Nr. 1155/2024 Úrskurður
Hinn 20. nóvember 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 1155/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU24060131
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 14. júní 2024 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Kósovó ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. maí 2024, um að fella niður rétt hans til dvalar fyrir aðstandanda EES- eða EFTA-borgara, sbr. 92. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk útgefið dvalarskírteini vegna réttar til dvalar sem aðstandandi EES- eða EFTA-borgara 19. september 2019 vegna hjúskapar við EES- eða EFTA-borgara, samkvæmt hjúskaparvottorði, dags. 4. janúar 2019. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands var lögheimili maka kæranda flutt úr landi 30. september 2020. Hinn 24. janúar 2024 lagði kærandi fram umsókn um dvalarskírteini vegna ótímabundins dvalarréttar, sbr. 2. mgr. 91. gr. laga um útlendinga. Hinn 10. apríl 2024 sendi Útlendingastofnun kæranda bréf þar sem honum var tilkynnt að til skoðunar væri að fella niður rétt hans til dvalar vegna lögheimilisflutninga maka hans. Með bréfinu var kæranda jafnframt veittur 15 daga frestur til þess að leggja fram andmæli vegna málsins. Kærandi lagði ekki fram andmæli við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Hinn 31. maí 2024 tók Útlendingastofnun ákvörðun um niðurfellingu dvalarréttar kæranda með vísan til 92. gr. laga um útlendinga. Fram kom í ákvörðuninni að dvalarréttur kæranda væri afleiddur réttur og grundvallaðist á fjölskyldusameiningu við maka hans. Í ljósi þess að maki kæranda hefði flust frá landinu gæti kærandi ekki notið hins afleidda réttar.
Ákvörðunin var móttekin af umboðsmanni kæranda með tölvubréfi, dags. 31. maí 2024, og kærð til kærunefndar útlendingamála 14. júní 2024. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 18. júní 2024, var kæranda veittur frestur til og með 28. júní 2024 til þess að leggja fram greinargerð og frekari röksemdir til stuðnings kæru sinni. Kærandi brást ekki við erindi kærunefndar. Í samræmi við 3. málsl. 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga frestaði stjórnsýslukæra framkvæmd ákvörðunarinnar og nýtur kærandi dvalarréttar á meðan mál hans er til meðferðar hjá kærunefnd.
III. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi lagði ekki fram greinargerð eða aðrar röksemdir vegna málsins.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í XI. kafla laga um útlendinga er fjallað um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laganna gilda ákvæði kaflans um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Í 2. mgr. 80. gr. laganna segir að ákvæði kaflans gildi einnig um aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem fylgja honum til landsins eða koma til hans. Í 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga er þá kveðið á um að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla hafi rétt til að dveljast hér á landi með honum.
Með aðstandanda EES- eða EFTA-borgara í skilningi síðastnefnds ákvæðis er m.a. átt við maka og sambúðarmaka, niðja viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka, eða ættingja viðkomandi, maka eða sambúðarmaka í beinan legg og á framfæri borgarans. Af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga er ljóst að XI. kafla laganna felur að verulegu leyti í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar nr. 2004/38/EB um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Dvalarréttur fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar grundvallast síðan á 86. gr. laga um útlendinga og njóta þeir sem undir ákvæðið falla dvalarréttar til fimm ára. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum naut kærandi dvalarréttar á grundvelli ákvæðisins frá 19. september 2019 til 28. ágúst 2024, að óbreyttu.
Í 3. mgr. 85. gr. laga um útlendinga er fjallað um það tilvik þegar EES- eða EFTA-borgari fer af landi brott en í slíkum tilfellum njóta aðstandendur hans sem eru EES- eða EFTA-borgarar réttar til dvalar svo lengi sem þeir uppfylla skilyrði 1. mgr. 84. gr. Barn EES- eða EFTA-borgara og það foreldri sem fer með forsjá þess mega dveljast á landinu svo lengi sem barnið er innritað í viðurkennda námsstofnun. Gagnstætt þessu er ekki mælt fyrir um áframhaldandi dvalarrétt fyrir aðstandendur sem ekki eru EES- eða EFTA-borgarar í kjölfar búferlaflutninga þeirra sem afleiddi rétturinn byggðist á. Ákvæði 2. og 3. mgr. 86. gr. laga um útlendinga mæla fyrir um áframhaldandi dvalarrétt þeirra sem ekki eru EES- eða EFTA-borgarar í kjölfar andláts þess sem afleiddur réttur byggist á, eða vegna lögskilnaðar, ógildingar eða slita á sambúð ásamt frekari skilyrðum a-d-liðar 3. mgr. 86. gr. Framangreind lagaákvæði byggjast á 12. og 13. gr. sambandsborgaratilskipunarinnar.
Líkt og fram hefur komið flutti maki kæranda lögheimili sitt úr landi 30. september 2020, og fellur tilvik kæranda því ekki undir lagaskilyrði sem fram koma í 2. og 3. mgr. 86. gr. laga um útlendinga. Að teknu tilliti til framangreinds brustu forsendur dvalarréttar kæranda því við það tímamark og gat hann ekki notið áframhaldandi dvalarréttar hér á landi, sbr. til hliðsjónar dóma Evrópudómstólsins nr. C-40/11 (Iida), frá 8. nóvember 2012, einkum 64. mgr., og nr. C-291/05 (Eind), frá 11. desember 2007, einkum 24. mgr. Í ljósi framangreinds hefur kærandi heldur ekki öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar, sbr. 1. mgr. 88. gr. laga um útlendinga, enda hefur hann ekki búið hér með EES- eða EFTA-borgara í þann tíma sem ákvæðið áskilur.
Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest um niðurfellingu dvalarréttar kæranda enda samræmdist dvöl hans ekki 86. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 92. gr. sömu laga.
Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í frumvarpi því er síðar varð að lögum um landamæri kemur fram að lagt sé til í 2. tölul. e-liðar 25. gr. laga um landamæri að 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga verði breytt þannig að lögin verði í samræmi við brottvísunartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB og kveði skýrt á um að stjórnvöld skuli vísa brott útlendingum sem dveljist hér á landi án heimildar. Þannig skuli útlendingum sem dveljast hér á landi án heimildar vísað brott og í kjölfarið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugir. Þannig verði breyting á ákvörðunum er lúta að ákvörðun um umsóknir um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hér á landi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar er réttur kæranda til dvalar á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga felldur niður. Afleiðingar ákvörðunar Útlendingastofnunar eru þær að kærandi dvelst á Íslandi án dvalarheimildar og hefði stofnunin með réttu átt að taka ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda í samræmi við áðurnefndar lagabreytingar nr. 136/2022. Beinir kærunefnd því til Útlendingastofnunar að hafa framangreindar lagabreytingar í huga við töku stjórnvaldsákvarðana. Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hefði heimild til dvalar á landinu á grundvelli áritunarfrelsis í allt að 90 daga, og hefur kærandi þann frest til sjálfviljugrar heimfarar. Að öðrum kosti skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hans frá landinu og ákveða honum endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðisins.
Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar
Útlendingastofnun fer ekki með almennt eftirlit með útlendingum en annast framkvæmd laga um útlendinga, ásamt öðrum stjórnvöldum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt færslum í málaskrá Útlendingastofnunar gerði lögregla Útlendingastofnun viðvart 1. mars 2023 um að mögulega kynnu forsendur fyrir dvöl kæranda að vera brostnar. Þrátt fyrir framangreint dró Útlendingastofnun að tilkynna kæranda að til skoðunar væri að fella niður dvalarrétt hans í um 13 mánuði. Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að hraða úrvinnslu mála er varða íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir eftir föngum í störfum sínum, sbr. til hliðsjónar 9. gr. stjórnsýslulaga.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares