Hoppa yfir valmynd
10. mars 2008 Heilbrigðisráðuneytið

"Orð af orði orðs mér leitað"

Ávarp ráðherra

Ráðstefna Félags talkennara og talmeinafræðinga

Grand hótel, Reykjavík

10. mars 2008

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á því að flytja kveðju ráðherra, sem gat því miður ekki komist hingað í dag en jafnframt þakka fyrir að vera boðið til þessa fræðsludags sem mér skilst að sá haldinn reglulega af miklum myndarbrag.

“Orð af orði orðs mér leitaði” (hávamál)

Orð eru án efa einn mikilvægasti þátturinn í tjáningu mannsins og tjáning er undirstaða allra samskipta manna í millum. Þegar kemur að samskiptum er afar mikilvægt að geta bæði tjáð eigin hugsanir og skilið tjáningu annarra. Því er svo haldið fram og stutt af rannsóknum að velgengi í samskiptum sé stór þáttur í því hvernig okkur vegnar í lífinu. Orð eru samskiptum líkt og múrsteinar húsbyggingum. Orð eru byggingareiningar og því er notkun þeirra forsenda allrar útkomu. Vissulega er einnig ákveðin tjáning fólgin í beitingu líkamans s.s. svipbrigðum, höfuðhreyfingum, handabandi, en áhrifaríkasta tækið til tjáningar, sem á að taka án alla vafa um meiningar okkar manna, eru þegar öllu er á botninn hvolft orð.

Í kennslu í skólum eru notuð orð, við kennum börnunum okkar með orðum. Við lesum orð í blöðum og bókum og við sýnum fram á þekkingu okkar með orðum. Við tölum við fólk með orðum, við hlustum á orð, við lesum orð og um leið fá þau merkingu sem er forsenda samskipta okkar, framfara og þroska. Orð verða setningar og málsgreinar, kaflar, bækur sem innramma menningu okkar, trúarbrögð, sögu og lífshlaup allt.

Þegar fólk missir hæfileikann til að koma orðum að skoðunum sínum og líðan þá hverfur að stóru leyti það tæki okkar að gera okkur öðrum skiljanleg. Að aðrir skilji okkur, hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Stundum missir fólk bara réttu orðin, mismælir sig og stundum skilur fólk eitthvað og stundum misskilur það. Það hlýtur að vera með verri áföllum í lífinu að missa hæfileikann til að tjá hugsun sína með orðum eða að missa hæfileikann til að skilja orð. Orðræðan er okkur allt. Undirstaða vitsmunalífs og þjóðfélaga okkar. Þá staðreynd, sem allt of oft er gleymd vegna þess hversu sjálfsögð hún er á tímum margra orða og fjölbreyttra skoðana í tjáningarfrelsi lýðræðisríkja, ættu fáir að meta meira en einmitt stjórnmálamenn. Því vil ég fyrir hönd ráðherra og allra þeirra er starfa í pólitík þakka ykkur, sem hafið helgað starf ykkar tjáningu og samskiptum manna, alveg sérstaklega.

Viðfangsefni ráðstefnu ykkar hér í dag er mannsheilinn og tjáskipti. Hér ætlið þið að reifa nýjustu rannsóknir og aðferðir til að bæta enn um í þjónustu við þá sem eiga í erfiðleikum er kemur að tjáningu og samskiptum. Það er heilbrigðisþjónustunni á Íslandi, sem og annars staðar, afar mikilvægt að framfarir á sviði talmeinafræða og tjáningar verði nýttar og nýrri þekkingu miðlað eins fljótt og unnt er. Rannsóknir ykkar á þessu sviði sem geta leitt til framfara í meðferð og þar með leitt til umskipta á lífi þeirra sem líða fyrir það að vera álitnir á einhvern hátt öðruvísi vegna ónógrar hæfni er kemur að tali og tjáskiptum. Ekki aðeins umskipta á lífi þeirra einstaklinga heldur allra þeirra er að þeim standa.

Aðalfyrirlesarinn í dag er Júlíus Friðriksson talmeinafræðingur og prófessor við Háskólann í Suður Karólínu í Bandaríkjunum Norður Ameríku. Júlíus stjórnar umfangsmiklum rannsóknum á málstoli einstaklinga sem fengið hafa heilablóðfall og hvernig þeir fái unnið málið aftur, ef svo má að orði komast. Þessar rannsóknir sem hann stýrir hafa hlotið styrk frá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna frá árinu 2002. Við hér á Íslandi erum ákafleg heppinn að eiga vísindamann sem stendur eins framarlega í rannsóknum á talmeinum og tjáningu og raunin er með Júlíus. Það er mér sérstakt ánægjuefni að fagna í kjölfar þessara orð í garð Júlíusar samstarfi því sem Landspítalinn á við hann og hans rannsóknarteymi á þessu sviði. Það er fengur fyrir okkur og vonandi eigum við eftir að njóta þess í ríku mæli til framtíðar.

Það er ósk mín að fyrirlestrar hans hér í dag geti orðið til þess að við getum lært af þekkingu hans og þegið ráð um það hvernig við háttum rannsóknum, stefnumótun og aðgerðum er kemur að því að stuðla að bættum tjáskiptum meðal Íslendinga.

Að ofansögðu er eðlilegt að álykta að talmeinafræðingar eru okkar þjóð og heilbrigðiskerfi afar mikilvægur mannauður sem búa yfir síðkvikri þekkingu sem eflir hér á landi samskipti. Eflir tjáningu og samskipti þeirra sem af einhverjum ástæðum hafa misst vald yfir tjáningu og jafnvel skilningi. Misst tökin á þeirri lærðu hegðun að tjá sig. Hvort sem missirin er vegna heilaáfalla ellegar annarra röskun á líkamasstarfsemi verður hlutverk ykkar seint ofmetið. Sérstaklega í ljós fyrri orða minna um samskipti og mikilvægi tungumálsins fyrir okkur sem þjóðfélag.

Þá vil ég lýsa sérstakri ánægju með að brátt hefjist kennsla í talmeinafræði hér á landi, eins og kom fram í ávarpi formanns hér áðan.

Að lokum vil ég óska ykkur fræðandi og frjósamrar samveru hér í dag.

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta