Undirrituðu yfirlýsingu um rafræna stjórnsýslu
Fulltrúar ríkja innan Evróusambandsins og ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins undirrituðu yfirlýsingu um rafræna stjórnsýslu í Tallinn í síðustu viku. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Íslands.
Í yfirlýsingunni kemur fram að löndin munu á árunum 2018-2022 vinna að eftirfarandi markmiðum í þeim tilgangi að bæta opinbera stjórnsýslu þannig að hún verði:
- Öll rafræn. Þróun opinberrar þjónustu verði með þeim hætti að þarfir notandans sitji ávallt í fyrirrúmi og almenningi og fyrirtækjum verði gefinn kostur á að eiga rafræn samskipti við stjórnvöld á öllum sviðum. Með því að endurnýta gögn sem almenningur og fyrirtæki hafa nú þegar gefið stjórnvöldum verði stefnt að því að koma í veg fyrir ónauðsynlega upplýsingaöflun og samskipti.
- Upplýsingar verði skráðar aðeins einu sinni/einsláttur. Unnið verði að því að greina hvar hægt er að endurnýta gögn sem þegar eru til um almenning og fyrirtæki í ýmsum skrám hins opinbera og fyrirbyggja með því að notendur þurfi að margslá inn sömu gögn í samskiptum við stjórnvöld. Gerðar verði ráðstafanir til að auðvelda samnýtingu gagna í helstu grunnskrám landsins og auka gæði þeirra. Unnið verði einnig að því að skapa hefð fyrir ábyrgri og gegnsærri endurnýtingu gagna í stjórnsýslunni.
- Traust og örugg. Hraðað verði undirbúningi fyrir innleiðingu reglugerðar um rafræna auðkenningu og traustþjónustu rafrænna viðskipta á innri markaði. Einkafyrirtækjum verði gert kleift að nýta opinber rafræn auðkenni og traustþjónustu til að tryggja að rafræn þjónusta þeirra nýtist almenningi. Unnið verði að meiri samhæfingu, samræmingu og samvinnu á milli landa um stefnumótun, rekstur, rannsóknir og þróun á sviði upplýsingaöryggis með innleiðingu á tilskipun um net- og upplýsingaöryggi (NIS). Þannig verði öryggi opinberrar stjórnsýslu og þjónustu bætt.
- Opin og gegnsæ. Almenningi og fyrirtækjum verði gert kleift að stjórna rafrænt persónulegum gögnum sem stjórnvöld hafa um viðkomandi. Sérstaklega þeim gögnum sem geymd eru í grunnskrám hins opinbera. Stefnt verði að því að auka aðgengi að og gæði opinna gagna sem stjórnvöld búa yfir og kunna að vera verðmæt fyrir samfélagið. Þegar upplýsingakerfi fyrir opinbera stjórnsýslu eru hönnuð þarf að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja hagkvæma langtíma varðveislu opinberra upplýsinga.
Sjá einnig: