Hoppa yfir valmynd
20. mars 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 611/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 611/2023

Miðvikudaginn 20. mars 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 15. desember 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 18. september 2023 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 25. júní 2020, vegna meðferðar á Landspítala þann X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 18. september 2023, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. desember 2023. Með bréfi, dags. 9. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst þann 2. febrúar 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 7. febrúar 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send umboðsmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hafa sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna mistaka við aðgerð sem hafi átt sér stað á Landspítalanum þann 5. september 2018. Með ákvörðun, dags. 18. september 2023, hafi Sjúkratryggingar Íslands synjað kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

Atvik málsins hafi verið með þeim hætti að í X hafi […] hnútur greinst í […] brjósti kæranda, en við nánari rannsóknir hafi komið í ljós að um hafi verið að ræða ífarandi ductal krabbamein með sterka estrogen viðtaka og lágan vaxtastuðul. Þann X sama ár hafi hún gengist undir aðgerð, fleygskurð, á Landspítalanum hjá C skurðlækni þar sem hnúturinn hafi verið fjarlægður.

Í eftirskoðun þann X 2018 hafi C tjáð kæranda að annar hnútur hefði leynst undir hinum og gefið henni tvo valkosti, annars vegar að meira yrði fjarlægt af […] brjóstinu og það síðan byggt upp aftur sem gæti tekið tvær til þrjár aðgerðir, hins vegar að taka álíka mikið af báðum brjóstunum en með þeim hætti væri hægt að ljúka þessu af með einni aðgerð. Kærandi hafi spurt hve mikið yrði tekið af brjóstunum ef hún veldi síðari kostinn, hvort hún færi niður fyrir skálastærð X. Læknirinn hafi tjáð henni að svo væri ekki, að það þyrfti ekki að taka svo mikið. Hún hafi því valið síðari kostinn, enda hafi henni þótt í lagi að fara niður í stærð X, en áður hafi hún verið í stærð X. Með þessum hætti hafi verið unnt að flýta fyrir ferlinu og spara henni fleiri aðgerðir. Á fundinum hafi D skurðlæknir verið kölluð til og kæranda tjáð að hún myndi framkvæma aðgerðina með C. Kærandi hafi endurtekið að hún vildi ekki fara niður fyrir stærð X og hafi hún verið fullvissuð um að það yrði ekki gert. Henni hafi verið tjáð að fjarlægja þyrfti geirvörturnar og nýjar húðflúraðar á eftir að skurðirnir væru grónir, en að öðru leyti hafi henni ekki verið tjáð um hvernig aðgerðin yrði framkvæmd eða með hvaða hætti aðgerðin væri frábrugðin fyrri aðgerð.

Kærandi hafi farið í aðgerð þann X þar sem framkvæmd hafi verið bilateral brjóstaminnkun og geirvarta fjarlægð, en sama dag hafi hún orðið vör við að töluvert blóð hafði lekið í rúmið úr skurðsári. Hún hafi strax verið send í bráðaaðgerð þar sem sett hafi verið dren í […] brjóstið og flipar lagðir saman á ný. Nokkrum dögum síðar hafi hún fengið vinkonu sína sem sé hjúkrunarfræðingur heim til sín til að skipta um umbúðir. Við umbúðarskiptin hafi kærandi séð skurðinn eftir síðari aðgerðina og hafi það verið henni mikið áfall. Skurðurinn hafi verið verulega illa saumaður með grófum svörtum þræði sem hana klæjaði mikið undan. Þá hafi verið mikil bólga í skurðinum og vottur af ígerð. Hún hafi farið í eftirskoðun þann X þar sem saumatöku hafi verið frestað, en viku seinna hafi verið reynt að taka saumana en sökum bólgu og ígerðar hafi ekki tekist að klára það. Loks hafi tekist að fjarlægja saumana þann X, í þriðju tilraun. Það hafi tekið um þrár vikur að ná niður sýkingunni sem hafði myndast í saumunum, en ekki hafi verið unnt að notast við […] þar sem kærandi sé með […]óþol. Loks þegar bólgan hafi verið farin hafi komið í ljós að aðgerðin hafi ekki verið framkvæmd með þeim hætti sem rætt hafi verið um í upphafi. […] brjóst hennar, heilbrigða brjóstið, hafi nánast verið horfið, en það litla sem hafi verið eftir hafi verið afmyndað og mun minna en það […], sem hafi verið um það bil í stærð X. Annað brjóstið hafi verið mjótt og vísað upp á við á meðan hitt hafi verið breitt og flatt og vísað niður.

Kærandi hafi verið verulega ósátt með aðgerðina, enda hafi útkoman verið allt önnur en rætt hafi verið um í upphafi. Hún hafi farið á fund þann 18. febrúar 2019 hjá D lækni til að ræða þessi mál, vongóð um að unnt væri að byggja brjóstin aftur upp, en C læknir hafi tjáð henni áður að ekkert mál væri að byggja brjóst upp með fituvef af öðrum stöðum líkamans. Í viðtalinu hafi kærandi spurt hvers vegna hefði verið tekið svo mikið í aðgerðinni, en hún hafi ekki fengið svar við þeirri spurningu. Í kjölfarið hafi hún spurt hvort unnt væri að laga brjóstin, en því hafi verið svarað neitandi. Læknirinn hafi skoðað kæranda og sagst ekkert sjá að þessu, að þau notuðu ekki brjóstahaldarastærðir sem mælieiningu, að kærandi væri svo breið að ekki væri hægt að gera almennileg brjóst á hana. Þá hafi henni verið tjáð að hún væri of feit til að hægt væri að laga þetta og að hún reykti. Henni hafi verið ráðlagt að fá sér brjóstahaldara með fyllingu, en sökum […] ofnæmis geti hún ekki notast við slíka brjóstahaldara og hafi læknarnir haft vitneskju um það fyrir aðgerðina. Hún lýsir því að viðmótið í hennar garð á þessum fundi hafi verið verulega slæmt, lítið hafi verið gert úr framburði hennar og að hún hafi upplifað að læknirinn væri að reyna að valta yfir hana.

Kærandi sé í dag með verulega afmynduð brjóst, en heilbrigða brjóstið sé um það bil í stærð X, en hitt sé í neðri kantinum af X. Örið sem hún sé með á bringunni sé engan veginn í samræmi við hefðbundin ör eftir slíkar aðgerðir, en skurðurinn sé sveigður, skakkur og langt því frá að vera jafn á báðum hliðum. Einkenni kæranda í dag séu bandvefsbólgur undir […] hendi sem hún telji tilkomnar vegna aðgerðarinnar, en bólgurnar skerði hreyfigetu hennar í hendinni og hamli henni töluvert í daglegum athöfnum. Hún sé með mikla verki og samgróninga í brjóstinu og örvef sem valdi bandvefsbólgum. Þá búi hún í dag við töluverð lýti á báðum brjóstum, sé með stóran og áberandi skurð yfir bringuna, auk þess sem brjóstin séu misstór og misjöfn í laginu. Þessu fylgi andleg einkenni, auk þess sem hún hafi orðið fyrir áfalli eftir viðmótið sem hún hafi fengið þegar hún hafi reynt að ræða við lækninn sem hafi framkvæmt síðari aðgerðina.

Kærandi byggi kröfu um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á því að hún hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna mistaka við aðgerð þann X. Aðgerðin hafi í engu verið samræmi við það sem lagt hafi verið upp með fyrir aðgerðina og hafi það orðið til þess að kærandi hafi orðið fyrir lýti á báðum brjóstum. Það hafi valdið henni verulegri vanlíðan, og forðist hún það að vera innan um fólk sökum þess að hún upplifi sig afmyndaða og þurfi stanslaust að reyna að fela brjóstin. Fyrir aðgerðina hafi henni verið tjáð að unnt væri að byggja brjóstin upp aftur með því að færa fituvefi annars staðar frá líkamanum í brjóstin, en þegar uppi hafi verið staðið hafi það ekki verið hægt.

Kærandi telji að fyrri aðgerðin þann X hafi gengið vel. Handbragð og frágangur hafi borið vott um tillitsemi og virðingu fyrir sjúklingnum. Síðari aðgerðin þann X hafi misheppnast stórlega, enda hafi sú aðgerð verið í engu samræmi við það sem rætt hafi verið um og hafi það valdið henni líkamstjóni og lýti. Þá hafi hún aldrei fengið svör við því hvers vegna hafi þurft að taka svo stóran hluta af […] brjósti hennar, sem hafi verið heilbrigt fyrir, en sé nú minna en það […] Fyrir aðgerðina hafi henni verið tjáð að það yrði ekki tekið meira af brjóstinu en niður í brjóstastærð X, en hún hafi verið í stærð X áður, og á þeim forsendum hafi hún valið þennan aðgerðarkost fram yfir hinn kostinn sem hafi falið í sér fleiri aðgerðir. Hún telji að mistök hafi verið gerð í síðari aðgerðinni sem hafi falið það í sér að of mikið hafi verið tekið af brjóstunum, auk þess sem illa hafi verið gengið frá skurðsári […] megin sem hafi orðið til þess að það hafi farið að blæða úr, hún hafi fengið sýkingu og sé enn í dag með veruleg óþægindi frá svæðinu.

Að öllu framangreindu virtu telji kærandi að ekki hafi rétt verið staðið að meðferð við aðgerð hennar á Landspítala þann X, enda hafi aðgerðin ekki verið framkvæmd í samræmi við það sem lagt hafi verið upp með. Hún telji að mistök hafi verið gerð við aðgerðina sem hafi valdið henni líkamstjóni, en of mikið hafi verið fjarlægt af brjóstum hennar, auk þess sem verulega illa hafi verið gengið frá skurðsári. Hún telji því að meðferðinni hafi ekki verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði, en það hafi valdið henni líkamstjóni og telji hún sig því eiga rétt á bótum á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar telji kærandi sig uppfylla skilyrði 1. tölul. 2. gr. sjúklingatryggingalaga og því eiga rétt á bótum vegna þess líkamstjóns sem hafi leitt af aðgerð X. Með vísan til þessa sem og gagna málsins kæri hún synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótarétti hennar samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu, en hún telji að skilyrðum laganna sé fullnægt og að hún eigi rétt til bóta vegna líkamstjóns þess sem hafi hlotist af aðgerð sem framkvæmd hafi verið á Landspítalanum þann X.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000, með umsókn sem hafi borist stofnuninni þann 18. desember 2020. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem hafi farið fram á Landspítalanum þann X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum. Þá hafi málið verið yfirfarið af lækni og lögfræðingum stofnunarinnar. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 18. september 2023, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að ekki væri um að ræða tjón sem félli undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Sú ákvörðun sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Sjúkratryggingar vísi í hina kærðu ákvörðun varðandi rökstuðning og hafi stofnunin engu við hina kærðu ákvörðun að bæta og fari fram á að hún verði staðfest.

Í hinni kærðu ákvörðun segir svo:

„MÁLAVEXTIR

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gekkst umsækjandi undir fleygskurð á LSH þann X í kjölfar þess að […] hnútur fannst í […] brjósti hennar í brjóstamyndatöku. Samkvæmt sjúkraskrá var hnúturinn óþreifanlegur en hafði illkynja yfirbragð og var tekið ómstýrt ástungusýni sem staðfesti ífarandi ductal krabbamein með sterka estrogen viðtaka og lágan vaxtastuðul.

Þann X kom umsækjandi til mats vegna enduraðgerðar og brjóstaminnkunar. Samkvæmt sjúkraskrá var heilsufarssaga umsækjanda rædd, og kom fram að læknir hafi ráðlagt að einungis væri framkvæmd einföld minnkun báðum megin og geirvörtur fjarlægðar. Fram kom að umsækjandi hafi verið upplýst vel um hvers mætti vænta og um fylgikvilla og að hún samþykkti aðgerð. Þá kom fram að þörf væri á sýklalyfi í forgjöf og upplýst fyrir skurðstofu að umsækjandi sé með […] ofnæmi. Fram kom í göngudeildarnótu sama dag að farið var yfir niðurstöður vefjarannsókna, og nokkuð óvænt hafi leynst þar tveir hnútar, heildarmál hafi verið komið upp undir X cm og var þá lesið sem lobular carcinoma.

Í aðgerð þann X var framkvæmd bilateral brjóstaminnkun og geirvarta fjarlægð til þess að minnka fylgikvillaáhættu og vegna heilsufarsástands umsækjanda. Sagði í aðgerðalýsingu að umsækjandi hafi verið vel samþykk, og viljað minnka um helming. Í aðgerðinni varð ljóst að sýking hafi verið í fyrra aðgerðarsvæði og þörf var á að fjarlægja útbreitt sýkt svæði ásamt fyrirhuguðum fleyg. Aðgerðin hafi gengið án vandræða, brjóst, stærð, form og handbragð hafi verið sambærilegt beggja vegna. Síðar sama dag var umsækjandi færð í flýti á skurðstofu í kjölfar skyndilegs blóðþrýstingsfalls og þensla á […] brjósti. Þar var skurðsár brjósts opnað, flipar færðir niður og hugað að blóðstillingu. Lagt var dren og flipar lagðir saman á ný og saumað með tilliti til að fá góða blóðstillingu samkvæmt aðgerðarlýsingu.

Samkvæmt göngudeildarskrá þann X hitti umsækjandi ábyrgan sérfræðing þar sem farið var yfir niðurstöðu aðgerðar. Þar var því lýst að skurðlínur voru allar í eðlilegum gróanda. Það hafi verið dálítill roði og hiti lateralt í […] brjóstinu og meiri bjúgur þeim megin en engin augljós sýking. Samkvæmt meðferðarseðli sama dag, var umsækjandi mjög viðkvæm og upplifði mikinn sársauka við saumatöku og náðist að taka sauma á […] brjósti og um helming á […]. Samkvæmt göngudeildarskrá þann X voru allir saumar fjarlægðir úr […] brjósti og voru þá ekki virk sýkingarteikn. Þann X sagði í nótu hjúkrunarfræðings að öll sár væru gróin, enginn roði og líðan betri.

Þann X ritaði skurðlæknir í göngudeildarskrá að umsækjandi væri óánægð með útlit brjósta eftir bilateral minnkunarfleyg. Kominn væri mánuður síðan hún var geisluð […] megin á cancerbrjóstinu og hún komin á töflumeðferð. Umsækjanda hafi fundist hún vera stærri þar heldur en á heilbrigða brjóstinu. Við skoðun var hún enn með bjúg á ný geisluðu […] brjósti, það brjóst muni minnka töluvert þegar áhrifin fari úr því og þá verði hún nokkuð samhverf. Hún væri með töluverða heilsufarsögu, reyki og í mikilli yfirþyngd þannig að hvað varði uppbyggingu þá þurfi þeir þættir að fara áður en farið verði í uppskurð. Skurðlæknirinn hafi útskýrt það fyrir henni og farið í gegnum hvaða brjóstahöld myndu passa best ásamt mögulegum innleggjum. Hvað varði frekari skurðaðgerð með uppbyggingarmöguleikum var hún upplýst um að hún þurfi að vera hætt að reykja í þrjá mánuði fyrir aðgerð og eftir, ásamt því að fara töluvert niður í BMI. Faglega séð þá sé hún eins samhverf og mögulegt var miðað við aðstæður. Ávísaði skurðlæknirinn einnig Dalacin sama dag.

Í göngudeildarskrá X ritaði hjúkrunarfræðingur um tilfinningalegan vanda, líkamleg vandamál og óánægju með útlit brjósta.

Í göngudeildarskrá lýtalæknis þann X kom fram að […] brjóst sem geislað var á og sé nú lokið sé örlítið stærra en það […]. Það sé ekki óeðlilegt en umsækjanda finnist brjóstin vera of lítil, tekið hafi verið alltof mikið af brjóstinu,henni hafi verið sagt að húnyrði í X-skál. Þá sagði að umsækjandi vilji ekki fá sílíkon fyllingar til leiðréttingar og að henni hafi verið sagt að hún gæti fengið fituflutning.

Það séu þó takmörk fyrir fituflutning, en þegar ár verði liðið frá geislameðferðarlotu skuli þau taka upp þráðinn að nýju og mögulega gera fituflutning á […] brjósti svo það verði jafn stórt og það […].

X ritaði lýtalæknir að umsækjandi hafi fundist að tekið hafi verið alltof mikið og að lýtalæknirinn hafi boðið henni fituflutning til þess að ná […] brjóstinu í sömu stærð og það […].

Fituflutningur var svo framkvæmdur X og sagði í göngudeildarskrá lýtalæknis þann X, að fituflutningur hafi heppnast vel, brjóst nær eins báðum megin, þetta liti allt vel út og vel gróið. Seinni fituflutningur var svo framkvæmdur þann X, ásamt geirvörtuuppbyggingu.

FORSENDUR NIÐURSTÖÐU

Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðarog/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þarf að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo skilyrði séu fyrir greiðslu bóta.

Að mati SÍ verður af gögnum málsins ekki annað séð en að sú meðferð sem umsækjandi fékk á LSH í kjölfar meðferðar þann X, hafi verið hagað í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Fyrir liggur að umsækjandi var með krabbamein í […] brjósti og fyrirhugað var í upphafi að reyna fleygskurð en meinið reyndist umfangsmeira en ætlað var og varð niðurstaðan því sú að fjarlægja […] brjóstið í síðari aðgerð, auk þess að […] brjóst var minnkað til samræmis við minnkun […] brjósts. Að mati SÍ var hefðbundnum vinnubrögðum beitt við aðgerðirnar og verður ekki fundið að þessari meðferð. Í byrjun árs 2019 var umsækjandi orðin verulega ósátt við stærðarmun og lögun brjósta og samkvæmt gögnum málsins er ljóst að læknar LSH leituðust við að koma til móts við umkvartanir hennar með lagfæringaraðgerðum.

Samkvæmt gögnum málsins er umsækjandi ósátt með árangur meðferðarinnar þann X, en óánægja við lokaniðurstöðu meðferðar telst ekki vera grundvöllur bóta samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu. Að mati SÍ er ekki hægt að rekja núverandi einkenni umsækjanda til meðferðar eða skorts á meðferð, heldur er ástand hennar fyrst og fremst að rekja til alvarlegs grunnsjúkdóms, sem nauðsynlegt var að bregðast við.

Með vísan til framangreinds er það mat SÍ að ekkert í fyrirliggjandi gögnum bendir til þess að sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandi naut á LSH f kjölfar aðgerðar þann X hafi verið ófagleg eða ábótavant. Með vísan til þessa eru skilyrði 1.-4.tl. 2. gr. laganna ekki uppfyllt.

Í umsókn kvartar umsækjandi yfir framkomu og viðmóti heilbrigðisstarfsfólks í sinn garð. í þessu sambandi vekja SÍ athygli á því að slíkar umkvartanir falla utan gildissviðs laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000. Telji umsækjandi á sér brotið varðandi þetta atriði ætti hann að beina erindi sínu til Embættis landlæknis. Með vísan í framangreint voru þessi umkvörtunarefni umsækjanda ekki skoðuð efnislega.

NIÐURSTAÐA

Með vísan til þess sem að ofan greinir og fyrirliggjandi gagna málsins er það mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki liggi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum megi rekja til þátta sem falla undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Ekki er því heimilt að verða við umsókn umsækjanda um bætur úr sjúklingatryggingu.“

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar meðferðar sem hún hlaut á Landspítala þann X séu bótaskyldar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi hafi gengist undir fleygskurð þann X á Landspítala til þess að fjarlægja X sentimetra hnút sem hafði fundist í […] brjósti hennar. Í eftirskoðun X hafi henni verið tjáð að annar hnútur hefði fundist undir hinum. Henni hafi verið gefnir tveir valkostir, að fjarlægja meira af […] brjóstinu og það byggt upp aftur sem gæti tekið tvær til þrjár aðgerðir eða taka svipað mikið af báðum brjóstum og þá væri hægt að ljúka því af með einni aðgerð. Kærandi hafi valið seinni kostinn, þ.e. að taka svipað mikið af báðum brjóstum, þar sem henni hafi verið tjáð að hún færi ekki niður fyrir skálastærð X. Kærandi hafi ekki viljað fara niður fyrir skálastærð X þar sem hún hafi verið í skálastærð X áður. Hún hafi svo gengist undir aðgerðina X og síðar sama dag hafi hún verið send í bráðaaðgerð þar sem blóð hafði byrjað að leka úr skurðsári. Við umbúðaskipti hafi kærandi séð skurðinn eftir seinni aðgerðina. Hann hafi verið verulega illa saumaður með grófum svörtum þræði sem hana klæjaði mikið undan. Þá hafi hún fengið sýkingu í sárið. […] brjóst hennar, heilbrigða brjóstið, hafi verið afmyndað, nánast horfið og  í stærð X, og það […] hafi verið um það bil í stærð X. Kærandi byggir á því að útkoman úr aðgerðinni hefði verið allt önnur en rætt hefði verið um í upphafi. Vegna þessa atburðar sé hún með verulega afmynduð brjóst. Skurðurinn sé sveigður, skakkur og langt því frá að vera jafn á báðum hliðum. Hún sé með bandvefsbólgur undir […] hendi sem skerði hreyfigetu hennar í hendinni og hamli henni töluvert í daglegum athöfnum. Hún sé með mikla verki, örvef og samgróninga í brjóstinu. Þetta hafi valdið henni verulegri vanlíðan, hún forðist að vera innan um fólk vegna þess að hún upplifi sig afmyndaða og reyni að fela brjóstin. Fyrir aðgerðina hafi henni verið tjáð að unnt væri að byggja brjóstin upp aftur en það hafi ekki verið hægt. Kærandi telur að líkamstjón hennar megi rekja til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna.

Í göngudeildarskrá C, sérfræðings, dags. X, segir svo:

„Brjóstamóttaka:

Endurkoma eftir fleygskurð og varðeitlatöku.

Allt gengið vel og hún með mjög lítil einkenni frá brjóstinu en tekur svol. í holhöndina ennþá.

Við skoðun eru bæði skurðsár i góðum gróanda og ekkert sem misfarist hefur. Farið yfir niðurstöður vefjarannsókna. Nokkuð óvænt leynast þarna tveir hnútar og þetta er komið upp undir 2 cm í heildarmál og er nú lesið sem lobular carcinoma sem væntanlega skýrir hvers vegna myndgreiningin hefur vanmetið sjúkdómsumfang.

Mér finnst þetta ekki fullnægjandi skurðmeðferð og við ræðum valkosti, annars vegar hægt að gera tiltölulega einfaldan viðbótar fleygskurð þarna en hins vegar hægt að gera brjóstminnkunartegund af fleygskurði og þá samræmandi aðgerð hinum megin og hún er þess raunar mjög fýsandi og hafði sjálf verið að hugsa um brjóstminnkun.

Einnig borið undir D, úr verður aðgerð í næstu viku þeirrar tegundar.

Ekki þarf að fara í holhönd í það sinn.“

Í göngudeildarskrá E læknis, dags. X, segir svo:

„SAMRÁÐSFUNDUR VEGNA BRJÓSTAKRABBAMEINS

Viðstaddic F, C, F, E og fleiri.

Um er að ræða X árs gamla konu sem fann fyrir einhverjum ónotum í […] brjósti og gekkst undir myndrannsóknir hjá KÍ þar sem vaknaði grunur um illkynja tumor i […] brjósti sem var illþreifanlegur en grófnál staðfesti ifarandi ductal cancer. Gekkst undir fleygskurð og varðeitlatöku þann X sl. í brjóstinu sást lobular cancer á tveimur aðlægum svæðum, annars vegar 0,7 cm á stærð og hins vegar 3-4 mm, en einungis 3 mm á milli þessasra tumora. Minni tumorinn vex í skurðbrún og er því ekki radicalt fjarlægður. Einn eðlilegur varðeitill fannst í holhönd. Grófnál hafði áður sýnt 100% litun fyrir estrogen viðtaka, 10% fyrir progesteron viðtaka og Ki-67 var 5%, en HER2 reyndist neikvætt. Áformað er að sjúklingur gangist undir enduraðgerð til að ná fríum skurðbrúnum með útvíkkaðri excision.“

Í læknabréfi C sérfræðings, dags. X, segir svo:

„Lega: X - X:

Kona sem fer í brjóstmyndatöku vegna ósértækra óþæginda frá […] brjósti. Ekkert er að sjá þar en hins vegar í […] brjósti tilkominn hnútur sem ekki var við síðustu brjóstmyndatöku djúpt í brjóstinu, óþreifanlegur, en ómstýrt ástungusýni staðfestir ífarandi krabbamein. Þetta er metið á ómskoðun og brjóstmynd milli 7 og 9 mm í stærsta mál og ekkert annað athugavert að sjá við hvoruga myndgreiningarrannsóknina. Segulómskoðun ekki framkvæmd vegna innilokunarkenndar sjúklings. Úr verður að ráðleggja fleygskurð og eitlastigunaraðgerð að undangenginni túss- og vírmerkingu á hnútnum.

Hún er því tekin inn til þeirrar aðgerðar og útskrifuð daginn eftir við góða líðan.

Vefjarannsókn sýnir óvænt mun stærra æxlissvæði en metið var á myndum og er þetta a.m.k. 1,8 cm í stærsta mál og reynist vera ífarandi lobular krabbamein en hafði verið greint sem ductal krabbamein á grófnálarsýni. Æxlisvöxtur nær niður í inferior skurðbrún eins og vænta mátti með þetta ranga stærðarmat. Þegar hefur verið ákveðið með enduraðgerð þar sem gerð verður brjóstminnkunaraðgerð beggja vegna sem endanleg skurðmeðferð hennar æxlissjúkdóms.“

Í aðgerðarlýsingu D sérfræðilæknis, dags. X, segir meðal annars:

„Pre-op mat:

Vísa í pre-op texta hjá C. Fyrirhugað að gera bilateral brjóstaminnkun og taka geirvörtu með í preparatið til að minnka fylgikvillaáhættuna á þessum brjóstum og einnig miðað við hennar heilsufarsástand. Konan er vel samþykk þessu og vil alveg minnka um vel helming. Teikna á hana í standandi stöðu inverterað T-snitt báðum megin þar sem geirvartan fer meðIpreparatið. Einnig tökum við húð og svæðið yfir þegar sýkt fleygskurðssvæði sem sagt í […] brjósti.

Almenn lýsing: […] brjóstaminnkun:

Það er deyft með 40 ml af þynntu Marcaine 2,5%. Fer svo i inverterað T-snitt útlínur og sker niður og geri minnkun niður að fasciu. Þetta vegur um 820 gr.

Haemostasa control. Svo er flipunum tyllt með 2/0 og engin spenna á T-mótunum og ágætis form sem fæst við þetta. Symmetrisk stærð miðað við […] hliðina. Vegna sýkingarhættu þá er svo húðflipum tyllt frekar saman með stökum Ethilon 3/0. Brjóstið var sent í formalíni í PAD.

Áframhaldandi sýklalyf og eftirlit á okkarvegum. Svo fyrirhuguð saumataka eftir 7-10 daga á brjóstamiðstöð.“

Um aðgerðarlýsingu C sérfræðings, dags. X, segir meðal annars:

„Pre-op mat:

Kona sem var hér fyrir skömmu í fleygskurði og varðeitiltöku vegna krabbameins í […] brjósti. Reyndist óvænt vera með talsvert meiri sjúkdóm í brjóstinu en myndgreiningar höfðu gefið til kynna og æxlisvöxtur í neðri skurðbrún fleygsýnis. Úr orðið eftir samtöl við konuna að enduraðgerð verði framkvæmd sem rífleg brjóstminnkun með brottnámi vörtu og vörtubaugs sem endanleg krabbameinsaðgerð […] megin og samræmandi aðgerð […] megin en þar er enginn þekktur sjúkdómur. Á þessum forsendum tekin til aðgerðar.

Almenn lýsing:

Eftir svæfingu og annan undirbúning er […] brjóst staðdeyft með 40 ml 2,5% Marcaine með Adrenalini þynnt til helminga með saltvatni. Síðan skorið fyrir wise sniði sem SLR hefur teiknað. Lateralt kemur maður inn í lateral enda fýrri sárholu og fer þá svolítið út fyrir þar til að hafa allt gamla aðgerðarsvæðið með. Að öðru leyti allsstaðar farið niður að fasciu og brjóstvefurinn endanlega fjarlægður. Það er blóðstillt og sárholan skoluð með saltvatni. Nokkuð Ijóst er að sýking hefur verið í fyrra aðgerðarsvæði og er tekið strok þaðan. Bijóstið nú saumað með nokkrum stökum 2/0 Vicryl saumum, nokkrum djúpum dermal 3/0 Monocryl saumum og síðan ýmist stökum eða áframhaldandi 3/0 Ethilon saumum í húð. Sýni, vefur úr […] brjósti, merktur og sendur ferskur í vefjarannsókn.

Um aðgerð á […] brjósti vísað til annarrar aðg.lýsingar D.“

Um aðgerðarlýsingu H sérfræðings, dags. X, segir meðal annars:

„Pre-op mat: A var í bilateral mastectomiu i dag. Nú í eftirmiðdaginn skyndilegt blóðþrýstingsfall, fer í 70/50 og þensla á […] brjósti. Fær vökva og fer upp í 85 í systolu. Skurðstofa er laus og A drifin beint á skurðstofu. Eftir þvott og dúkun með spritti en A er með latex ofnæmi og klórhexidín ofnæmi og þolir eingöngu Dalacin að sögn er gerð aðgerð þar sem opnað er upp í skurðsárið.

Almenn lýsing: Tek út gamla sauma Ethilon og Vicryl. Opnað upp skurðsárið sem er öfugt T. Um 500 ml af coageli í brjóstavefnum sem er hreinsað út. Smáblæðingaren engin aktív stærri blæðing. Skolum vel með saltvatni og sæfðu vatni en sjáum engan aktívan stað. Brennum á smá hluti. Lagt inn 14 Abdovac dren í sárið. Subcutant 3/0 Vicryl og síðan 3/0 Ethilon i húð bæði staka og rennandi sauma. Settar þrýstiumbúðir aftur eins og voru eftir fyrri aðgerð.

Sjúkl. fékk Dalacin i byrjun aðgerðar, heldur áfram á Dalacini nú í það minnsta fyrsta sólarhringinn.“

Í göngudeildarskrá I sérfræðings, dags. X, segir svo:

„Samráðsfundur vegna brjóstakrabbameins X- Sjúklingar eftir aðgerð.

Viðstaddir F (F), C (C); G (G), I (I); J (J); L (L); K (K).

Fundarritari: I

Nafn: A

Kennitala: X

Aldur: X árs

Saga: Engin gögn liggja fyriri Sögu eða með öðrum rafrænum hætti. Skv. munnlegum upplýsingum frá M nýgreind með litið, óþreifanlegt æxli i […] brjósti. Vírmerkingu þarf fyrir aðgerð og mun aðgerð því vera gerð við LSH.

Ráð samráðsfundar X: Mælt með aðgerð eftir vírmerkingu sem fyrstu meðferð. Gangur Gekkst undirfleygskurð og varðeitlatöku þann X sl. í brjóstinu sást lobular cancer á tveimur aðlægum svæðum, annars vegar 0,7 cm á stærð og hins vegar 3-4 mm, en einungis 3 mm á milli þessasra tumora. Minni tumorinn vex í skurðbrún og er því ekki radicalt fjarlægður. Einn eðlilegur varðeitill fannst í holhönd. Grófnál hafði áður sýnt 100% litun fyrir estrogen viðtaka, 10% fyrir progesteron viðtaka og Ki-67 var 5%, en HER2 reyndist neikvætt.

Ráð samráðsfundar X: Áformað er að sjúklingur gangist undir enduraðgerð til að ná fríum skurðbrúnum með útvíkkaðri excision.

Gangur: Aðgerðir/meðferðir X:

Dxt.: Reduction mammoplasty with transposition of areola, HASD30 (D)

Sin.: Reduction mammoplasty with transposition of areola, HASD30 (D)

Vefjagreiningarsvar H 5005-2018 dagsett X:

Dxt.: Útvíkkaður […] brjóstafleygur með post operativar breytingar. Án illkynja breytinga.

Sin: Vefur frá […] brjósti án sjúklegra breytinga.

Ráð samráðsfundar X: Mælt með töflu og geislameðferð.“

Um símtal N hjúkrunarfræðings við kæranda, dags. 3. janúar 2019, segir svo í sjúkraskrá kæranda:

„A hringir. Er að byrja i geislum 7/1 og með spumingar varðandi það. Finnst einnig búið að minnka heilbrigða brjóstið of mikið og á erfitt með að finna brjóstahaldara. Hefur samband eftir geislameðferð og fær þá tíma hjá D/C.“

Í göngudeildarskrá D sérfræðilæknis, dags. X, segir:

„Brjóstamóttaka X:

Aukakoma vegna ósk um leiðréttingaraðgerð eftir fyrri canceraðgerð.

Sjá fyrri nótur en í rauninni þá er hún óánægð með útlit brjósta eftir bilateral minnkunarfleyg. Nú er kominn mánuður síðan hún var geisluð […] megin á cancerbijóstinu og er komin á töflumeðferð. Finnst hún vera stærri þar heldur en á heilbrigða brjóstinu.

Við skoðun þá er hún ennþá aðeins með bjúg i ný geisluðu […] brjósti, það brjóst mun minnka töluvert þegar áhrifin fara úr því og þá verður hún nokkuð symmetrisk.

Hún er með töluverða heilsufarssögu, reykir og i mikilli yfirþyngd þannig að hvað varðar uppbyggingu þá þurfa þeir faktorar að fara í burtu áður en við mundum gera eitthvað kirurgiskt. Útskýri það fyrir henni og að öðru leyti förum við í gegnum hvaða brjóstahöld myndu passa best ásamt mögulegum innleggum.

Hvað varðar frekari skurðaðgerð með uppbyggingarmöguleikum er hún nú upplýst um að hún þarf að vera hætt að reykja í 3 mánuði fyrir aðgerð og eftir ásamt því að fara töluvert niður í BMI. Faglega séð þá er hún eins symmetrisk og mögulegt var miðað við aðstæður. Hún er þó ekki sammál mér hvað það varðar.

Ef ósk er um geirvörtu og tattú, þá er hún velkomin að hafa samband ef hún kýs það eftir þörfum. En reykstopp myndi ég mæl með fyrir þá aðgerð.“

Í göngudeildarskrá O sérfræðings í hjúkrun, dags. 19. febrúar 2019, segir meðal annars svo:

„Er vonsvikin þar sem hún var í viðtali við skurðlækninn, sem metur að það sé ekki hægt að laga brjóstin betur með fituvef eins og hún átti von á að væri hægt, heldur með silicon púðum sem hún vill alls ekki. Finnst brjóstin vera minni en hún átti von á, ekki ánægt með útlit þeirra.“

Í göngudeildarskrá P læknis, dags. 1. mars 2019, segir svo um skoðun kæranda:

„Þá höfum við brjóst sem eru lítil og […] brjóstið sem hefur verið geislað á og er nú lokið er öri. stærra en það […] Það er svo sem ekkert óeðlilegt að henni finndist brjóstin of lítil vegna þess að hún er svol. þung en það leiðinlegasta við það er að hún telur að það hafi nverið tekið alltof mikið af brjóstinu, henni hafi verið sagt að hún yrði í X-skál.

Brjóstin eru þannig með öri. symmetriu og form og staðsetning nokkuð þokkaleg. Hún vill ekki fá silicon implönt til leiðréttingar á þessu vandamáli og henni hefur verið sagt að hún geti fengið fituflutning. Það eru þó takmörk fyrir fituflutning, þ.e.a.s. magninu á fitu sem hægt er að færa í hvert skipti, en þegar ár er liðið frá síðustu geislameðferðariotu skulum við taka upp þráðinn að nýju og mögulega er þá hægt að gera lipofilling á […] brjóstinu þannig að það matsi þó við það […] Hún er einnig með dálitlar fellingar lateralt aftan við bæði brjóstin sem út af fyrir sig gerir útlitið verra og það væri hægt að lagfæra það örl. með fitusogi í báðum síðum.

Það er ekki útilokað að gera þessa aðgerð, þ.e.a.s. reyna að fá symmetriu og lagfæra örl. form brjóstanna, en ég geri þá kröfu að hún verði reyklaus og talsvert léttari.

Við munum hittast aftur í haust og taka stöðuna upp á nýtt og ef allt gengur vel að hún getur hætt að reykja og létt sig aðeins þá má reyna fitusog og fituflutning.“

Í göngudeildarskrá P, dags. 11. október 2019, segir meðal annars svo:

„Ef við snúum okkur að brjóstunum þá leggur hún áherslu á það að þetta hafi verið tekið allt of mikið sem ég er nú ekki alveg sammála en engu að síður þá held ég að við verðum að bjóða henni upp á lipofilling til þess aað ná symmetriu, þ.e.a.s. að ná […] brjóstinu í sömu stærð og það […] Mögulega í öðrum séns í lipofilling bilateralt og reconstructio á geirvörtum og síðan tattú. Þetta er það sem henni býðst og hún vill ekki silicon og það er of mikil aðgerð að rífa báða latissimus dorsi fram. Það er of mikið trauma fyrir konuna.

Við setjum hana upp í orbit.“

Í bréfi R sjúkraþjálfara, dags. 5. febrúar 2020, segir:

„Hef haft A í meðferð vegna verkja. Hún er með mikla verki í […] hlið og brjóstbaki sem þróuðust eftir aðgerð sem gerð var á brjóstum. Er það mitt mat að örvefur sem myndaðist eftir aðgerð á brjóstum hafi áhrif sérstaklega […] megin til aukningar á spennu í vöðvum sem liggja í nágrenni skurðsvæðis og geti mögulega valdið auknu togi á vöðva og bein í brjósthrygg til aukningar og viðhaldi verkja á þessu svæði.“

Í aðgerðarlýsingu P læknis, dags. 25. febrúar 2020, segir meðal annars svo:

„Svæfð, þvegin og dúkuð. Donor kviðveggur. Total fituflutningur400 ml þar af 300 I […] brjóst og 100 í […]. Ágætis symmetria. Steristrip og einstaka saumar í litlu götin á kviðnum. Magabelti. Control á göngudeild eftir nokkrar vikur.“

Í göngudeildarskrá P læknis, dags. 11. mars 2020, segir:

„Vel heppnuð lipofilling. Brjóst nær eins báðum megin.

Þetta lítur allt vel út og vel gróið. Hún mun hafa samband sjálf eftir u.þ.b. 6 mánuði til að taka út lokastöðuna. Hún er jafnvel að hugsa um geirvörtuuppbyggingu.“

Í göngudeildarskrá P læknis, dags. 1. júlí 2020, segir:

„X ára kona með bilateral brjóstaaðgerð.

Þetta vartherapeutic mammoplasty bilateralt með fleyg öðru megin og þetta lítur allt vel út. Hún er síðan þá búin að fara í lipofilling en finnst samt […] brjóstið vera örl. stærra en það […] og mætti vera aðeins stærri. Hún var alltaf óánægð með stærðina eftir þessa minnkun.

Hún er miklu glaðari núna og við getum alveg leyft okkur að taka hana í eina lipofilling í viðbót og gera geirvörtur báðum megin.

Setjum hana upp í orbit og hún kemur inn einhvern tíman á þessu ári eða næsta.“

Í dagál S sérnámslæknis, dags. 2. febrúar 2021, segir:

„Postop nóta deildarlæknis.

A gekkst undir fitufyllingu í […] brjóst og geirvörtuuppbyggingu bilateralt. Aðgerð gekk vel en við svæfingu reyndist A vera í atrial fibrillation og þurr. Flyst á vöknun og mun leggjast inn á A4 í kjölfarið. Vísa í nótur frá T svæfingarlækni og U hjartalækni.

- Fær dalacin sem hún mun svo útskrifast á (7 daga meðferð)

- Fylgjum eftir blóðprufum sem teknar voru í dag (TSH ofl.) Rapportera í kvöldvakt.

- Endurmat á stofugangi á morgun m.t.t. útskriftar og eftirfylgdar.“

Í ódagsettu bréfi Ú hjúkrunarfræðings hjá Krabbameinsfélaginu, segir:

„Hér með staðfestist að A hefur frá byrjun árs 2021 sótt viðtöl til faglegra ráðgjafa hjá Krabbameinsfélaginu tengt mikilli andlegri vanlíðan í kjölfar aðgerða á brjósti vegna krabbameinssjúkdóms og samskipta við heilbrigðisstarfsfólk því tengt. Ljóst er að hún situr uppi með röskun á sinni líkamsímynd auk líkamlegra verkja og óþæginda sem hefur mikil áhrif á hennar daglega líf.“

Í greinargerð D meðferðaraðila kæranda, dags. 23. febrúar 2022, segir meðal annars:

„A var í meðferð hjá kollega mínum, C þar sem hún gekkst upphaflega undir skurðaðgerð á brjósti vegna brjóstakrabbameins. Skurðmeðferð reyndist ekki vera fullnægjandi og þörf var á viðbótar skurðmeðferð.

Meðferðarmöguleikarsjúklings voru ræddir meðal sérfræðingshópsins og á þverfaglegum samráðsfundi. Að því loknu kemur sjúklingur á göngudeild til undirritaðrar þann X og við ræðum möguleikana í stöðunni með tilliti til enduraðgerðar. Ég upplýsi hana um niðurstöðu þverfaglegs mats á næstu meðferðarmöguleikum. Við förum yfir hvaða aðgerðartækni myndi vera við hæfi miðað við sjúkdóm í brjósti, heilsufar og tökum mið af þeim áhættuþáttum sem eru til staðar. Sjúklingur fær viðeigandi upplýsingar fyrir aðgerð, upplýst um það hvers megi vænta eftir aðgerð og mögulega fylgikvilla. Hún hafði ákveðnar hugmyndir og óskir um flóknar uppbyggingaraðgerð samhliða enduraðgerðinni, en vegna áhættuþátta og heilsufars þá voru ekki margir möguleikar og ekki talið öruggt að gera á henni flóknari enduruppbyggingu. Markmiðið var að lækna hana af sjúkdóm í brjósti á öruggan hátt án þess að útsetja hana fyrir of mikilli áhættu og koma henni áfram í viðeigandi krabbameinsmeðferð án mikillra tafa. Ég minnist þess að við áttum langt samtal og ég útskýrði fyrir henni með virðingu hvaða forsendur lægju á bakvið faglegt mat.

Þann X kemur hún til aðgerðar þar sem við gerum minnkunar fleygskurð á báðum brjóstum, vísa hér í aðgerðarlýsingar. Fyrir aðgerð þá teiknar undirrituð á sjúkling. Við þetta tækifæri er aftur farið yfir fyrirhugaða aðgerð, hún undirbúin og við ræðum hvers megi vænta og ég fullvissa mig um hvort að það séu spurningar eða einhver óvissa fyrir aðgerð. Að samtali loknu er sjúklingur tilbúinn og fer inn á skurðstofu. Í aðgerð framkvæmir undirrituð samræmandi fleygskurð […] megin og C framkvæmir fleygskurð […] megin. Hér kemur í ljós sýkt svæði eftir fyrri aðgerð og því þörf á því að taka útbreitt sýkt svæði ásamt fyrirhuguðum fleyg. Aðgerð gekk án vandræða, brjóst,stærð, form og handbragð beggja vegna sambærilegt.

Samdægurs síðar um eftirmiðdaginn verður sjúklingur fyrir blóðþrýstingsfalli með teikn um blæðingarsjokk. Það er bráð blæðing í […] uppbyggðu brjósti. Hún er tekin beint inn á skurðstofu í enduraðgerð. Það er vaktartími og ég vísa í aðgerðarlýsingu frá H frá X. Þetta er bráða aðgerð með því markmiði að stöðva blæðingu. Hér er skurðsár brjósts opnað, flipar teknir niður og hugað að blóðstillingu. Lagt er dren og flipar lagðir saman á ný og saumað mtt að fá góða blóðstillingu samkvæmt aðgerðarlýsingu. Hún útskrifast í kjölfarið og er skipulögð í viðeigandi eftirlit og saumatökur.

A hittir ábyrgan sérfræðing á göngudeild þann X. Þar er farið yfir niðurstöðu aðgerðar og skurðmeðferð vegna krabbameins er lokið. Hún kemur til frekari eftirlits og saumatöku þar sem undirrituð hittir hana einnig í ferlinu. Í kjölfar aðgerðar fær hún sárasýkingu og vandamál með sáragróanda. Einnig er bólgu og breytingu á flipum og formi brjósta lýst í göngudeildarnótum. Þetta eru því miður fylgikvillar sem geta komið upp eftir aðgerð og þá sérstaklega meiri hætta á því ef það þarf að gera bráða enduraðgerð vegna blæðingar eins og hún gekkst undir.

Undirrituð hittir A á göngudeild þann 18.02.2019 til mats með tilllti til leiðréttingaraðgerðar. í millitíðinni hefur hún klárað geislameðferð á brjósti. Ég vísa í göngudeildarnótu frá þeirri komu en þar var farið yfir hvaða möguleika hún ætti á til leiðréttingar. Faglegt mat eftir klíníska skoðun var það að vegna áhættuþátta og heilsufars var ekki talin ábending á frekari flóknari leiðréttingaraðgerðum. Þetta mat er byggt á þeim áhættuþáttum sem voru til staðar á þeim tíma og einnig tekið mið af þeim fylgikvillum sem þegar höfðu komið upp eftir fyrri aðgerðir. Við ræddum aðgerðarmöguleika hennar innan sérfræðingshópsins og við vorum tveir sérfræðingar í viðtalinu. Við fórum yfir stöðuna og lögðum fram faglegt mat. Ég minnist þess að þetta var langt viðtal og fórum við ítarlega í gegnum forsendur faglegs mats. Í lok samtals kemur fram að sjúklingur var í vandræðum með að finna rétt brjóstahöld eftir fyrri aðgerð. Ég fór yfir þau bjargráð sem hægt væri að grípa til og í hreinni einlægni bauð ég henni að fá með sér heim mismunandi stærðir af stuðnings brjóstahöldurum til þess að grípa í eftir þörfum og máta. Mér þykir því miður að lesa kvörtunarbréf og upplifun A þennan dag, því það er ekki sú upplifun eða skilningur sem ég hef af komunni og okkar samskiptum eins og lýst er í göngudeildarnótum.

Faglegt álit mitt á tilfelli er að viðeigandi meðferð var gefin. Í nótum kemur fram að samráð var á milli sérfræðinga um bestu mögulegu meðferð, sjúklingur fékk viðeigandi upplýsingar um fyrirhugaða aðgerð, hvers megi vænta og mögulega fylgikvilla.

Því miður fær hún bæði snemmbúna og síðbúna fylgikvilla eftir aðgerð. Þörf var á bráðri enduraðgerð og í kjöffarið verður hún fyrir frekari fylgikvillum með sárasýking, bólgu og breytingu á stærð flipum og formi brjósta.

Í ljósi hversu erfitt hennar ferli var í gegnum aðgerðir á brjóstum með fylgikvillum og vandamál með sáragróanda þá þótti ekki skynsamlegt í ljósi heilsufarssögu og undirliggjandi áhættuþátta að leggja á hana enn flóknari uppbyggingaraðgerðir sem mögulega gætu útsett hana fyrir enn frekari fylgikvillum í kjölfar aðgerða. Ég vil því gjarnan taka það fram að undirrituð og kollegar komu fram við sjúkling af fagmennsku og öryggi hennar var haft að leiðarljósi. Lýsingar á framkomu og viðmóti í hennar garð ásamt meintri vanrækslu og mistökum í kvörtunarbréfi eru því hvorki réttar né á rökum reistar.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Fyrir liggur að kærandi þurfti að fara í aðgerð á brjósti vegna illkynja meins og ákveðið var að gera aðgerð á hinu brjóstinu til að ná samræmi. Í því ferli kom upp sýking sem þarfnaðist meðhöndlunar sem olli því að brjóstin urðu misstór með ófullkomna lögun. Í kjölfarið fór kærandi í brjóstauppbyggingu sem upphaflega hafði verið reynt að komast hjá með aðgerð á báðum brjóstum. Úrskurðarnefndin telur ljóst að ferlið hafi verið íþyngjandi og erfitt fyrir kæranda. Hún hefur glímt við ofþyngd og hefur sögu um reykingar sem gerir vinnu af þessu tagi erfiða. Nefndin telur ekki verði fundið að þeirri meðferð sem kærandi fékk en að undirstrika hefði mátt við hana mögulega erfiðleika við að ná jafnstórum brjóstum í aðgerðinni og hættuna í ferlinu sem síðar varð. Bótaskylda er því ekki fyrir hendi á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta