofa okkar í vikunni er því nærtækast að hefja leik hjá fastanefnd Íslands í Vín en ÖSE-skýrslan innan ramma Moskvu-aðferðarinnar um mannréttindabrot í Hvíta-Rússlandi var lögð fram í fastaráði ÖSE í gær. Guðni Bragason fastafulltrúi Íslands skoraði á yfirvöld í Hvíta-Rússland að taka þátt í viðræðum og skapa nýtt andrúmsloft í landinu, þar sem virðing fyrir mannréttindum og lýðræði væru í heiðri höfð. Sagði hann skýrsluna m. a. sýna fram á kerfisbundið ofbeldi gegn andófsfólki, ólöglegar handtökur og kynbundið ofbeldi.

Í Genf hófst nóvemberlota jafningjarýni mannréttindaráðsins í vikunni og hún hélt áfram í gær. Sem fyrr verður fjallað um fjórtán ríki að þessu sinni. Fyrst á dagskrá var umræða um stöðu mannréttinda í Hvíta-Rússlandi þar sem Ísland áréttaði áhyggjur af framkvæmd kosninga þar í landi og nauðsyn þess að ofbeldi gegn mótmælendum, blaðamönnum og öðrum væri rannsakað sem fyrst.

Hitt og þetta var um að vera hjá sendiskrifstofum okkar á Norðurlöndum í vikunni.

Í Svíþjóð hlaut Hannes Heimisson sendiherra Íslands í Svíþjóð áheyrn hjá Karli Gústaf Svíakonungi í konungshöllinni í Stokkhólmi í gær í tengslum við afhendingu trúnaðarbréfs síns sem fór fram í september sl.

Í Finnlandi fundaði Auðunn Atlason, sendiherra, með ráðherra norrænnar samvinnu og jafnréttis kynjanna.

Í Færeyjum fékk aðalræðisskrifstofa Íslands í Þórshöfn ánægjulega heimsókn frá íslenskum nemendum í Norður-Atlantshafsbekknum í Kambsdal.

Á Grænlandi blés svo hressilega í vikunni svo á sást á koparklæðningu dómkirkjunnar í Nuuk.

Koparklæðningin á kirkjuturninum þurfti að láta undan rokinu hér sem ekkert lát er á🌊🌊🌊

Posted by Islandip Nuummi Generalkonsuuleqarfia - Aðalræðisskrifstofa Íslands Nuuk on Wednesday, 4 November 2020


Við færum okkur nú vestur yfir haf en í New York voru það ekki einungis bandarískir kjósendur sem gengu til atkvæða í vikunni heldur var einnig líf og lýðræði í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Gengið var til atkvæða um margvíslegar ályktanir og breytingatillögur í nefndum um afvopnunarmál og sjálfstæði fyrrverandi nýlenduríkja, og framundan eru atkvæðagreiðslur í nefndum um mannréttindamál, þróunarmál og fjármál. 

Hjá sendiráði okkar í Wasington fara þessa dagana fram kynningar á kjörræðismönnum Íslands í Bandaríkjunum. Peter Guðmundsson í Dallas Fort-Worth í Texas reið á vaðið með virkilega skemmtilega kynningu undir tónum Axel O og laginu Island in the North sem fjallar um Ísland.

Ekki var það meira að sinni.

Góða helgi!

Upplýsingadeild


 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta