Fitch staðfestir A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með stöðugum horfum
Matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur birt mat á lánshæfi ríkissjóðs. Lánshæfiseinkunn er óbreytt í A og horfur eru stöðugar.
Í fréttatilkynningu Fitch segir að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli mjög háa landsframleiðslu á mann og mjög góða stjórnarhætti sem eru sambærilegri við lönd með "AAA" og "AA" lánshæfiseinkunn. Þrátt fyrir smæð hagkerfisins hefur Ísland byggt upp umtalsverðan viðnámsþrótt sem dregur úr næmi gagnvart ytri áföllum og áhættu í greiðslujöfnuði, svo sem mikinn gjaldeyrisforða og góða sjóðsstöðu ríkissjóðs. Til styrkleika teljast einnig verulegar lífeyrissjóðseignir, traust fjármálakerfi og sterkir efnahagsreikningar einkageirans. Háar opinberar skuldir, smæð hagkerfisins og einsleitni útflutnings halda aftur af einkunninni.
Efnahagsbatinn eftir heimsfaraldurinn styrktist enn frekar árið 2022. Hagvöxtur var 6,4% þar sem öflug innlend eftirspurn vó þyngst. Hert aðhald peningastefnu og aukin verðbólga munu draga úr framlagi innlendrar eftirspurnar þótt það verði áfram jákvætt. Þrátt fyrir að ráðstöfunartekjur heimilanna muni njóta góðs af síðustu kjarasamningum eykur aukin verðbólga og hærri vextir greiðslubyrði þeirra af skuldum. Spáð er tiltölulega litlum vexti fjárfestingar. Búist er við að veikari hagvöxtur á heimsvísu hafi neikvæð áhrif á útflutning. Fitch áætlar að skuldahlutfall hins opinbera hafi lækkað í fyrra og verið svipað og fyrir heimsfaraldurinn. Ríkissjóður hefur talsverðan sveigjanleika í að mæta fjárþörf og býr yfir góðri sjóðsstöðu auk þess sem lausafjárstaða bankakerfisins er sterk.
Ísland hefur UFS* einkunn upp á '5[+]' fyrir bæði pólitískan stöðugleika og borgaraleg réttindi annars vegar og fyrir réttarríkið, gæði stofnana og regluverks og varnir gegn spillingu hins vegar.
Mikil og viðvarandi lækkun á hlutfalli ríkisskulda af landsframleiðslu, aukinn hagvöxtur og vísbendingar um aukna fjölbreytni í útflutningi sem styrkir mótstöðu gegn ytri áföllum gætu haft jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.
Lausara taumhald ríkisfjármála sem myndi leiða til hækkunar skuldahlutfalls og efnahagsáfall, t.d. vegna mikillar leiðréttingar á fasteignamarkaði, gætu leitt til lægri lánshæfiseinkunnar.
*UFS - Umhverfis- og félagslegir þættir og stjórnarhættir (enska: ESG-Environment, Social, Governance)