Aðsókn að Ísland.is jókst um 80%
Aðsókn á vefinn Ísland.is jókst um 78% á síðasta ári frá árinu áður og fór fjöldi flettinga á vefnum yfir 10 milljónir. Ísland.is hefur að markmiði að einfalda líf fólks og auðvelda því að sækja stafræna þjónustu hins opinbera á einum stað. Sem dæmi eru nú yfir 1.000 umsóknarferli á vefnum og stofnunum sem flytja vefi sína á Ísland.is fjölgar stöðugt. Þær voru sex á árinu 2022 og á þessu ári er gert ráð fyrir að á annan tug stofnana til færi sig yfir á Ísland.is.
Mikil fjölgun flettinga á vefnum sýnir að fólk notar vefinn meira en fyrr, bæði til að sækja upplýsingar en einnig til að nýta stafræna þjónustu hins opinbera. Dæmi um slíkt er bætt þjónusta við aðstandendur með rafrænni málsmeðferð dánarbúsmála, ökunámsferlið er nú stafrænt frá a-ö með tilkomu ökunámsbókar, vegabréfsupplýsingar er að finna á Mínum síðum Ísland.is og fæðingarorlofsumsóknir má nú senda inn stafrænt svo fátt eitt sé nefnt.
Könnun Gallup frá í nóvember leiddi í ljós að um 70% notenda Ísland.is eru ánægðir með vefinn. Mældist þekking, notkun og ánægja há í öllum hópum, burtséð frá aldri, búsetu menntun eða tekjum.
Þær stofnanir sem fluttu vef sinn yfir á Ísland.is á síðasta ári eru Sjúkratryggingar, ríkislögmaður, landskjörstjórn, Útlendingastofnun, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Fiskistofa en áður höfðu sýslumenn fluttu vefi sína þangað. Þá voru tveir verkefnavefir opnaðir á Ísland.is í fyrra – mannauðstorg ríkisins mannaudstorg.is og vefur um opinbera nýsköpun.
Stafrænt Ísland, eining innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins, vinnur að þróun Ísland.is. Einnig er til appið Ísland.is en 65 þúsund manns sóttu það app í fyrra og 80 þúsund frá upphafi. Sífellt bætast gögn í Ísland.is appið með það að markmiði að einfalda líf fólks en á dögunum bættust við ýmsar upplýsingar sem gagnast einstaklingum í lífi og starf og varða t.d. fjölskyldu, fasteignir, ökutæki og vegabréf.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Það er frábært í hve miklum mæli fólk notar nú þjónustuna, og til marks um að hún sé að virka. Við viljum nýta stafvæðinguna til að spara fólki sporin og einfalda lífið í sífellt meiri mæli. Þróunin segir góða sögu í þeim efnum.“