Hoppa yfir valmynd
10. mars 2025 Atvinnuvegaráðuneytið

Ráðstefna um nærandi ferðaþjónustu hefst á miðvikudag

Mynd úr skýrslu um Nærandi ferðaþjónustu - sjá hér að neðan  - mynd

Íslenski ferðaklasinn stendur fyrir ráðstefnu um nærandi ferðaþjónustu á Norðurlöndum sem hefst á miðvikudaginn 12. mars á Siglufirði og Hólum. Ráðstefnan er lokapunkturinn í þriggja ára verkefni sem styrkt er af norrænu ráðherranefndinni og kallast „Nordic Regenerative Tourism“ (NorReg) og er stýrt af Íslenska ferðaklasanum fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins. NorReg er þróunarverkefni sem hefur það að meginmarkmiði að styðja lítil og örsmá fyrirtæki (e. small and micro-sized enterprizes) í ferðaþjónustu við að innleiða forsendur nærandi ferðaþjónustu í starfsemi sína. Erindum ráðstefnunnar er ætlað veita innsýn í forsendur nærandi ferðaþjónustu og tengsl hennar og uppruna í öðrum atvinnugreinum, s.s. í landbúnaði og hönnun. Kynnt verða dæmi um starfsemi sem samræmast markmiðum nærandi ferðaþjónustu, ásamt því að fjallað verður um leiðir til að tryggja framtíðarsýn þessarar nálgunar í þróun ferðaþjónustunnar.

Sérfræðingar heim í hlað

„Oft þurfum við að ferðast um langan veg til framandi landa til þess að fá nýja þekkingu og miðla mikilvægri reynslu sem við höfum viðað að okkur í ýmsum málefnum. Í þetta skiptið snúum við dæminu við og fáum sérfræðingana beint í hlað og heim að Hólum og á Siglufjörð. Það verða alvöru töfrar á Norðurlandi í vikunni þegar við eflum okkar þekkingu enn frekar, búum til traustari bönd og vinnum saman að bjartari framtíð fyrir íslenska ferðaþjónustu,“ segir Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdarstjóri hjá Íslenska ferðaklasanum.

Lögð er áhersla á líflega og fjöruga dagskrá og munu fyrirlesarar frá hinum ýmsu löndum miðla reynslu sinni og þekkingu. Dagskránna má sjá í heild sinni hér.

Hvað er nærandi ferðaþjónusta?

Nærandi ferðaþjónusta (e. regenerative tourism) er nálgun á uppbyggingu og þróun innan ferðaþjónustu þar sem velsæld og jafnvægi náttúru og samfélaga er höfð að leiðarljósi. Byggt er á þeirri meginhugsun að íbúar, starfsmenn í ferðaþjónustu og gestir séu öll hluti af sama menginu; ferðaþjónustan hafi áhrif með margvíslegum hætti á líf fólks og umhverfi og verði einnig fyrir áhrifum af samskiptum sínum við gesti, íbúa og náttúru. Nærandi ferðaþjónusta sprettur þannig upp á grunni þess skilnings að innan ferðaþjónustunnar þurfi heildstæða, framsýna hugsun, sem bæði hlúi að sameiginlegum gæðum og gildum okkar allra, og kalli okkur til ábyrgðar gagnvart eigin athöfnum. Markmið nærandi ferðaþjónustu er að ferðaþjónustufyrirtæki og gestir þeirra hafi jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt og náttúru en einnig að rekstur fyrirtækjanna og framboð afþreyingar og þjónustu geri gestum áfangastaðarins kleift og ljúft að taka þátt í að styrkja og leggja til áfangastaðarins til framtíðar. Markmiðið er að skilja við áfangastaðinn í betra ásigkomulagi til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta