Hoppa yfir valmynd
16. mars 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 96/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 96/2022

Miðvikudaginn 16. mars 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 9. febrúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. maí 2020, um að stöðva umönnunargreiðslur með syni hennar, B, og krefjast endurgreiðslu vegna tímabilsins 1. apríl til 31. maí 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hafði fengið umönnunargreiðslur með syni sínum frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 13. maí 2020, var kæranda tilkynnt um stöðvun umönnunargreiðslna og endurkröfu vegna tímabilsins 1. apríl 2020 til 31. maí 2020 á þeim forsendum að sonur hennar hefði ekki verið með skráð lögheimili hjá kæranda frá þeim tíma.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. febrúar 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun umönnunargreiðslna með syni hennar. Lögheimili hans hafi eingöngu verið flutt til föður vegna þess að fjölskyldan hafi misst húsnæðið og það hafi ekki verið hægt að skrásetja son hennar „óstaðsettan í hús“. Kærandi hafi verið heimilislaus þar til í X 2021. Þrátt fyrir þetta séu kærandi og barnsfaðir hennar með sameiginlega forsjá og þar af leiðandi sé kærandi enn uppalandi sonar síns. Þá sé drengurinn enn með sína fötlun sem hafi verið forsenda fyrir umsókn um umönnunargreiðslur á sínum tíma.

Kærandi krefjist þess að krafa Tryggingarstofnunar verði felld niður og að kæranda verði ekki refsað fyrir að missa heimili sitt og barnsins. Kærandi hafi verið tilneydd til að flytja lögheimili drengsins til föður svo að hann væri ekki heimilislaus líkt og móðir hans.

III.  Niðurstaða

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. maí 2020, fylgdi kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í kæru kemur fram að sú ákvörðun sé kærð.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. febrúar 2022, en þá var kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar löngu liðinn.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt gögnum málsins leið meira en ár frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 13. maí 2020 þar til kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni þann 9. febrúar 2022. Þegar af þeirri ástæðu verður kærunni ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta