Huga mætti að einkaframkvæmd í auknum mæli
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra telur einsýnt að huga beri að því að auka framkvæmdir í vegagerð á forsendum einkaframkvæmdar. Segir hann í viðtali við Viðskiptablaðið 17. maí sl. að nýta megi reynslu frá gerð Hvalfarðarganganna og leggur til að meginleiðir út frá Reykjavík til austurs og vesturs verði unnar á forsendum einkaframkvæmdar.
Samgönguráðherra nefnir að við endurskoðun samgönguáætlunar sem nú stendur yfir ætti að kanna hvort setja megi í einkaframkvæmd bæði Suðurlandsveg milli borgarmarka og Suðurlandsundirlendis og Sundabraut. Hann segist ekki gera ráð fyrir að vegtollur verði innheimtur með sama sniði og í Hvalfjarðargöngum heldur notuð svonefnd skuggagjaldaaðferð þar sem ríkið greiðir fyrir afnot í samræmi við umferðina. Segir hann að fyrirtæki hafi þegar lýst áhuga á samstarfi, t.d. Faxaflóahafnir vegna Sundabrautar og Sjóvá Almennar vegna vegarins um Hellisheiði. (pdf-242kb)