Hoppa yfir valmynd
19. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 118/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 118/2022

Fimmtudaginn 19. maí 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. febrúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og að innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. september 2020 og var umsóknin samþykkt með 60% bótarétti. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá kom í ljós að kærandi var skráður í 20 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á haustönn 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. janúar 2022, var óskað eftir að kærandi legði fram skólavottorð og skýringar á því hvers vegna hann hafi ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 og að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 14. desember 2021 að fjárhæð 675.273 kr., að meðtöldu álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. febúar 2022. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 11. apríl 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. apríl 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sé ekki að finna heimild til skerðingar á réttindum samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar. Hann telji að í aðgerðum Vinnumálastofnunar gegn honum stangist 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar á við 2. mgr. ákvæðisins. Í því ljósi telji kærandi að þau lög sem kveði á um skerðingu réttinda til mennta og réttinda til bóta sökum atvinnuleysis standist ekki stjórnarskrárvarin réttindi hans.

Þá sé heimild til samkeyrslu gagna byggð á 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og í 6. mgr. ákvæðisins sé kveðið á um upplýsingaskyldu Vinnumálastofnunar um fyrirhugaða upplýsingaöflun. Kæranda hafi hins vegar ekki borist slík tilkynning, sem 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 kveði á um að hann eigi rétt á. Kærandi segi tímasetningu samkeyrslunnar vekja sérstaka athygli sína þar sem hún sé gerð í lok annar, rétt fyrir próf, en ekki í upphafi annar þegar enn hafi gefist kostur til að leiðrétta skráningu í nám án skerðinga. Kærandi telji að markmiðið með ótilkynntri samkeyrslu á þessum tíma hafi verið að „grípa sökudólgana glóðvolga“ svo að skerða mætti réttindi þeirra til atvinnuleysisbóta sem mest. Kærandi hafi þegið 60% bætur og vilji því ítreka þann skilning sinn að honum sé heimilt að verja 40% af lífi sínu með þeim hætti sem honum sýnist. Reyndar líti hann svo á að hann hafi fullt frelsi sem einstaklingur, enda séu atvinnuleysisbætur nýting áunninna réttinda en ekki skilyrt refsing eins og ætla mætti af verklagi Vinnumálastofnunar.

Kærandi hafi beðið Háskóla Íslands um að senda Vinnumálastofnun upplýsingar um námið og muni það hafa verið gert samviskusamlega. Hann hafi hætt í öðru námskeiðinu á miðri önn en þá hafi úrsagnarfrestur verið liðinn. Hvað varði skýringar á því hvers vegna kærandi hafi ekki upplýst Vinnumálastofnun um nám sitt vísi hann til framangreinds og að hann telji að 10-20 eininga nám einstaklings á 60% atvinnuleysisbótum sé Vinnumálastofnun óviðkomandi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 1. september 2020. Með erindi, dags. 12. október 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 60%.

Þann 23. nóvember 2021 hafi kærandi verið upplýstur um að við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá hafi komið í ljós að hann stundaði nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að fyrir hafi legið námssamningur við stofnunina. Kæranda hafi verið bent á að ef það væri ósk hans að kanna hvort hann ætti rétt á að stunda nám án skerðingar á rétti til atvinnuleysistrygginga þyrfti hann að senda inn skólavottorð þar sem umfang náms væri tilgreint. Svar hafi borist frá kæranda samdægurs. Þar hafi kærandi greint frá því að hann væri með 60% atvinnuleysisbætur og að hann væri skráður í tvö námskeið en hann myndi væntanlega aðeins ljúka öðru þeirra, þ.e. 10 einingum. Kærandi teldi sig vera frjálsan gerða sinna í eigin frítíma, þ.e. þeim 40% hluta venjulegs vinnutíma sem hann þæði ekki bætur fyrir, og sæi því ekki ástæðu til þess að Vinnumálastofnun hefði frekari afskipti af málinu.

Þann 29. nóvember 2021 hafi fulltrúi stofnunarinnar haft samband við kæranda og upplýst hann um að ef hann væri skráður í 20 eininga nám væri mögulegt að gera námssamning á grundvelli 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi sagst hafa skráð sig úr 10 einingum og kæmi til með að skila umbeðnu skólavottorði. Hann hafi verið ósáttur við það að mega ekki ráða þeim 40% tíma sem hann ætti eftir af 60% bótarétti.

Í desember 2021 hafi kærandi hafið störf hjá B í tengslum við átakið „Hefjum störf“ hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi kærandi hafið störf þann 15. desember 2021 og hafi því verið afskráður frá þeim degi.

Með erindi, dags. 12. janúar 2022, hafi Vinnumálastofnun óskað eftir frekari upplýsingum frá kæranda vegna náms. Í erindi til kæranda hafi athygli verið vakin á því að samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu námsmenn ekki tryggðir á grundvelli laganna á sama tímabili og þeir stundi nám, enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsúrræða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Þar sem enginn námssamningur lægi fyrir á milli kæranda og Vinnumálastofnunar hafi verið óskað eftir því að kærandi legði fram skólavottorð þar sem umfang náms væri tilgreint ásamt skýringum á því hvers vegna hann upplýsti stofnunina ekki um að hann stundaði nám. Í erindi til kæranda hafi athygli verið vakin á viðurlögum á grundvelli 59. og 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun hafi borist erindi frá kæranda samdægurs. Þar hafi kærandi greint frá því að hann teldi sér ekki skylt að verða við beiðni Vinnumálastofnunar um upplýsingar. Kærandi hafi í því tilliti vísað til 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands þar sem meðal annars segi að öllum skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, elli eða atvinnuleysis, auk réttar til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Þá segi í erindi kæranda: „Heimildir til skerðingar þessara réttinda er ekki að finna í stjórnarskrá og í aðgerðum VMST gegn mér stangast 1. mgr. á við 2. mgr. Í því ljósi tel ég að þau lög sem kveða á um skerðingu réttinda til mennta og réttinda til bóta sakir atvinnuleysis standist ekki stjórnarskrárvarin réttindi mín.“ Þá segi í erindi kæranda að hann hafi ekki verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun vegna samkeyrslu gagna á grundvelli 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Telji kærandi að tímasetning slíkrar upplýsingaöflunar væri helst til þess fallin að „grípa sökudólgana glóðvolga“ svo að skerða megi réttindi þeirra til atvinnuleysisbóta sem mest. Kærandi hafi ítrekað að það væri hans skilningur að þar sem hann hefði áunnið sér rétt til 60% atvinnuleysisbóta væri honum heimilt að verja 40% lífs síns með þeim hætti sem honum sýndist. Hann hafi þegar óskað eftir því að Háskóli Íslands sendi upplýsingar um námið til Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi hætt í öðru námskeiðinu á miðri önn en þá hafi úrsagnarfrestur námskeiða verið liðinn. Kærandi hafi gefið þær skýringar að hann hefði ekki tilkynnt um nám sitt þar sem hann teldi að 10 til 20 eininga nám einstaklings á 60% atvinnuleysisbótum væri Vinnumálastofnun óviðkomandi. Kærandi hafi ekki skilað umbeðnu skólavottorði um stöðu náms.

Með erindi, dags. 25. janúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslum atvinnuleysistrygginga til hans væri hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem ekki lægi fyrir námssamningur við stofnunina. Þá hafi kæranda jafnframt verið tilkynnt um að honum yrði gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Meðfylgjandi kæru til úrskurðarnefndar hafi verið ódagsett staðfesting í tölvupósti frá deildarstjóra Cdeildar Háskóla Íslands til kæranda þess efnis að kærandi hafi verið skráður í tvö tíu eininga námskeið í D á haustmisseri en þar sem hann hafi ekki skilað verkefnum í öðru þeirra hafi hann ekki próftökurétt í því námskeiði. Hann muni því að hámarki ljúka tíu einingum á haustmisseri 2021. Framangreind staðfesting frá skóla hafi fyrst borist Vinnumálastofnun með kæru til úrskurðarnefndarinnar og hafi Vinnumálastofnun því ekki tekið afstöðu til upplýsinganna.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda þar sem hann hafi stundað nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta, án þess að fyrir hafi legið námssamningur við stofnunina.

Í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitanda sem tryggður sé samkvæmt lögunum að upplýsa stofnunina um það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem upplýsingar um námsþátttöku. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laganna skuli viðurkenndar menntastofnanir innan hins almenna menntakerfis og skólar á háskólastigi láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar séu við framkvæmd laganna. Kallað sé eftir framangreindum upplýsingum með reglubundnum hætti með samkeyrslu atvinnuleysisskrár við nemendaskrár. Kærandi vísi til þess að Vinnumálastofnun hafi borið að upplýsa hann um fyrirhugaða upplýsingaöflun í samræmi við 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þess hafi ekki verið gætt. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Vinnumálastofnun ber að upplýsa umsækjanda um fyrirhugaða upplýsingaöflun í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.“

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna skuli umsókn vera skrifleg og fylgja nauðsynleg gögn og upplýsingar um hagi atvinnuleitanda. Við útfyllingu umsóknar þurfi umsækjandi jafnframt að kynna sér mikilvægar upplýsingar um réttindi og skyldur og við staðfestingu umsóknar staðfesti atvinnuleitandi jafnframt að hafa lesið og kynnt sér þá skilmála sem um greiðslur atvinnuleysistrygginga gildi. Þar með talið séu upplýsingar um söfnun og meðferð perónuupplýsinga hjá Vinnumálastofnun. Upplýsingarnar séu einnig aðgengilegar á vef Vinnumálastofnunar. Þar sé sérstaklega tilgreint að Vinnumálastofnun vinni meðal annars með upplýsingar um menntun og vinnusögu einstaklinga, svo sem menntun og námsframvindu. Þá komi einnig fram upplýsingar um hvaðan upplýsinganna sé aflað og vísað í heimildir stofnunarinnar til slíkrar vinnslu á grundvelli lögbundinna verkefna stofnunarinnar. Í samræmi við framangreint sé fullyrðingu kæranda hvað varði ófullnægjandi tilkynningarskyldu um vinnslu persónuupplýsinga vísað á bug.

Í c. lið 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

,,Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum með 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segi að 52. gr. kveði á um þá meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað sé á venjulegum dagvinnutíma. Gildi það einu hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Í 1. mgr. 52 gr. segi orðrétt:

,,Hver sá sem stundar nám, sbr. c. lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.“

Fyrir liggi að kærandi hafi stundað 20 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysitrygginga. Þar sem kærandi hafi hvorki tilkynnt um nám sitt né gert námssamning við stofnununa eigi undanþágur frá framangreindri meginreglu sem mælt sé fyrir um í 2.-5. mgr. 52. gr. laganna ekki við í máli kæranda. Kærandi hafi því fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. september 2021 til 14. desember 2021. Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. 39. gr. segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur.

Með vísan til framangreinds beri kæranda að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið greiddar fyrir tímabilið 1. september til 14. desember, samtals 587.194 kr., enda liggi fyrir að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á umræddu tímabili, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Heildarskuld kæranda nemi 675.272 kr., þar af sé álag að fjárhæð 88.078 kr. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið ef hinn tryggði færi rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til skuldamyndunar. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að það sé á ábyrgð þess sem fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar sem geti haft áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 86/2013. Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar komi fram að kærandi telji sér ekki skylt að veita stofnuninni upplýsingar um hagi sína þar sem hann telji að 10 til 20 eininga nám einstaklings á 60% atvinnuleysisbótum sé Vinnumálastofnun óviðkomandi. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum þeirra sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar þær sem kærandi hafi fært fram teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Með því að hafa hvorki tilkynnt um nám sitt né óskað eftir námssamningi við stofnunina hafi kærandi brugðist skyldum sínum. Þá ítreki stofnunin jafnframt að öllum atvinnuleitendum sé vísað á upplýsingar á vef stofnunarinnar um réttindi sín og skyldur á meðan þeir þiggi greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar sé meðal annars tiltekið að almennt sé ekki heimilt að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga, en atvinnuleitendum kunni þó mögulega að standa til boða að gera námssamning við stofnunina fyrir allt að 12 ECTS-eininga námi eða skerðingarsamning fyrir allt að 20 ECTS-eininga námi. Með vísan til framangreinds beri kæranda að greiða umrædda skuld, auk álags, enda hafi kærandi að mati Vinnumálastofnunar ekki fært rök fyrir því að fella skuli niður álag.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar bætur.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.

Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr., án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur er umsækjandi spurður hvort hann sé skráður í nám á umsóknardegi. Upplýst er að almennt sé ekki heimilt að vera í námi samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þó séu undantekningar á þeirri meginreglu. Tekið er fram að það sé því mjög mikilvægt að hafa samband sem fyrst við ráðgjafa Vinnumálastofnunar til að kanna hvort viðkomandi eigi rétt á námssamningi.

Óumdeilt er að kærandi var skráður í 20 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á haustönn 2021 samhliða því að fá greiddar atvinnuleyistryggingar. Kærandi upplýsti Vinnumálastofnun ekki um námið og því lá ekki fyrir námssamningur á milli kæranda og Vinnumálastofnunar. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi ekki talið þörf á því að upplýsa Vinnumálastofnun um námið þar sem bótaréttur hans væri aðeins 60%.

Þann 10. september 2020 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi hans og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þá var kæranda bent á að hann þyrfti að láta Vinnumálastofnun vita á „Mínum síðum“ um allar breytingar á högum sínum. Undir liðnum „Upplýsingaskylda“ á heimasíðu Vinnumálastofnunar kemur fram að atvinnuleitandi skuli upplýsa Vinnumálastofnun tafarlaust um allar breytingar sem verði á högum hans og kunni að hafa áhrif á rétt hans á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur. Tekið er dæmi um slíkar breytingar og er þar meðal annars nefnd þátttaka í námi. Undir liðnum „Hvað þarftu að vita“ er fjallað um nám og atvinnuleysisbætur. Þar kemur fram að almennt sé ekki heimilt að stunda nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Á því geti þó verið undantekning, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Tekið er fram að nám atvinnuleitanda þurfi að vera samþykkt af Vinnumálastofnun og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt reglugerð. Mikilvægt sé að ráðfæra sig við ráðgjafa stofnunarinnar vegna náms samhliða atvinnuleit. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita að honum bæri að tilkynna Vinnumálastofnun um fyrirhugað nám og þá kanna hvort réttur til námssamnings væri til staðar. Það að kærandi hafi verið metinn með 60% bótarétt breytir ekki þeirri skyldu þar sem lög nr. 54/2006 gilda um alla þá sem tryggðir eru, þ.e. óháð því hversu hár bótaréttur hefur verið metinn.

Kærandi hefur einnig vísað til þess að tilkynningarskyldu Vinnumálastofnunar hafi ekki verið fullnægt í málinu vegna upplýsingaöflunar um nám hans. Þegar umsókn um atvinnuleysisbætur er staðfest þarf umsækjandi meðal annars að staðfesta að hafa lesið og kynnt sér þá skilmála sem gilda um greiðslur atvinnuleysistrygginga, þar með talið upplýsingar um söfnun og meðferð persónuupplýsinga hjá Vinnumálastofnun. Þær upplýsingar er einnig að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar undir liðnum „Persónuvernd og öryggisstefna.“ Þar er sérstaklega tilgreint að Vinnumálastofnun vinni meðal annars með upplýsingar um menntun og vinnusögu einstaklinga, svo sem menntun og námsframvindu. Þar er einnig að finna upplýsingar um hvaðan Vinnumálastofnun fær upplýsingar og vísað í heimildir stofnunarinnar til slíkrar vinnslu á grundvelli lögbundinna verkefna hennar. Með hliðsjón af framangreindu fellst úrskurðarnefndin ekki á með kæranda að tilkynningarskylda Vinnumálastofnunar hafi verið ófullnægjandi í málinu.

Fyrir liggur að kærandi var skráður í 20 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun og að námið var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar. Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 átti við um kæranda, þ.e. hann stundaði nám í skilningi laganna. Úrskurðarnefndin bendir á að undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 eiga ekki við í máli kæranda þar sem kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um nám sitt og enginn námssamningur lá fyrir. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hann var skráður í námið og átti því ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 1. september 2021 til 14. desember 2021.

Kærandi byggir á því að ákvörðun Vinnumálastofnunar standist ekki stjórnarskrárvarin réttindi hans. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna meðal annars atvinnuleysis. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Framangreint ákvæði stjórnarskrárinnar kemur ekki í veg fyrir að löggjafanum sé heimilt að setja í lög ákveðin skilyrði fyrir greiðslum úr atvinnuleysistryggingakerfinu. Hin kærða ákvörðun er í samræmi við þau skilyrði sem fram koma í ákvæði 52. gr. laga nr. 54/2006 og er því ekki fallist á að ákvörðun Vinnumálastofnunar brjóti í bága við ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur fyrir tímabil sem skilyrði laganna er ekki uppfyllt. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem kærandi tilkynnti ekki Vinnumálastofnun að hann stundaði nám á haustönn 2021 er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, og að innheimta ofgreiddar bætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta