Hoppa yfir valmynd
18. mars 2013 Utanríkisráðuneytið

Styrkur fyrir Norðurskautsráðið að fleiri ríki vilji verða áheyrnaraðilar

Carl Bildt og Össur Skarphéðinsson

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar eru sammála um að það sé styrkur fyrir Norðurskautsráðið að fleiri ríki vilji verða þar áheyrnaraðilar. Þetta kom fram á fundi ráðherranna í utanríkisráðuneytinu í dag en Bildt situr í forsæti Norðurskautsráðsins. Ráðherrarnir ræddu framtíðarþróun á norðurslóðum og nauðsyn þess fyrir norðurskautsríkin að vera viðbúin auknum umsvifum þar og auknum áhuga annarra þjóða á því sem þar gerist. Þess vegna væri æskilegt að ráðið gæti samþykkt sem flesta nýja áheyrnaraðila á fundi sínum í Kiruna í Svíþjóð í maí.

Össur lýsti ánægju með formennsku Svía sem hafi verið viðburðarík. Meðal annars hafi fastaskrifstofa ráðsins í Tromsö tekið til starfa með íslenskum framkvæmdastjóra, Magnúsi Jóhannessyni. Ráðherra lýsti því einnig hvernig Íslendingar þyrftu að hans mati að þróa sína innviði til að búa sig undir stórauknar siglingar yfir norðurskautið.

Ráðherrarnir ræddu stöðu umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu og lýsti Bildt sem fyrr einlægum stuðningi við hana. Þeir ræddu fyrirhugaðan viðskiptasamning Evrópusambandsins og Bandaríkjanna og áhrif hans á Ísland þar sem utanríkisráðherra orðaði mögulega aðkomu umsóknarríkja um aðild að ESB að fríverslunarviðræðunum.

Þá ræddu ráðherrarnir fyrirhugaða heimsókn Bandaríkjaforseta til Ísraels og Palestínu í vikunni og möguleikana á því að unnt verði að endurræsa friðarferlið. Þeir ræddu einnig stöðu mála í Sýrlandi, Egyptalandi og öðrum ríkjum Norður Afríku og Miðausturlanda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta