Áætluð framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málaflokks fatlaðs fólks nema tæpum 36,9 milljörðum króna árið 2024
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um að hækka áætluð framlög sjóðsins vegna málaflokks fatlaðs fólks á árinu 2024 um 5,8 milljarða króna og nema áætluð framlög sjóðsins vegna reksturs málaflokksins nú tæpum 36,9 milljörðum króna.
Hækkunina má rekja til samkomulags sem ríki og sveitarfélög skrifuðu undir 15. desember 2023 um breytingar á fjárhagsramma þjónustu við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækkaði um 0,23% um áramótin með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins. Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við árið 2024.
Framlögin eru greidd mánaðarlega og fer fyrsta greiðsla ársins 2024 fram í lok febrúar. Framlögin taka mið af tekjum sjóðsins af 1,44% hlutdeild hans í staðgreiðsluskilum viðkomandi mánaðar og tekna sjóðsins af 0,235% af innheimtum skatttekjum ríkisins.
Gert er ráð fyrir því að áætlunin verði endurskoðuð í maí 2024.