Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2010 Utanríkisráðuneytið

Evrópuþingið lýsir stuðningi við ákvörðun ESB um að hefja aðildarviðræður við Ísland

Þingmenn Evrópuþingsins lýsa yfir stuðningi við þá ákvörðun Evrópusambandsins að hefja aðildarviðræður við Ísland í ályktun sem samþykkt var á þinginu í dag. Þingmaðurinn Christian Dan Preda lagði fram ályktunina en hann kom til Íslands til að kynna sér stöðu mála og undirbúning Íslendingar í maí sl.

Tekið er undir álit framkvæmdastjórnar ESB frá því í febrúar þar sem lögð er áhersla á að Ísland sé rótgróið lýðræðisríki sem hafi um áratugaskeið tekið virkan þátt í Evrópusamvinnunni í gegnum aðild sína að EFTA, EES og Schengen. Þá er tekið undir með framkvæmdastjórninni um að að innleiða þurfi umbætur og hert eftirlit með starfsemi banka og fjármálafyrirtækja og að efla beri sjálfstæði íslenskra dómstóla.

Þingmennirnir lýsa ánægju með batamerki í efnahagsmálum þótt enn sé atvinnuleysi hátt. Þar á móti komi áhersla á menntun, framþróun og umhverfismál. Þá lýsa þeir ánægju með nýsamþykkta þingsályktunartillögu um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

Í áliti Evrópuþingsins er hvatt til aðildarsamnings sem þjóni hagsmunum beggja og lýst er skilningi á sérstöðu Íslands. Segir að með aðild Íslands muni staða ESB á Norðurslóðum styrkjast. Hvatt er opinnar umræðu og upplýsingaherferðar um kosti og galla aðildar.

Þingmennirnir segja nauðsynlegt að tvíhliða samkomulag náist við Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni og lýsa ennfremur þeirri skoðun sinni að Íslendingar eigi að hætta hvalveiðum.

Þá vænta þingmennirnir góðs samstarfs við íslenska starfsbræður sína á Alþingi í sameiginlegri þingmannanefnd þess og Evrópuþingsins sem komið verður á laggirnar.

Íslensk þýðing á ályktun Evrópuþingsins (pdf skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta