Hoppa yfir valmynd
7. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 24/2013

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 24/2013

 

Aðgangur að upplýsingum.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 9. apríl 2013, beindu A og B, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C, f.h. meirihluta stjórnar húsfélagsins D, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 24. apríl 2013, athugasemdir álitsbeiðenda, dags. 13. maí 2013, og athugasemdir gagnaðila, dags. 27. maí 2013, lagðar fyrir nefndina. Ný kærunefnd var skipuð þann 18. júlí 2013 og tók í kjölfarið við meðferð þessa máls af fyrri kærunefnd. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 7. október 2013.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið D, alls sjö eignarhluta. Álitsbeiðendur eru eigendur einnar íbúðar hvor. Ágreiningur er um hvort gagnaðila beri að veita álitsbeiðendum skoðunaraðgang að heimabanka húsfélagsins. 

Kærunefnd telur að krafa álitsbeiðenda sé:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að veita álitsbeiðendum skoðunaraðgang að heimabanka húsfélagsins.

Í álitsbeiðni kemur fram að með tölvupósti hafi álitsbeiðandi A óskað eftir að haldinn yrði stjórnarfundur þar sem að fjallað yrði um hvort veita ætti honum skoðunaraðgang að bankareikningum húsfélagsins. Þann 3. apríl 2013 hafi álitsbeiðandi B einnig óskað eftir slíkum aðgangi. Meirihluti stjórnar hafi hafnað framangreindum óskum álitsbeiðenda á stjórnarfundi þann 9. apríl 2013.

Álitsbeiðandi A sé meðstjórnandi í húsfélaginu. Frá því að hann hafi óskað eftir skoðunaraðgangi, þ.e. aðgangi án nokkurrar heimildar til að framkvæma breytingar eða greiðslur, hafi liðið 14 dagar þar til fundur hafi verið haldinn þrátt fyrir ítrekanir. Það verði að teljast langur tími til fundarboða og telji álitsbeiðandi A það til marks um hve erfitt sé að fá upplýsingar.

Álitsbeiðandi A hafi rétt til upplýsingar samkvæmt fjöleignarhúsalögum en auk þess beri hann skyldur sem stjórnarmaður í húsfélaginu. Með því að hafna skoðunaraðgangi að bankareikningum félagsins hafi meirihluti stjórnar gert álitsbeiðanda A erfiðara um vik að uppfylla þær skyldur sínar auk þess sem meirihlutinn brjóti á rétti hans. Sú leið að veita rafrænan skoðunaraðgang beint hjá banka feli tvímælalaust í sér hagræði.

Álitsbeiðandi B sé að yfirfara fjárhagsstöðu sína. Með milliliðalausum aðgangi sé einfaldara fyrir hana að afla upplýsinga þegar þeirra sé þörf.

Meiriháttar endurbætur hafi átt sér stað á húsinu sem álitsbeiðendur hafi ekki verið samþykkir. Það að hafna beiðni álitsbeiðanda um aðgang að upplýsingum geri álitsbeiðendum erfiðara fyrir að gæta réttar síns. Skoðunaraðgangur að bankareikningum húsfélagsins sé ótvíræður réttur álitsbeiðenda því reikningarnir séu sameiginlegir.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að gagnaðili telji álitsbeiðendur ganga óhæfilega langt í kröfum sínum enda eigi þau ekki lagalegan rétt á umræddum aðgangi að reikningum félagsins. Því krefjist gagnaðili að kröfu álitsbeiðenda um skoðunaraðgang að reikningum húsfélagsins verði hafnað.

Tekið hafi jafn langan tíma og raun ber vitni að boða til stjórnarfundar þar sem tölvupóstur álitsbeiðanda  A hafi borist gagnaðila á þriðjudegi í dymbilviku. Fundarboðun hafi því dregist vegna páska.

Gagnaðili vísar til þess ósættis sem hafi verið með eigendum hússins vegna viðhaldsframkvæmda við húsið. Framkvæmdir hafi hafist á miðju ári 2012 og hafi álitsbeiðendur ekki greitt neinn kostnað við framkvæmdirnar. Vanskil álitsbeiðenda séu því orðin veruleg. Með framangreint í huga hafi stjórnarmönnum húsfélagsins þótt ástæða til að staldra við þegar beiðni hafi borist um umræddan skoðunaraðgang til handa álitsbeiðendum. Ekki hafi verið óskað eftir reikningsyfirliti, lista yfir útistandandi skuldir eða vanskil heldur hafi verið krafist að húsfélagið gerði samning við viðskiptabanka sinn um aðgang álitsbeiðenda að netbanka fyrir lögaðila sem fæli í sér skoðunaraðgang að öllum reikningum, útlánum, skuldum, ábyrgðum og veðum, ógreiddum kröfum og afborgunum skuldabréfa auk skoðunar á útgefnum innheimtukröfum. Í ljósi hinnar óvenjulegu beiðni álitsbeiðanda A hafi verið óskað eftir upplýsingum frá honum um tilgang framangreinds aðgangs og hvernig hann hygðist nota þær upplýsingar sem hann vildi afla. Því hafi verið svarað á þá leið að álitsbeiðandi A vildi fá umræddan aðgang til að geta sinn skyldum sínum sem meðstjórnandi betur.

Þar sem álitsbeiðandi A sé hvorki gjaldkeri húsfélagsins né skoðunarmaður eða endurskoðandi hafi þótt ástæða til að leita ráða hjá lögfræðingi Húseigendafélagsins vegna hinnar umræddu beiðni. Svar hafi borist frá lögfræðingi Húseigendafélagsins þar sem fram kom að álitsbeiðandi A hafi ekki átt rétt á aðgangi að bankareikningum félagsins, einungis gjaldkeri og skoðunarmaður reikninga hafi hann. Álitsbeiðandi hafi hins vegar átt rétt á að fá upplýsingar um fjárhag húsfélagsins og rétt á að skoða gögn húsfélagsins og bókhald, þar á meðal bankayfirlit, á grundvelli 6. mgr. 69. gr. fjöleignarhúsalaga.

Óskað hafi verið upplýsingum frá viðskiptabanka húsfélagsins um hverjir það væru sem almennt fengju skoðunaraðgang að reikningum húsfélaga með þeim hætti sem álitsbeiðendur hafi óskað eftir og í hvaða tilvikum. Því hafi verið svarað að eingöngu gjaldkerar og skoðunarmenn reikninga hefðu óskað eftir og fengið slíkan aðgang. Ekki væru dæmi um annað.

Fundur hafi verið haldinn í stjórn húsfélagsins þann 9. apríl þar sem ósk álitsbeiðenda hafi verið hafnað. Á fundinum hafi gjaldkeri húsfélagsins lagt fram og afhent útprentuð gögn til upplýsinga. Um hafi verið að ræða reikningsyfirlit með öllum hreyfingum og stöðu á árinu 2012, sams konar yfirlit fyrir tímabilið 1. janúar til 1. apríl 2013, skuldalista frá 2. apríl 2013 auk vanskilalista frá sama tíma og lista yfir ógreiddar kröfur félagsins frá 2. apríl 2013.

Álitsbeiðendur séu hvorki gjaldkerar né skoðunarmenn reikninga hjá húsfélaginu og eigi þau því engan frekari rétt á aðgangi að gögnum félagsins en aðrir húseigendur. Réttur þeirra byggi því á 6. mgr. 69. gr. fjöleignarhúsalaga. Á stjórnarfundi hafi álitsbeiðandi A fengið afhent framangreind gögn og hafi því í raun verið komið lengra til móts við hann í gagna- og upplýsingamiðlun en kveðið sé á um í 6. mgr. 69. gr. fjöleignarhúsalaga.

Ósk álitsbeiðanda B um skoðunaraðgang byggi á því að hún sé að yfirfara fjárhagsstöðu sína. Sá réttur til aðgangs að upplýsingum og skýringum um málefni húsfélagsins, rekstur þess, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu að viðstöddum stjórnarmanni, sbr. áðurnefnda 6. mgr. 69. gr., tryggi það sem til þarf. Umfangsmikil eftirlitslaus skoðunaraðgangur að netbanka sé hins vegar óþarfur í þessu samhengi og í raun óhæfilegur. Engin beiðni hafi borist frá álitsbeiðanda B um skoðun á bókum félagsins, reikningum og fylgiskjölum að viðstöddum stjórnarmanni.

Í ljósi framangreinds telji gagnaðili eðlilegt að hafna beiðni álitsbeiðenda um skoðunaraðgang að netbanka húsfélagsins. Auk þess bendir gagnaðili á að í gögnum af umræddu tagi felist viðkvæmar upplýsingar um fjárhag húseigenda og því sé óhæfilegt að aðrir húseigendur fái aðgang að þeim án þess að stjórnarmenn eða aðrir trúnaðarmenn séu til staðar.

Í athugasemdum álitsbeiðenda kemur fram að á undanförnum árum hafi orðið þær breytingar hjá stofnunum og bönkum að hætt sé að senda út yfirlit og upplýsingar á pappírsformi. Tölvutæknin sé nýtt við upplýsingagjöf og sé það meðal annars rökstutt með því að pappírslaus viðskipti feli í sér öryggi, hagkvæmni og sparnað fyrir viðskiptavini.

Það sé meginregla fjöleignarhúsalaganna að eigendur eigi rétt á afritum af öllum gögnum er varði húsfélagið og sameiginleg málefni húsfélagsins og sé stjórn og framkvæmdastjóra skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varði málefni húsfélagsins, rekstur þess, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu.

Ástæða þess að sérregla gildi um bókhald félagsins sé að nauðsynlegt sé að tryggja að ekki skapist hætta á óreiðu í því. Ekki sé um að ræða gögn sem nauðsynlegt sé að skoða að viðstöddum stjórnarmanni húsfélags, heldur bankayfirlit. Hafa beri í huga að álitsbeiðendur séu í stjórn og varastjórn í húsfélagi sem telji sjö aðila. Upplýsingarnar og gögnin sem óskað sé eftir skoðunaraðgangi að, séu ekki einkamál meirihluta stjórnar frekar en önnur gögn húsfélagsins, heldur þvert á móti sameiginlegt mál allra eigenda.

Í áliti kærunefndar frá 31. mars 2005 komi fram að álitsbeiðandi hafi átt rétt á afritum af rekstraryfirlitum frá viðskiptabanka húsfélagsins. Í máli þessu sé óskað eftir því að tækninýjungar verði nýttar til hagræðis fyrir alla aðila, þ.e. að yfirlitin verði sótt rafrænt. Óskin sé einfaldlega sú að fá upplýsingarnar rafrænt beint frá bankanum milliliðalaus. Ekki sé um að ræða eftirlitslausan aðgang, því það sé skráð hjá viðkomandi bankastofnun hver [eigi í hlut] og hvenær sé farið inn og út.

Í athugasemdum gagnaðila kemur fram að álitsbeiðni sú er hér um ræði og efnisatriði hennar lúti ekki að rafrænu aðgengi einstakra viðskiptavina fjármálastofnana að gögnum sem aðeins varði þá sjálfa, svo sem vegna greiðsluseðla sem þeim tengist, yfirlita yfir notkun kreditkorta umræddra viðskiptavina o.s.frv. Álitsbeiðendur hafi óskað eftir eftirlitslausum rafrænum skoðunaraðgangi í netbanka að öllum reikningum húsfélagsins, útlánum, skuldum, ábyrgðum og veðum, ógreiddum kröfum og afborgunum skuldabréfa auk útgefinna innheimtukrafna húsfélagsins. Þessi krafa um rafrænan aðgang að gögnum sé ekki í neinu samræmi við þau rafrænu gögn sem viðskiptavinir fjármálastofnana eigi eða fái aðgang að.

Þá sé það áréttað að stjórn húsfélagsins virði að sjálfsögðu þá skyldu sem felist í 6. mgr. 69. gr. fjöleignarhúsalaga um miðlun upplýsinga. Viðeigandi gögn og yfirlit hafi þegar verið afhent álitsbeiðanda  A. Þau gögn sem álitsbeiðandi B hafi óskað eftir hafi verið afhent henni. Önnur gögn sem álitsbeiðendur kunni að óska eftir síðar geti þau skoðað með hæfilegum fyrirvara að viðstöddum stjórnarmanni sem bær sé til að veita upplýsingar og skýringar.

 

III. Forsendur

Í 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, er fjallað um skyldu stjórnar og framkvæmdastjóra til að veita eigendum upplýsingar og skýringar. Þar segir að stjórn og framkvæmdastjóra sé skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varði málefni húsfélagsins, rekstur þess, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu. Eigendur skuli einnig hafa rétt til að skoða bækur félagsins, reikninga og fylgiskjöl með hæfilegum fyrirvara en þó jafnan að viðstöddum stjórnarmanni.

Ótakmarkaður aðgangur til milliliðalausrar skoðunar á netbanka húsfélagsins er að mati kærunefndar aðgangur til skoðunar á bókum félagsins, reikningum og fylgiskjölum, sem samkvæmt framangreindu er réttur eigenda hússins en þó jafnan að viðstöddum stjórnarmanni. Það er því álit kærunefndar að aðgangur sá sem álitsbeiðendur hafa óskað eftir gangi lengra en réttur eigenda til aðgangs að gögnum félagsins, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 69. gr. laganna. Að mati kærunefndarinnar breytir engu þar um þótt einn af álitsbeiðendum sitji í stjórn húsfélagsins, enda liggur ekki fyrir að honum hafi sérstaklega verið falin umsjón með fjárreiðum þess. Það er því álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðenda.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri ekki að veita álitsbeiðendum aðgang að heimabanka húsfélagsins.

 

Reykjavík, 7. október 2013

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta