Aðgerðir til að sporna við misnotkun metýlfenidat-lyfja
Viðbragðshópur á vegum velferðarráðherra hefur skilað honum tillögum um aðgerðir til að sporna við misnotkun metýlfenidat- lyfja og annarra lyfseðilsskyldra lyfja. Ráðherra hefur fallist á tillögur hópsins og verður þegar hafist handa við að hrinda þeim í framkvæmd.
Mikil umræða hefur að undanförnu verið um mis- og ofnotkun metýlfenidats sem er virka efnið í sérlyfjunum Ritalíni, Ritalíni Uno og Concerta. Sérstaklega hefur verið rætt um misnotkun hjá fullorðnum á metýlfenidat-lyfjum sem eru uppleysanleg og sprautufíklar hafa sóst í.
Velferðarráðherra ákvað þann 1. júní sl. að skipa viðbragðshóp til að semja tillögur til ráðherra fyrir 10. júní 2011 um hvernig megi stemma stigu við misnotkun metýlfenidat-lyfja og annarra lyfseðilsskyldra lyfja sem sýnt er að notuð eru til sölu og dreifingar meðal fíkla á Íslandi. Beðið var um tillögur um aðgerðir sem hægt væri að grípa til nú þegar og til lengri tíma. Tillögurnar áttu að ná til aðgerða varðandi eftirlit, skráningu, aðgengi að upplýsingum, takmörkun á aðgengi og bráðaúrræði á meðferðarstofnunum.
Í greinargerð hópsins er áhersla lögð á að þótt tillögunum sé ætlað að stemma stigu við misnotkun umræddra lyfja sé markmiðið sömuleiðis að tryggja að börn, unglingar og fullorðnir sem þurfa á þessum lyfjum að halda, meðal annars við ofvirkni og athyglisbresti, fái þau áfram ásamt nauðsynlegum stuðningi.
Helstu tillögur viðbragðshópsins felast í því að:
- Hefta aðgengi fýkla að metýlfenidat-lyfjum sem ajuðvelt er að leysa upp og sprauta í æð, meðal annars með því að ávísa fremur á lyf sem minni hætta er á að séu misnotuð vegna meðferðar við ADHD.
- Eftirlit landlæknis verði eflt og kannaðir möguleikar á rýmri lagaheimildum fyrir samkeyrslu upplýsinga úr gagnagrunnum í því skyni.
- Ávísanir á metýlfenidat-lyf og önnur ávana- og fíknilyf verði aðeins afgreiddar út á lyfjaskírteini.
- Meðferðarúrræði fyrir ungmenni í fíkniefnavanda og eftirfylgd með þeim verði aukin.
- Úrræði fyrir fíkla sem eru nýgreindir með HIV-smit og lifrabólgu C verði efld.
- Víðtækt samstarf verði haft um að efla forvarnir, félagslegan stuðning og baráttu við ávana- og fíkniefnavanda samfélagsins.
- Ráðist verði í opinbera stefnumörkun í ávana- og fíkniefna(lyfja)málum.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur fallist á tillögur viðbragðshópsins og verður þegar í stað hafist handa við að hrinda þeim í framkvæmd.
Ráðherra segir fyrirliggjandi tölur um notkun metýlfenidat-lyfja hér á landi og mikla aukningu á liðnum árum tala sínu máli. Aðgerðir sem gripið var til um síðustu áramót hafi að mestu stöðvað aukninguna en meira þurfi að koma til: „Að sjálfsögðu þarf að tryggja þeim sem á þurfa að halda viðeigandi meðferð með þessum lyfjum. Við getum hins vegar ekki horft upp á að lífi ungs fólks sé stefnt í voða með óábyrgri meðferð þessara lyfja og verðum að beita öllum ráðum til að fyrirbyggja sölu og neyslu þeirra á svörtum markaði.“