Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 259/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 259/2018

Fimmtudaginn 15. nóvember 2018

A

gegn

Ísafjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 23. júlí 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Ísafjarðarbæjar, dags. 11. júní 2018, um að fella niður heimaþjónustu til handa kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið heimaþjónustu frá Ísafjarðarbæ um árabil. Þann 1. febrúar 2018 samþykkti bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar nýjar reglur um heimaþjónustu og í kjölfarið var öllum þeim sem voru með samning um heimaþjónustu sent bréf þar sem reglurnar voru kynntar. Í bréfinu var meðal annars tekið fram að þjónustu til þjónustuþega þar sem aðrir heimilismenn, 18 ára og eldri, byggju og gætu annast þrif/verkefni, yrði sagt upp. Með bréfi, dags. 5. apríl 2018, var kæranda tilkynnt um uppsögn á heimaþjónustu með vísan til þess að [...] væri skráður með lögheimilisfesti á heimili hennar. Kærandi áfrýjaði ákvörðuninni til velferðarnefndar Ísafjarðarbæjar og óskaði eftir að uppsögnin yrði endurskoðuð. Velferðarnefnd tók erindi kæranda fyrir á fundi þann 5. júní 2018 og hafnaði því á grundvelli fyrirliggjandi gagna og reglna um heimaþjónustu í Ísafjarðarbæ. Kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 11. júní 2018.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 23. júlí 2018. Með bréfi, dags. 24. júlí 2018, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Ísafjarðarbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. september 2018. Greinargerð Ísafjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 19. september 2018, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. september 2018, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 9. október 2018 og voru þær sendar Ísafjarðarbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. október 2018. Athugasemdir bárust frá Ísafjarðarbæ með bréfi, dags. 23. október 2018, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá aðstæðum sínum og tekur fram að hún hafi notið vikulegrar heimaþjónustu frá Ísafjarðarbæ nær sleitulaust í X ár. Þjónustan hafi verið mikil blessun, enda sé hún ófær um að sjá um þrif á heimilinu, og þjónustan hafi gert henni kleift að sinna betur öðrum þáttum heimilis- og félagslífs og því sem hún þó geti gert. Einnig hafi henni liðið vel með að leggja eitthvað til heimilisins. Ákvörðun Ísafjarðarbæjar um uppsögn á heimaþjónustu hafi verið tekin án þess að úttekt hafi farið fram á heimili kæranda eða heimilisaðstæðum líkt og getið sé í 10. gr. reglna sveitarfélagsins um heimaþjónustu. Kærandi telur að hún eigi rétt á því að velferðarnefnd Ísafjarðarbæjar eða fulltrúi hennar mæti á heimili hennar og meti aðstæður út frá þörfum hennar, ekki með bréfasendingum samkvæmt reglugerðum. Fyrir X árum hafi iðjuþjálfi komið heim til kæranda og metið heimilið, kannað aðstæður og þörf hennar fyrir aðstoð en ekkert slíkt hafi átt sér stað áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Kærandi vísar til þess að hún geti ekki unnið og aflað tekna til heimilisins. Fyrirvinnan sé ein, [...], en hann sjái alfarið um að aðstoða hana eftir þörfum og öfugt eftir bestu getu. Kærandi hafi ekki fengið aðra þjónustu frá sveitarfélaginu og hafi borgað uppsett verð fyrir þá þjónustu sem hún hafi notið. Það að vera með veikan fjölskyldumeðlim á heimilinu sé mikið álag á alla í kringum viðkomandi. Kærandi eigi réttindi sem sjúklingur, mannréttindi og ekki beri að snúa út úr þeim réttindum með því að skikka maka/fjölskyldu til að sinna þessum verkefnum. Kærandi fer fram á undanþágu frá 3. gr. reglna um heimaþjónustu í Ísafjarðarbæ og óskar eftir að framkvæmt verði mat á þörf hennar fyrir þjónustuna. 

III.  Sjónarmið Ísafjarðarbæjar

Í greinargerð Ísafjarðarbæjar er greint frá því að aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar sé að rekja til þess að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafi samþykkt nýjar reglur um heimaþjónustu þann 1. febrúar 2018. Í kjölfarið hafi öllum með gildandi samning um heimaþjónustu verið sent bréf þar sem reglurnar hafi verið kynntar. Í bréfinu hafi meðal annars verið tekið fram að þjónustu til þjónustuþega þar sem aðrir heimilismenn, 18 ára og eldri, byggju og gætu annast þrif/verkefni, yrði sagt upp. Kæranda hafi verið tilkynnt um uppsögn á heimaþjónustu með vísan til þess að […] væri skráður með lögheimilisfesti á heimili hennar.

Ísafjarðarbær vísar til 3. gr. reglna um heimaþjónustu þar sem fram komi meðal annars að ekki verði að jafnaði veitt þjónusta sem aðrir heimilismenn, 18 ára og eldri, geti annast en á því séu gerðar tvær undantekningar. Önnur undantekningin eigi við um heimili fatlaðra og langveikra einstaklinga sem þurfi mikla umönnun frá öðrum fjölskyldumeðlimum. Kærandi hafi ekki sýnt fram á það með skýrum hætti að slík undanþága eigi við í hennar tilviki. Hins vegar hafi komið fram í rökum kæranda að [...] vinni mikið, einnig um kvöld og helgar og sé eina fyrirvinnan á heimilinu. Þá komi fram að kæranda hafi liðið vel með að hún gæti lagt eitthvað til heimilisins og vísi þá til heimaþjónustunnar. Ísafjarðarbæ þyki það sannarlega leitt að kærandi upplifi að breytingar á reglum heimaþjónustu hafi neikvæð áhrif á lífsgæði hennar. Frá þeim verði þó ekki vikið, enda eigi 3. gr. reglnanna við um fleiri þjónustuþega sem hafi fengið þjónustu fyrir gildistöku nýrra reglna og gæta þurfi jafnræðis. Ísafjarðarbær bendir á að ef aðstæður breytist hjá kæranda eða ef hún geti með fullnægjandi hætti sýnt fram á að undantekning frá 3. gr. reglnanna eigi við í hennar tilviki geti hún sótt um að nýju og þá verði gert þjónustumat samkvæmt 10. gr. reglnanna en þjónustan sé ekki veitt fyrr en þjónustumatið liggi fyrir.

Fram kemur í athugasemdum Ísafjarðarbæjar að sveitarfélagið taki til greina athugasemdir kæranda um að ekki hafi verið framkvæmt nýtt þjónustumat áður en ákvörðun um uppsögn hafi verið tekin. Sveitarfélagið telji að rétt hefði verið að gefa kæranda kost á að sækja um að nýju, teldi hún uppsögnina óréttmæta, en henni hafi eingöngu verið bent á málskot til velferðarnefndar. Því telji velferðarsvið rétt að kærandi sæki um heimaþjónustu að nýju og í kjölfarið verði gert þjónustumat þar sem könnuð verði staða kæranda og [...].

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Ísafjarðarbæjar um að fella niður heimaþjónustu til handa kæranda.

Fjallað er um rétt til félagslegrar heimaþjónustu í VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt þágildandi 25. gr. laganna skal sveitarfélag sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búa í heimahúsum og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í 26. gr. kemur fram að með félagslegri heimaþjónustu skuli stefnt að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður. Með félagslegri heimaþjónustu er átt við hvers konar aðstoð við heimilishald, persónulega umhirðu, félagslegan stuðning, gæslu og umönnun barna og unglinga, sbr. 27. gr. laganna. Þá segir í 28. gr. laganna að áður en aðstoð sé veitt skuli sá aðili, sem fari með heimaþjónustu, meta þörfina í hverju einstöku tilviki og læknisvottorð skuli liggja fyrir þegar um heilsufarsástæður sé að ræða.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 er sveitarstjórn gert að setja nánari reglur um framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Ísafjarðarbær hefur útfært nánar framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu með reglum um heimaþjónustu sem samþykktar voru í bæjarstjórn 1. febrúar 2018.

Í 2. mgr. 3. gr. reglnanna kemur meðal annars fram að heimaþjónusta sé fyrir þá sem búi í heimahúsum og geti ekki hjálparlaust séð um heimilishald, persónulega umhirðu og nauðsynlegar athafnir daglegs lífs vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, fötlunar eða af öðrum ástæðum sem velferðarnefnd Ísafjarðarbæjar metur gildar. Ekki sé að jafnaði veitt þjónusta sem aðrir heimilismenn, 18 ár og eldri, geti annast en á því séu eftirfarandi undantekningar:

  1. Heimili fatlaðra og langveikra einstaklinga sem þurfa mikla umönnun frá öðrum fjölskyldumeðlimum.
  2. Heimili fatlaðra eða langveikra barna sem þurfa mikla umönnun.

Þá segir í lokamálslið ákvæðisins að horft sé á heildarmynd þjónustu við heimilið áður en ákvörðun sé tekin um að veita heimaþjónustu.

Í 10. gr. reglnanna er kveðið á um mat á þjónustuþörf. Þar segir að starfsmaður velferðarsviðs meti þjónustuþörf eins fljótt og auðið er eftir að umsókn berst. Matið fari alla jafna fram á heimili umsækjanda og aðstæður séu kannaðar og metnar. Við matið sé tekið sérstakt tillit til sjónarmiða umsækjanda, færni hans til að sinna athöfnum daglegs lífs, félagslegrar stöðu og fjölskylduaðstæðna. Leitast sé við að veita þá þjónustu sem umsækjandi eða aðrir heimilismenn séu ekki færir um að annast sjálfir.

Kærandi hefur þegið heimaþjónustu frá Ísafjarðarbæ um árabil. Ísafjarðarbær hefur vísað til þess að sú þjónusta hafi verið felld niður á grundvelli nýrra reglna um heimaþjónustu frá 1. febrúar 2018. Sveitarfélagið hefur einnig vísað til þess að kærandi hafi ekki sýnt fram á að undanþáguákvæði 3. gr. reglnanna eigi við um hennar aðstæður

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir að aðstæður kæranda voru ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðun var tekin um að fella niður heimaþjónustu til handa kæranda. Hin kærða ákvörðun er einungis byggð á því að nýjar reglur hafi tekið gildi, án frekari skoðunar á aðstæðum kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar sveitarfélaginu að meta þjónustuþörf kæranda í samræmi við 10. gr. reglna um heimaþjónustu, en slíkt mat þarf einnig að fara fram þegar til greina kemur að fella niður aðstoð sem einstaklingur hefur fengið samþykkta eins og hér háttar til. Úrskurðarnefndin tekur fram að kærandi þarf ekki að sækja um að nýju til þess að sveitarfélagið geti framkvæmt þjónustumat.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Ísafjarðarbæjar, dags. 11. júní 2018, um að fella niður heimaþjónustu til handa A, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta