Tóbakslaus æska
Tóbakslaus framtíð
Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra
Ágæta samkoma, til hamingju með daginn.
Á morgun er Tóbakslausi dagur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Aðalstef dagsins er: “tóbakslaus æska”. Ungt fólk eru afar mikilvægir þegnar samfélags okkar og þegar kemur að heilsu þeirra og vellíðan viljum við móta velferðakerfi okkar þannig að það tryggi framangreinda þætti sem best. Við viljum gera allt til þess að auðvelda ungu fólk þann þroskaferil sem það er að breytast úr unglingi í fullorðna manneskju og að sá ferill verði sem farsælastur og lærdómsríkur.
Reykingar eru sá lífstílsþáttur sem á hvað stærstan hluta í því flókna orsakasamspili er leiðir til lakari lífskjara og jafnvel dauða, oft fyrir aldur fram. Til að efla heilsu þjóðarinnar er því mjög mikilvægt að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja og að aðstoða þá sem reykja við að hætta því.
Fjöldi rannsókna benda til þess að flestir sem reykja hafi byrjað mjög ungir, það er fyrir 18 ára aldur. Að sama skapi benda þær til þess að mjög fáir byrji að reykja eftir 18 ára aldur. Mikið er því unnið með því að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji ekki að reykja. Til þess eru margar leiðir.
Tóbaksvarnir snúast ekki síst um breytingar á viðhorfum og hegðun. Þegar ungt fólk í 10. bekk, er spurt hve margir reykja þá kemur í ljós að þau halda að mun fleiri reyki í þeirra aldurshópi en gera það í raun. Unga fólkið telur að um 30-50% reyki þegar í raun einungis 11% nemenda í 10. bekk reykja (ESPAD, 2007)
Tóbaksvarnir snúast einnig um ábyrgð foreldra. Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og það að foreldrar reyki á heimili barns eykur verulega líkurnar á að barnið byrji að sjálft að reykja er það kemst á unglingsár.
Að ofansögðu er það ljóst að tóbaksvarnir snúast um fjölmargt m.a. er hægt að hafa óbein áhrif á aðgengi að tóbaki og notkun þess med lagasetningu. Lög og reglugerðir sem er meðal annars ætlað er að koma í veg fyrir reykingar ungmenna. Má þar nefna lög nr. 6 um tóbaksvarnir frá 2002, þar sem m.a. er kveðið á um það að börn undir 18 ára aldri eigi ekki að geta keypt tóbak í verslunum, börn undir 18 ára aldri megi ekki afgreiða tóbak í verslunum,að tóbaksreykingar séu með öllu óheimilar: í grunnskólum, framhaldsskólum og í húsakynnum sem eru fyrst og fremst ætluð til félags-, íþrótta- og tómstundastarfa barna og unglinga.
Aðaláhersla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á morgun, á tóbakslausa deginum, er bann við tóbaksauglýsingum. Sem betur fer stöndum við Íslendingar framarlega er kemur að banni á auglýsingar og er lagaramminn og framfylgd hans þar til mikillar fyrirmyndar. Auglýsingabannið ásamt sýnileikabanni á tóbaki hefur ásamt háu verði og fræðslu um skaðsemi reykinga skilað okkur góðum árangri er litið er til annara landa.
Nú á þessu ári mun ráðuneytið kynna Lýðheilsustefnu með tilheyrandi aðgerðaáætlun til ákveðins tíma. Það verða breyttar áherslur í Lýðheilsustefnunni, sem hingað til hefur borið vinnuheitið ‘Heilsustefna’. Nýja stefna og aðgerðaráætlun sem henni fylgir leggur meiri áherslu á að gera sem flestum kleift að velja heilbrigða lífshætti. Áherslan er á aðgerðir fremur en fögur fyrirheit. Samtímis verdur ekki slakað á þeim forvörnum sem virkað hafa vel eins og í tóbaksvörnum heldur kemur lýðheilsuáherslan í grunninn þar til vidbótar.
Að þessu sögðu vil ég óska okkur öllum reyklausrar framtíðar.
(Talað orð gildir)