Ráðherra ávarpar stjórnarfund Neytendasamtakanna
Ávarp
Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra,
á stjórnarfundi Neytendasamtakana 15. apríl 2008
Góðir fundarmenn.
Ég vil byrja á því að þakka fyrir að vera boðið að flytja hér í dag ávarp á stjórnarfundi Neytendasamtakana.
Ég var m.a. beðinn um að skýra hvers vegna ég telji að þurfi að opna íslenska lyfjamarkaðinn.
Lyfjamarkaðurinn hér á landi hefur að mati Samkeppniseftirlitsins einkennst af fákeppni og einokun, bæði á heildsölu- og smásölustigi.
Smæð lyfjamarkaðarins er talin ein helsta ástæða þess að takmarkaður áhugi er á innflutning ódýrra samheitalyfja til landsins.
Sú einokun og fákeppni sem að mati Samkeppniseftirlitsins ríkir á markaðnum bæði í heildsölu og smásölu auðveldar ekki aðgengi nýrra aðila og nýrra lyfja að markaðnum.
Ástæða er í þessu sambandi að minna á ályktun sem þing Neytendasamtakanna sem haldið var fyrir rúmu ári samþykkti, en hún var svohljóðandi:
"Ítrekað hefur komið fram að lyfjaverð hér á landi er alltof hátt. Kemur þar tvennt til. Samkeppni á þessum markaði hefur minnkað með aukinni samþjöppun í smásölu og eru nú tvær keðjur orðnar nær allsráðandi á markaðnum. Í öðru lagi ræður eitt fyrirtæki að mestu samheitalyfjamarkaðnum og lítill innflutningur samheitalyfja dregur úr möguleikum neytenda til að kaupa lyf á hagstæðara verði eins og neytendum í nágrannalöndum okkar stendur til boða. Þing Neytendasamtakanna telur þetta með öllu ólíðandi og að ekkert réttlæti að verð á lyfjum sé eins hátt og raun ber vitni. Þingið hvetur samkeppnisyfirvöld til að fylgjast vel með þróun á þessum markaði og grípa til aðgerða. Einnig að stjórnvöld knýi á um að innflutningur samheitalyfja verði aukinn verulega með það að markmiði að lækka verð á lyfjum."
Kröfur yfirvalda (í samræmi við reglur ESB) til markaðsleyfa lyfja draga einnig úr áhuga á innflutningi ódýrra samheitalyfja og þrýsta á hærra verð en yfirvöld eru tilbúin að sætta sig við. Hér er m.a. átt við kröfuna um íslenskan texta á merkimiða og fylgiseðla lyfja sem er sjálfsögð neytendakrafa en má hins vegar segja að virki sem tæknileg hindrun á markaðinum. Þessi krafa hefur m.a. leitt til þess að erfitt hefur reynst að veita sjúklingum aðgang að ýmsum nauðsynlegum lyfjum sem seljast í litlum mæli.
Til að mæta þessu hef ég látið semja drög að reglugerð sem heimilar Lyfjastofnun að veita undanþágu frá þeirri skyldu sem hvílir á markaðsleyfishafa við markaðssetningu lyfs að hverri pakkningu þess fylgi íslensku fylgiseðill. Hugmyndin er sú að láta apótekin afhenda íslenska fylgiseðla, og að hafa þá jafnframt aðgengilega á heimasíðu Lyfjastofnunar.
Þessi reglugerðardrög eru nú í kynningarferli hjá Evrópusambandinu en ég geri ráð fyrir að reglugerðin taki gildi þann 1. október n.k. um leið og það frumvarp um brytingar á lyfjalögum tekur gildi.
Frumvarpið miðar að skapa aðstæður til aukinnar samkeppni á lyfjamarkaði. Með því, eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi lyfjalögum sem miða að því að efla samkeppni og auka þjónustu við neytendur með því að fella brott bann við póstverslun með lyf og heimila sölu nikótín- og flúorlyfja utan lyfjabúða sem er m.a. liður í forvörnum. Til þess að lækka lyfjaverð og halda lyfjakostnaði stofnana í lágmarki er lagt til með frumvarpi þessu að verð á lyfseðilsskyldum lyfjum frá sama söluaðila verði það sama um allt land. Einnig er lagt til að lyfjanefndir sjúkrahúsa gefi út bindandi lista um notkun á lyfjum á viðkomandi sjúkrahúsi. Þá er lagt til að eftirlit og eftirfylgni með lyfjaávísunum og aukaverkunum lyfja verði styrkt með því að lengja varðveislutíma gagna í lyfjagagnagrunni landlæknis úr þremur árum í 30 ár. Að lokum er lögð til einföldun á stjórnsýslu með því að flytja leyfisveitingar á sviði lyfjamála frá heilbrigðisráðuneytinu til Lyfjastofnunar.
Mig langar að fara nokkrum orðum um aðrar aðgerðir sem unnið hefur verið að frá því að núverandi ríkisstjórn tók við.
Til að opna lyfjamarkaðinn hafa m.a. verið stigin fyrstu skrefin í átt að sameiginlegum norrænum lyfjamarkaði.
Lyfjastofnun Íslands er í forsvari fyrir tilraunaverkefni með þátttöku Íslands og Svíþjóðar um samstarf við að veita markaðsleyfi fyrir lyf með gagnkvæmri viðurkenningu á Íslandi um leið og þau hafa verið samþykkt í Svíþjóð. Til umfjöllunar í því verkefni eru 40 lyfjaheiti og má gera ráð fyrir að fimm til sjö markaðsleyfi fáist fljótlega úr þeirri vinnu.
Lyfjagreiðslunefnd hefir einnig leitað eftir samstarfi við sænsku lyfjagreiðslunefndina um verðlagningu lyfja og greiðsluþátttöku ríkisins. Þessi samvinna stuðlar að einföldun og meiri skilvirkni í markaðssetningu á lyfjum sem skilar væntanlega sér í auknu framboði, m.a. á samheitalyfjum.
Jafnhliða þessu hefur verið unnið að samstarfi við Færeyinga frá haustmánuðum með það fyrir augum að kanna möguleika á lyfjainnflutningi á grundvelli sameiginlegs markaðar á sviði lyfja og heilbrigðisþjónustu.
Þá hefur verið unnið náið með hagsmunaaðilum til að ná hagkvæmni í lyfjamálum.
Lyfsölukeðjurnar hafa lagt sitt af mörkum með því að taka upp nýjungar við afgreiðslu lyfja með notkun á vélmennum og með því að fjölga lágvöruverslunum. Rætt hefur verið um hlut smásöluálagningar í lyfjakostnaði og lyfjagreiðslunefnd og fulltrúar smásala vinna að endurskoðun þar að lútandi.
Einnig hefur náðst góður árangur í því sameiginlega átaki yfirvalda og lyfjainnflytjenda að ná heildsöluverði frumlyfja á Íslandi niður til samræmis við það verð sem gildir í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.
Þá má nefna að Tryggingastofnun og landlæknir hófu útgáfu á lyfjalistum á síðasta ári til að veita læknum stuðning við val á lyfjum ásamt því að stuðla að hagkvæmri notkun lyfja. Gefnir hafa verið út lyfjalistar fyrir þunglyndislyf og blóðfitulækkandi lyf og væntanlega mun sjást afrakstur þeirra vinnu í vali lækna á ódýrari lyfjum í þessum flokkum.
Þá er vert að benda hér á þann árangur sem hefur náðst í lækkun á lyfjakostnaði á síðasta ári, m.a. vegna lækkunar á lyfjaverði hjá Actavis og samhliða innflytjendum. Dýrir lyfjaflokkar eins og þunglyndislyf hafa lækkað um 70 millj. kr. þrátt fyrir meiri notkun og kostnaður vegna blóðfitulækkandi lyfja hefur lækkað um 41 millj. kr.
Lyfjakostnaður Tryggingastofnunar nam rétt rúmum 7 milljörðum kr. á síðasta ári. Aukin notkun lyfja, sem nemur 6% frá fyrra ári, tilfærsla yfir í dýrari lyf og áhrif gengis leiddu til þess að það stefndi í kostnaðaraukningu upp á tæp 10% frá árinu 2006. Á móti komu verðlækkanir á mörgum lyfjum og því endaði heildaraukning í kostnaði á milli áranna 2006 og 2007 í um 5% sem þýðir að kostnaðurinn jókst um 350 millj. kr. í stað 700 millj. kr. eins og leit út fyrir að myndi verða. Þess bera að geta að á milli áranna 2005 og 2006 nam heildaraukningin í lyfjakostnaði rúmum 10%. Unnið er að því að lækka lyfjaverð enn frekar í kostnaðarsömustu lyfjaflokkunum með því að efla samkeppnina og gera markaðinn skilvirkari.
Þá var farið út í sameiginlegt lyfjaútboð níu heilbrigðisstofnana sem skilaði tæplega 260 millj. kr. afslætti þegar miðað er við heildsöluverð. Vonast er til þess að samvinna á milli heilbrigðisstofnana sem þarna var viðhöfð muni einnig ná út fyrir landsteinana. Vonandi ná þessar heilbrigðisstofnanir og aðrar að taka þátt í sambærilegum útboðum með þeim stofnunum í nágrannalöndunum sem við erum í mestum samskiptum við.
Góðir fundarmenn
Svo það fari ekki á milli mála vil ég taka fram að ekki stendur til að draga úr þeim öryggiskröfum sem gilda um lyf og lyfjaþjónustu í samræmi við þær reglur sem gilda á evrópska efnahagssvæðinu.
(Talað orð gildir)