Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Endurskoðun þjónustu við börn og ungmenni með geðraskanir

Fréttatilkynning nr. 6/2004

Kristján Már Magnússon, sálfræðingur, hefur verið ráðinn verkefnisstjóri á vegum heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra til að sinna sérstaklega geðmálum barna og ungmenna og tekur hann strax til starfa. Kristján útskrifaðist með embættispróf frá Kaupmannahafnarháskóla 1984 og hefur rekið Reyni – ráðgjafastofu á Akureyri frá árinu 1996.

Í samræmi við fyrri yfirlýsingar Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, verður megin hlutverk verkefnisstjóra að stuðla að og gera beinar tillögur um það hvernig koma má þjónustu við einstaklinga sem glíma við geðraskanir í einn farveg og bæta með því þjónustu við þá. Verkefnisstjóra er í þessu sambandi falið að leiða saman þá aðila, sem veita börnum og ungmennum með geðraskanir, á sviði heilbrigðis-, félags- og menntamála. Verkefnisstjóra er einnig ætlað að kortleggja þjónustuna sem veitt er á þessu svið af hálfu ríkis og sveitarfélaga, kanna og gera tillögur um með hvaða hætti auka má samstarf á þessu sviði í því skyni að bæta þjónustuna við börn og ungmenni.

 

Verkefnisstjóra er einnig ætlað að

  • gera tillögur um þjónustu við börn og ungmenni með geðraskanir á landsvísu
  • skýra og skilgreina verkaskiptingu og ábyrgð þeirra sem veita þjónustu á þessu sviði
  • leggja til breytingar á lögum og reglugerðum í því skyni að gera bæði þjónustu og samstarf aðila á þessu sviði markvissari

 Kristján Már Magnússon er ráðinn tímabundið til sex mánaða.

 Heilbrigðismálaráðherra er með ráðningu verkefnisstjórans að leggja drög að endurskoðun skipulags og framkvæmdar geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni, sérstaklega hvernig þjónustuþættir vinna saman og jafnframt að láta skoða hvaða þjónustu er skynsamlegt að veita á mismunandi þjónustustigum.

 Framkvæmd þessara mála er á hendi fjölmargra aðila sem flest falla undir stjórnsýslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, félagsmálaráðuneytisins, menntamálaráðuneytisins og sveitarfélaganna. Það er skoðun ráðherra að samhæfing og samstarf í þessum málaflokki sé með þeim hætti að nokkuð skorti á skilvirkni og hagkvæmni.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
5. febrúar 2004

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta