Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Fjölsóttur fundur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra með erlendum sendiherrum

Hátt í hundrað fulltrúar erlendra ríkja tóku þátt í fundinum - myndUtanríkisráðuneytið

Hátt í eitt hundrað fulltrúar erlendra ríkja með fyrirsvar gagnvart Íslandi tóku þátt í fjarfundi sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra stóð fyrir í dag. Nýútkomnar skýrslur um utanríkisviðskipti og samstarf við Grænland voru þar efst á baugi. 

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fundar reglulega með erlendum sendiherrum sem hafa aðsetur hér á landi um ýmis málefni. Að þessu sinni var hins vegar ákveðið að bjóða öllum sendiherrum sem hafa fyrirsvar gagnvart Íslandi að taka þátt í fjarfundi með ráðherra enda hafa orðið verulegar framfarir í fjarfundatækni undanfarin misseri. Þátttakan fór fram úr björtustu vonum. Hátt í eitt hundrað fulltrúar 66 erlendra sendiskrifstofa sem hafa fyrirsvar gagnvart Íslandi skráðu sig til leiks. 

Ráðherra kynnti á fundinum tvær nýútkomnar skýrslur, annars vegar Áfram gakk! Utanríkisviðskiptastefna Íslands, og hins vegar Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum. Rakti hann helstu þætti utanríkisviðskipta Íslands og hvaða möguleikar væru í þeim efnum, kynnti formennskuáherslur Íslands í Norðurskautsráðinu og fór yfir tillögur um aukið samstarf Íslands og Grænlands á ýmsum sviðum.

„Ég hef aldrei áður fengið tækifæri til að ávarpa svo marga fulltrúa erlendra ríkja sem hafa fyrirsvar gagnvart Íslandi. Umræðurnar í kjölfar kynningarinnar þóttu mér svo bæði gefandi og gagnlegar enda fékk ég margar áhugaverðar spurningar um áherslur Íslands á ýmsum sviðum. Þessi fundur er enn ein staðfesting á því hvaða möguleika fjarfundir bjóða upp á,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra að fundi loknum. 

 
  • Guðlaugur Þór á fundinum í dag - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta