Hoppa yfir valmynd
9. mars 2020

Evrópsku loftslagslögin – stefna í jafnréttismálum

Stefnumótun hjá Evrópusambandinu og starf fastanefndarinnar í Brussel við að gæta hagsmuna Íslands.

Stefnumarkandi skjöl um loftslagsmál

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti 4. mars 2020 nokkur stefnumarkandi skjöl um loftslagsmál. Tengjast þau því markmiði að Evrópusambandið nái loftslagshlutleysi árið 2050.

Þar má fyrst nefna tillögu að reglugerð um umgjörð til að ná fram loftslagshlutleysi. Í daglegu tali hefur þessi nýja reglugerð verið kölluð „evrópsku loftslagslögin“ (e. European Climate Law). Fram kemur að ef ekki er gripið til sérstakra aðgerða þá muni núverandi stefna einungis fela í sér samdrátt losunar um 60% fram til 2050. Í tillögunni er gert ráð fyrir að markmiðið um loftlagshlutleysi 2050 verði fest í lög ESB. Jafnframt verði þar lagðar línur um hvernig því markmiði verði náð, um reglulegt mat á árangri og um úrræði til að bregðast við ef eitthvað bregður út af. Þau úrræði felast meðal annars í því að framkvæmdastjórnin beini opinberum tilmælum til aðildarríkjanna. Aðildarríkin eiga síðan að taka mið af þeim í anda samstöðu og skila skýrslu um úrbætur. Ennfremur er lagt til að framkvæmdastjórnin fái heimild til að setja afleidda löggjöf til að stuðla að því að markmiðið náist.

Í tillögunni er ekki sett fram tiltekið markmið fyrir árið 2030 eins og sumir bjuggust við. Þess í stað er lagt til að framkvæmdastjórninni verði falið að framkvæma mat á áhrifum á því hvernig megi fyrir það tímamark ná, á ábyrgan hátt, 50-55% minnkun losunar í samanburði við árið 1990. Skal framkvæmdastjórnin hafa lokið þessari vinnu í september 2020.

Þá er lögð til breyting á reglugerð (EU) 2018/1999 um orkusamband og loftslagsmál í þá veru meðal annars að í hverju aðildarríki skuli setja á fót umræðuvettvang um loftslags- og orkumál með þátttöku sveitarfélaga, óháðra félagasamtaka, atvinnulífs, fjárfesta, annarra hagsmunaaðila og almennings.

Í öðru lagi birti framkvæmdastjórnin til samráðs frummat á áhrifum á endurskoðun tilskipunar um orkuskatt. Fram kemur að endurskoða þurfi ýmis skattfríðindi sem jarðefnaeldsneyti njóti, til dæmis í samgöngum í lofti og á hafi. Þessi tilskipun hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn.

Í þriðja lagi birti framkvæmdastjórnin til samráðs frummat á áhrifum á aðgerðum til að koma í veg fyrir „kolefnisleka“ út fyrir Evrópusambandið. Tillagan gengur undir nafninu landamæraaðlögunarkerfi fyrir kolefni (e. Carbon border adjustment mechanism). Hugsunin er sú að eftir því sem sambandið dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda er hætta á að skaðleg starfsemi flytjist annað eða að vörur sem séu framleiddar innan ESB lúti í lægra haldi fyrir innfluttum vörum með meira kolefnisspor. Við þessu megi bregðast með því að leggja gjald á innflutning til þess að tryggja að verð á innfluttri vöru endurspegli kolefnisspor hennar.  Þess verði gætt að tillagan rými við reglur WTO og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.

Loks má nefna að framkvæmdastjórnin hyggst einnig koma á laggirnar svokölluðum loftslagssáttmála (e. Climate Pact). Markmiðið er að virkja almenning og félagasamtök og hvetja til fyrirmyndar aðgerða og háttsemi eins og varðandi samgöngur, endurnýjun bygginga, orkuframleiðslu, neyslu og fjölgun grænna svæða. Bjóða á upp á tækifæri og vettvang til að þróa nýjar aðferðir og lausnir. Hafið er opið samráð um hvernig eigi nánar að útfæra loftslagssáttmálann.

Jafnréttisstefna 2020-2025

Framkvæmdastjórn ESB gaf í dag út fimm ára stefnu um jafnrétti kynjanna. Fram kemur að þótt ríki Evrópusambandsins séu í fararbroddi á þessu sviði í heiminum þá sé enn við kynbundið ofbeldi að eiga og staðalímyndir. Ein af hverjum þremur konum innan ESB hafi orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Og jafnvel þótt fleiri konur en karlar útskrifist úr háskóla þá séu laun þeirra að meðaltali 16% lægri en karla og einungis 8% af æðstu stjórnendum stærstu fyrirtækja innan ESB séu konur.

Í þessu ljósi setur framkvæmdastjórnin fram lykilaðgerðir til næstu fimm ára og einsetur sér að jafnréttismál séu tekin til skoðunar á öllum sviðum stefnumótunar innan sambandsins. Minnt er á að tvö helstu viðfangsefni samtímans, loftslagsmálin og stafræna umbyltingin, feli einnig í sér jafnréttisáskoranir.

Helstu aðgerðir eru þessar:

  1. Víkkuð verði út skilgreining á refsiverðu athæfi, þar sem samræming innan ESB er möguleg, þannig að hún nái yfir kynbundið ofbeldi gegn konum. Í fyrirhugaðri löggjöf um stafræna þjónustu verði gerðar skýrari kröfur til þeirra sem reka netgáttir í því augnamiði að takast á við ólöglega háttsemi á netinu eins og stafrænt ofbeldi sem beinist gegn konum.
  2. Þá hefur verið ýtt úr vör opnu samráði um aðgerðir til að auka gagnsæi í launum, með það fyrir augum að framkvæmdastjórnin geti sett fram tillögur um bindandi fyrirmæli fyrir árslok, sjá https://ec.europa.eu/info/law/better-regulation/have-your-say/initiatives/12098-Strengthening-the-principle-of-equal-pay-between-men-and-women-through-pay-transparency  . Jafnlaunavottun er þar nefnd sem ein möguleg leið. Framkvæmdastjórnin mun jafnframt herða á því að aðildarríkin virði skuldbindingar um samræmi milli vinnu og einkalífs, sbr. tilskipun um það efni. Aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna varðandi lífeyrisréttindi (tillit sé tekið til hlés í starfi vegna umönnunar) eru einnig fyrirhugaðar.
  3. Framkvæmdastjórnin mun ýta á að tillögur hennar frá 2012 um jafnstöðu kynjanna í stjórnum fyrirtækja nái fram að ganga (en þar var gert ráð fyrir að hvort kyn ætti a.m.k. 40% „non-executive“ fulltrúa). Þá verður stutt við þátttöku kvenna í stjórnmálum, meðal annars með tilliti til kosninga til Evrópuþingsins 2024. Stefnt sé að fullu jafnræði kynjanna í öllum stjórnunarstöðum innan stofnana ESB fyrir árslok 2024.

Sjá einnig fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta