Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Komið til móts við sjúklinga

Fréttatilkynning nr. 4/2004

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur með breytingum á greiðslureglum og reglugerðum ákveðið að koma til móts við sjúklinga sérstaklega vegna kostnaðarins sem þeir báru þá átta virku daga sem deila sérfræðilækna við heilbrigðisyfirvöld stóð. Var það mat ráðherra að nauðsynlegt væri að breyta reglum og reglugerðum þar sem réttur sjúkratryggðra til sérfræðilæknisþjónusta utan sjúkrahúsa er skilyrtur af því að samningur sé við viðkomandi lækni samkvæmt almannatryggingalögum.

Nokkur óvissa er ríkjandi um kostnaðinn við breytingarnar, en heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið telur að kostnaður hins opinbera gæti verið á bilinu sex til sjö milljónir króna.

Endurgreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins vegna þessar sérstöku aðstæðna byggjast á fernskonar breytingum.

Í fyrsta lagi er breytt reglugerð nr. 981/2003 um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Breytingin felst í að greiðsla sjúklings fyrir sérfræðilæknishjálp utan sjúkrahúsa veiti rétt til afsláttarskírteinis í samræmi við reglur um afsláttarþök eða hámarkshlutdeild sjúklinga.

Í öðru lagi er breytt reglum nr. 401/2000 um endurgreiðslu á umtalsverðum útgjöldum sjúkratryggðra vegna læknishjálpar, lyfja og þjálfunar. Þetta þýðir að fjölskylda sem hefur allt að 3,75 milljónir kr. í árstekjur fær endurgreiddan kostnað í hlutfalli við fjölskyldutekjur. Breyting á þessum greiðslureglum gagnast fyrst og fremst tekjulágum fjölskyldum.

Í þriðja lagi er breytt reglugerð nr. 541/2002 um endurgreiðslu slysatrygginga á nauðsynlegum kostnaði vegna sjúkrahjálpar. Felur reglugerðarbreytingin í sér að öll útgjöld slysatryggðra verða endurgreidd á umræddu tímabili í samræmi við áður gildandi gjaldskrár. Er þetta i samræmi við þá reglu að kostnaður hins slysatryggða er jafnan greiddur að fullu.

Í fjórða lagi er breytt reglum nr. 213/1999 um ferðakostnað sjúkratryggðra sjúklinga og aðstandenda þeirra innanlands. Breytingin heimilar Tryggingastofnun ríkisins að taka þátt í ferðakostnaði þess sem sótti sér sérfræðilæknishjálp þann tíma sem enginn samningur var í gildi við sérfræðilæknana.

Þeim sem greiddu sérfræðilæknishjálp að fullu á meðan deila sérfræðilækna við heilbrigðisyfirvöld stóð er bent á að hafa samband við Tryggingastofnun ríkisins til að kanna hvort og þá hvaða rétt þeir eiga samkvæmt framangreindum reglugerðum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
23. janúar 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta