Smálán og ungt fólk í greiðsluvanda
Mjög hefur dregið úr vægi fasteignalána sl. tvö ár hjá þeim sem sækja um úrræði hjá umboðsmanni skuldara. Á sama tíma hefur hlutfall umsækjenda með smálán farið úr 13% í 43%. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar sl. föstudag greinargerð frá umboðsmanni sem snýr að töku ungs fólks á svokölluðum smálánum. Ráðherra hefur skrifað blaðagrein um málið sem birtist í Morgublaðninu um helgina. Þar segir meðal annars:
Taka svokallaðra smálána er ört vaxandi liður í greiðsluerfiðleikum ungs fólks. Þessi tegund lána virðist hrein viðbót við aðrar tegundir skammtímaskulda. Árið 2017 voru um 70% fólks 18 – 29 ára sem sóttu um ráðgjöf og greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara með smálán. Þetta kemur fram í greiningu umboðsmanns sem ég óskaði eftir. Markaðssetningu smálánafyrirtækjanna virðist beint að ungu fólki sem á erfitt með að fóta sig á þessum lánamarkaði og lendir í greiðsluvanda. Þetta er veruleiki sem verður að bregðast við áður en staðan versnar enn frekar.