Heilsuvernd á tímum loftslagsbreytinga
Alþjóðaheilbrigðisdagurinn 7. apríl 2008
Ræða heilbrigðisráðherra
Norræna húsið
Heilsuvernd á tímum loftslagsbreytinga
Ágætu fundargestir!
Alþjóðaheilbrigðisdagurinn er haldinn 7. apríl ár hvert og hefur með árunum orðið sífellt meira áberandi í starfsemi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og þó umfram allt í aðildarríkjunum sjálfum.
Þann 7. apríl er athyglinni beint að tilteknu máli eða málaflokki sem efst er á baugi eða huga þarf að á komandi árum.
Í ár eru einkunnarorð dagsins Heilsuvernd á tímum loftslagsbreytinga (Protecting Health from Climate Change) og hefur WHO hvatt aðildarríki sín til að þau beini athyglinni að áhrifum loftslagsbreytinga á heilsufar í heiminum og undirbúi sig betur undir að mæta þeim ógnunum sem þær kunna að hafa í för með sér á komandi tímum.
Aðalforstjóri WHO, dr. Margaret Chan, mælist til þess að alþjóðasamfélagið láti heilsu fólks og velferð ganga fyrir öðru í mótun stefnu sinnar varðandi viðbrögð við loftslagsbreytingum. Jafnframt telur hún mikilvægt að meiri kraftur verði settur í aðgerðir á sviði heilsuverndar í samræmi við Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Með auknu samstarfi ættu ríkisstjórnir að geta búið sig betur undir að fást við heilsufarsvandamál sem tengjast loftslagsbreytingum staðbundið sem og á heimsvísu. Dæmi um sameiginlegar aðgerðir eru aukið eftirlit og stjórnun sóttvarna, öruggari nýting á minnkandi vatnsforða heimsins, og samþætting aðgerða þegar lýðheilsu er ógnað.
Skýrslur sérfræðinga og rannsóknir sýna að loftslagsbreytingar munu hafa vaxandi áhrif á allt líf á jörðinni og hefur athyglinni sérstaklega verið beint að atriðum sem þýðingu kunna að hafa fyrir heilsu fólks. Breytileiki og breytingar á loftslagi geta orsakað dauða og sjúkdóma sem raktir verða til náttúruhamfara eins og hitabylgna, flóða og þurrka.
Ýmsir smitsjúkdómar eru mjög viðkvæmir fyrir breytingum á hitastigi og úrkomu. Má þar nefna malaríu og aðra hitabeltissjúkdóma. Sömuleiðis eru mörg algeng dánarmein rakin beint til vannæringar eða niðurgangs. Engum blöðum er því um það að fletta að loftlagsbreytingar hafa þegar mikil áhrif á sjúkdómsbyrði heimsins og allt bendir til þess að gera megi ráð fyrir að vægi þeirra muni aukast verulega í framtíðinni.
Að spá fyrir um áhrif loftslagsbreytinga á heilsufar á Íslandi á komandi áratugum eru mikið vandaverk. Fram til þessa hafa flestir fræðimenn verið þeirrar skoðunar að áhrif loftslagsbreytinga á heilsufar íslensku þjóðarinnar verði með minna móti. Það hefur helst verið gert ráð fyrir að hækkandi sjávarstaða, aukin úrkoma og vaxandi ágangur sjávar geti haft áhrif á heilsu landsmanna. Sú skoðun á rót sína að rekja til þess að flest bendir til þess að hlýnun jarðar verði meiri á hærri breiddargráðum fjærst miðbaug og að úrkoma minnki enn frekar á þurrkasvæðum heimsins en aukist annars staðar.
Breytist veðurfar á Íslandi þannig að veður verði vályndari og stormar tíðari má gera ráð fyrir að slysum og dauðsföllum fjölgi í samræmi við það. Samdráttur í matvælaframleiðslu í löndum þar sem áhrif loftlagsbreytinga verða meiri en hér getur haft óbein áhrif á Ísland þótt alkunna sé að við Íslendingar stöndum þeim á sporði sem standa sig best í þessum efnum að svo miklu leyti sem hægt er að tala um einstök þjóðlönd og loftslagsbreytingar. Sömuleiðis getur aukinn aðflutningur fólks frá þessum löndum til okkar heimshluta aukið verulega tíðni tiltekinna sjúkdóma, svo sem berkla, HIV-sýkinga og lifrabólgu B. Loks má vænta aukinnar tíðni ofnæmissjúkdóma vegna vaxandi magns frjókorna í andrúmsloftinu. Um þetta munu þeir fræðimenn sem hér tala í dag fræða okkur nánar.
En það er margt annað en áhrif loftslagsbreytinga sem huga verður að á vettvangi heilbrigðismála. Í ár minnumst við þess að 30 ár eru liðin frá samþykkt Alma Ata yfirlýsingarinnar, en með henni var lagður grunnur að breytingum á forgangi verkefna í heilbrigðismálum. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að heilbrigðisþjónustan megi ekki eingöngu snúast um lækningar og meðhöndlun sjúkdóma heldur verði hún einnig að beinast að grunnheilsugæslu, þar með talið forvörnum og heilsueflingu, auk endurhæfingar vegna sjúkdóma.
Það er mér mikið ánægjuefni að tilkynna að í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar mun heilbrigðisráðuneytið á næstu misserum leggja stóraukna áhersla á forvarnir á öllum sviðum og stuðla í ríkara mæli að heilbrigðari lífsháttum. Ég tel mikilvægt að skapaðar verði aðstæður í þjóðfélaginu sem auðveldi fólki að lifa heilbrigðu lífi og taka heilsusamlegar ákvarðanir. Skipulegar aðgerðir á sviði hreyfingar, mataræðis og geðræktar eru fyrstu skrefin á þeirri vegferð.
Enginn þarf að velkjast í vafa um að hollt mataræði er ein af undirstöðum góðrar heilsu. Regluleg hreyfing er mikilvæg fyrir andlega og líkamlega heilsu fólks. Forvarnir, fræðsla og endurhæfing geta skipt sköpum í geðheilbrigðismálum. Aðgerðir á þessum sviðum eru sannarlega grundvöllur bætts heilsufars þjóðarinnar á komandi árum.
Í framhaldinu er brýnt að unnið verði að útfærslu þessarar stefnu á sem flestum sviðum þjóðlífsins og samtímis verðum við að sjálfsögðu að huga að því hvernig við bregðumst við þeim ógnunum sem loftslagsbreytingar geta orsakað á komandi tímum.
Ágætu fundarmenn !
Hér með segi ég þetta málþing sett.
(Talað orð gildi)