Hoppa yfir valmynd
15. maí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 30/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 30/2019

Miðvikudaginn 15. maí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 17. janúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála frávísun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. janúar 2019 á umsókn kæranda um maka-/umönnunarbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um maka-/umönnunarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 19. desember 2018. Með bréfi, dags. 4. janúar 2019, var kærandi upplýst um að málinu yrði vísað frá ef hún myndi ekki leggja fram gögn frá vinnuveitanda sem staðfestu hvenær starfshlutfall hennar hafi lækkað vegna umönnunar sonar hennar. Fram kom að ekki yrði tilkynnt sérstaklega um frávísun umsóknar hennar heldur væri afgreiðslu hennar lokið með bréfinu, bærust gögnin ekki innan frestsins.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. janúar 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dagsettu sama dag, fór Tryggingastofnun fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir kæranleg ákvörðun. Frávísunarkrafan var kynnt kæranda með bréfi, dags. 21. janúar 2019. Með bréfi, dags. 23. janúar 2019, hafnaði kærandi frávísunarkröfu stofnunarinnar með framlagningu gagna. Með bréfi, dags. 24. janúar 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir efnislegri greinargerð Tryggingastofnunar ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2019, ítrekaði Tryggingastofnun frávísunarkröfu sína. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. febrúar 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að felld verði úr gildi frávísun Tryggingastofnunar á umsókn hennar um maka-/umönnunarbætur og að úrskurðað verði að kærandi eigi rétt til fjárhagsaðstoðar í formi maka-/umönnunarbóta.

Í kæru er greint frá því að kæranda hafi verið bent á að sækja um umönnunarbætur á þeim forsendum að hún sé ekki í fullri vinnu og hafi aldrei getað unnið fulla vinnu vegna fötlunar sonar hennar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. janúar 2019, ítrekar kærandi að hún hafi aldrei getað unnið fulla vinnu út af fötlun drengsins. Kærandi sé [...] og hafi útskrifast X og þar af leiðandi hafi hún ekki verið lengi á vinnumarkaði. Kærandi vinni X% [...] og X% [...] til þess að geta sinnt drengnum [...].

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. janúar 2019, kemur fram frávísunarkrafa stofnunarinnar.

Í greinargerðinni segir að kærð hafi verið beiðni Tryggingastofnunar, dags. 4. janúar 2019, um frekari gögn frá kæranda um umönnunarbætur til að geta metið rétt hennar hjá stofnuninni. Ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um umönnunarbætur í tilviki kæranda þar sem engin gögn hafi borist frá kæranda.

Með framangreindri gagnaöflun hafi stofnunin einungis verið að reyna að sinna rannsóknarskyldu sinni gagnvart kæranda og stuðla að því að ákvarðanir í málum stofnunarinnar séu teknar á réttum forsendum í samræmi við 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Sú grein kveði á um að stofnunin skuli sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt sé tekin og þar á meðal um að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir.

Þar sem Tryggingastofnun hafi ekki tekið kæranlega ákvörðun í málinu fari stofnunin fram á að kærunni verði vísað frá nefndinni þar sem ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. febrúar 2019, ítrekaði stofnunin frávísunarkröfu sína.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. febrúar 2019, segir að kærð sé beiðni stofnunarinnar um frekari gögn frá kæranda um umönnunarbætur, dags. 4. janúar 2019, sem send hafði verið kæranda til þess að geta metið rétt hennar hjá stofnuninni. Með bréfinu hafi Tryggingastofnun óskað eftir ítarlegri gögnum frá vinnuveitenda kæranda sem ætlað hafi verið að staðfesta hvenær starfshlutfall hafi lækkað vegna umönnunar barns kæranda. Beiðnin hafi verið sett fram þar sem innsendir launaseðlar og skattframtöl hafi ekki gefið til kynna hvenær það hafi gerst.

Í bréfi stofnunarinnar hafi verið tiltekið að legði kærandi ekki fram umbeðin gögn þá teldist málinu frávísað tveimur vikum eftir dagsetningu bréfsins. Umbeðin gögn hafi ekki borist og því teljist málinu frávísað.

Í 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segi að heimilt sé, ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem séu allt að 80% af fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu samkvæmt 18. og 22. gr. laga um almannatryggingar. Jafnframt sé heimilt, ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, að greiða öðrum sem haldi heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur.

Á grundvelli 5. gr. laga um félagslega aðstoð hafi verið sett reglugerð nr. 407/2002, en í 2. gr. reglugerðarinnar segi að heimilt sé að greiða maka- eða umönnunarbætur, sbr. 1. gr., ef um sé að ræða sameiginlegt lögheimili lífeyrisþega og þess sem annist um hann. Jafnframt skuli sýnt fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda eða lífeyrisþega.

Þau gögn, sem kærandi hafi lagt fram með umsókn um umönnunarbætur, sýni ekki fram á að kærandi hafi lækkað starfshlutfall sitt til þess að annast son sinn. Við heildstæða skoðun gagna málsins sé ekki hægt að sjá að nein veruleg breyting hafi orðið á starfshlutfalli kæranda á þessu tímabili. Einnig sé vakin athygli á því að þó svo að kærandi sé skráð í X% starfshlutfall þá sé það [...]. Þá sé ekki annað að sjá á framlögðum launaseðlum kæranda en að hún sé að vinna talsverða yfirvinnu ásamt X% starfshlutfalli.

Með gagnaöflun þann 4. janúar 2019 hafi Tryggingastofnun einungis verið að reyna að sinna rannsóknarskyldu sinni gagnvart kæranda þessa máls og stuðla að því að ákvarðanir í málum stofnunarinnar séu teknar á réttum forsendum í samræmi við 38. gr. laga um almannatryggingar. Sú grein kveði á um að stofnunin skuli sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt sé tekin og þar á meðal um að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir svo að hægt sé að taka ákvörðun sem byggi á réttum forsendum. Þá vilji stofnunin benda á að umsækjendum um bætur hjá stofnuninni beri að aðstoða við að upplýsa mál og sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta, auk þess sem stofnunin hafi víðtækar heimildir til að afla upplýsinga frá öðrum aðilum, sbr. 39. gr. og 43. gr. laga um almannatryggingar.

Þar sem Tryggingastofnun telji sig ekki hafa fengið fullnægjandi og umbeðnar upplýsingar frá kæranda þá hafi stofnunin ekki getað tekið efnislega ákvörðun í málinu og teljist málinu því frávísað.

Vakin sé athygli á að kærandi geti sótt um á ný og lagt fram fullnægjandi gögn.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. janúar 2019 um að vísa frá umsókn kæranda um greiðslu maka-/umönnunarbóta.

Um maka-/umönnunarbætur er fjallað í 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- og örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga samkvæmt 18. og 22. gr. laga um almannatryggingar. Jafnframt er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur. Þá kemur fram að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

Reglur nr. 407/2002 um maka- og umönnunarbætur hafa verið settar með stoð í framangreindu ákvæði. Þar er að finna í 1. gr. ákvæði sem er að mestu samhljóða 5. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 2. málsl. 2. gr. kemur fram að sýna skuli fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda eða lífeyrisþega.

Í 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega þar sem segir í 1. mgr. að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð máls, meðal annars með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra.

Samkvæmt gögnum málsins vísaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda um maka-/umönnunarbætur frá á þeirri forsendu að hún hafi ekki lagt fram gögn frá vinnuveitanda sem staðfestu hvenær starfshlutfall hennar hafi lækkað vegna umönnunar sonar hennar. Óumdeilt er í málinu að kærandi hefur lagt fram gögn sem sýna tekjur hennar og staðfestingu vinnuveitanda um starfshlutfall. Einnig upplýsti kærandi um það í kæru að hún hafi aldrei getað unnið fulla vinnu vegna fötlunar sonar hennar sem er í dag á X ári. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af kæru að kærandi geti ekki lagt fram þau gögn sem Tryggingastofnun óskar eftir þar sem hún hafi aldrei getað unnið fulla vinnu. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst því ekki á að Tryggingastofnun sé heimilt að vísa frá umsókn kæranda á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki lagt fram upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að meta hvort kærandi uppfylli skilyrði maka-/umönnunarbóta.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um frávísun úr gildi og vísa málinu aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að vísa frá umsókn A, um maka-/umönnunarbætur vegna sonar hennar, er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta