Sérfræðingar til starfa til Jórdaníu og Afganistan
Íslenska friðargæslan hefur sent Þorvarð Atla Þórsson sérfræðing til starfa hjá svæðisskrifstofu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, fyrir Mið-Austurlönd og norðurhluta Afríku sem staðsett er í Jórdaníu. Aukin áhersla hefur verið lögð á þátttöku friðargæslunnar á svæðinu, einkum í Palestínu og í tengslum við palestínska og íraska flóttamenn. Auk Þorvarðar Atla starfa tveir íslenskir sérfræðingar á vegum friðargæslunnar í Jerúsalem með Barnahjálp SÞ og fjórir sérfræðingar starfa að málefnum palestínuflóttamanna og að uppbyggingarstarfi í nágrannalöndunum.
Erlingur Erlingsson og Garðar Forberg fóru í lok febrúar sem sérfræðingar á vegum friðargæslunnar til starfa að uppbyggingu í Afganistan, annars vegar á sviði þróunarmála og samræmingar þeirra í Kabúl, hins vegar uppbyggingar á stjórnsýslu flugmála í Afganistan. Nú eru sex sérfræðingar starfandi á vegum friðargæslunnar í verkefni alþjóðlegra öryggissveita ISAF í Afganistan og hefur verið lögð aukin áhersla á langtímauppbyggingu og samstarf um verkefnin á norrænum vettvangi þó stöðum hafi verið fækkað.