Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 294/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 294/2018

Fimmtudaginn 24. janúar 2019

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. ágúst 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar á beiðni hans um fjárhagsaðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. ágúst 2018 þar sem fram kemur að kvartað sé yfir afgreiðslu Reykjavíkurborgar vegna beiðni hans um fjárhagsaðstoð á árunum 2015 og 2016. Hann hafi hvorki fengið svar við umsókninni né greiðslu fjárhagsaðstoðar.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 21. ágúst 2018, var kæran endursend til undirritunar og óskað eftir afriti af hinni kærðu ákvörðun. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. september 2018. Þá var kæranda greint frá því að bærust umbeðin gögn ekki innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins mætti hann búast við því að kærunni yrði vísað frá úrskurðarnefndinni. Umbeðin gögn bárust ekki. Bréf úrskurðarnefndarinnar voru einnig send kæranda í tölvupósti 11. október 2018 og óskað eftir staðfestingu á því að bréfin hefðu borist honum. Undirrituð kæra barst 22. október 2018. Með bréfi, dags. 23. október 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 16. nóvember 2018, var farið fram á frávísun málsins þar sem lögbundinn kærufrestur væri liðinn. Með tölvupósti 22. nóvember 2018 óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort einhverjar ákvarðanir um fjárhagsaðstoð lægju fyrir í máli kæranda. Svar barst frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 14. desember 2018. Bréf Reykjavíkurborgar voru send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. desember 2018. Athugasemdir bárust ekki. Með tölvupósti 9. janúar 2018 óskaði úrskurðarnefndin eftir afriti af öllum gögnum kærumálsins, þ.e. umsóknum og bréfum til kæranda sem vísað var til í bréfi Reykjavíkurborgar frá 14. desember 2018. Umbeðin gögn bárust með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 18. janúar 2019, og voru þau send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. janúar 2019.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að beiðni hans um fjárhagsaðstoð fyrir janúar, mars og desember 2015 hafi ekki verið svarað. Það sama eigi við um tímabilið janúar til nóvember 2016.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir 1. janúar til 31. mars 2015 með umsókn, dags. 23. mars 2015. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 1. júlí 2015, hafi kæranda verið synjað um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar til 28. febrúar 2015 þar sem hann hafi ekki skilað inn læknisvottorði fyrir það tímabil en samþykkt að greiða honum fulla fjárhagsaðstoð fyrir mars 2015 þar sem nauðsynlegum gögnum hafi verið skilað. Kærandi hafi áfrýjað niðurstöðunni til velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi þann 14. október 2015 og staðfest synjunina. Kærandi hafi gert umsókn um fjárhagsaðstoð fyrir 1. nóvember 2015 til 31. janúar 2016 en hvorki undirritað hana né skilað inn nauðsynlegum gögnum og því hafi afgreiðsla umsóknarinnar stöðvast og fallið úr gildi, sbr. 2. mgr. 9. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi hafi ekki sótt um fjárhagsaðstoð fyrir febrúar 2016. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir 29. mars til 31. maí 2016 en ekki skilað inn læknisvottorði fyrir það tímabil og því hafi afgreiðsla umsóknarinnar stöðvast og fallið úr gildi, sbr. 2. mgr. 9. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi hafi ekki haft samband við ráðgjafa sinn eða þjónustumiðstöð á tímabilinu maí til nóvember 2016. Kærandi hafi fengið greidda fulla fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. nóvember 2016 til 31. janúar 2017

IV.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um fjárhagsaðstoð á árunum 2015 og 2016. Kærandi hefur vísað til þess að beiðni hans um fjárhagsaðstoð fyrir janúar, mars og desember 2015 hafi ekki verið svarað. Það sama eigi við um tímabilið janúar til nóvember 2016.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var kæranda synjað um fjárhagsaðstoð fyrir janúar og febrúar 2015 og var sú ákvörðun tekin fyrir á fundi velferðarráðs borgarinnar 14. október 2015. Að öðru leyti hefur kæranda ekki verið synjað um fjárhagsaðstoð á árunum 2015 og 2016 heldur voru umsóknir hans ófullnægjandi vegna þess að þær voru ekki undirritaðar eða að viðeigandi gögn bárust ekki með þeim. Til skoðunar í máli þessu er því einungis ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 14. október 2015.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015. Í 5. mgr. 7. gr. laganna er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 17. ágúst 2018 og því ljóst að kæran barst að liðnum lögboðnum kærufresti. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess. Ákvæði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga mælir þannig fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn. Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga segir að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst tæplega þremur árum eftir að ákvörðun var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta