Hoppa yfir valmynd
12. desember 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Heimsmynd unga fólksins í heimsins stærstu kennslustund

Nemendur í 3. bekkjum Landakots- og Salaskóla heimsóttu ráðuneytið á dögunum og kynntu Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra niðurstöður Heimsins stærstu kennslustundar, verkefnis sem þau tóku þátt í nú á haustönn sem unnið var í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna.

Nemendurnir unnu með þá heimsmynd sem þau vilja sjá fyrir sér árið 2030 nái heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fram að ganga. Þá lögðu nemendur fram hugmyndir og markmið um hvað þau ætla sjálf að gera til að vinna að framgangi heimsmarkmiðanna. Í framtíðarsýn þeirra lögðu þau mikla áherslu á að tryggja þyrfti jafnt aðgengi að menntun og efla umhverfisvitund fólks á öllum aldri. Til að leggja sitt af mörkum höfðu nemendurnir til að mynda sett sér markmið um aukna hjálpsemi, tillitssemi í kennslustundum og að týna rusl.

„Þessi fundur okkar var sérstaklega ánægjulegur. Við áttum gott spjall um heimsmarkmiðin og mikilvægi samvinnunnar, þessir krakkar vita vel að bestur árangur næst þegar allir taka þátt og að aðgengi að menntun er fyrir öllu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Heimsins stærsta kennslustund er verkefni sem UNESCO skólanetið á Íslandi hefur tekið þátt í undanfarin ár en það miðar að því að efla fræðslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í ár var einnig sérstök áhersla lögð á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í tilefni af 30 ára afmæli hans. Félag Sameinuðu þjóðanna heldur utan um skólanetið í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Námsefni þessu tengt er aðgengilegt fyrir alla skóla á síðu félagsins www.un.is.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta