Hoppa yfir valmynd
25. október 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Auk þarf áhuga á minjum og hvata til að vernda þær

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt fulltrúum og starfsfólki starfshóps skýrslu um minjavernd – stöðu, tækifæri og áskoranir. - mynd

Blása þarf til sóknar í að auka áhuga fólks á minjum og koma á hvötum til að vernda þær, sem og að setja aukin kraft í öflun og miðlun þekkingar og fjármögnun grunnrannsóknar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps, sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði til að  greina stöðu minjaverndar og tækifæri til umbóta.

Starfshópurinn kynnti skýrslu sína Minjavernd - staða, áskoranir og tækifæri í dag og er þar að finna 49 tillögur til úrbóta, en umfang skýrslunnar takmarkast við þá hluta minjaverndar sem snúa að starfsemi Minjastofnunar Íslands. Starfshópinn skipuðu þau Birgir Þórarinsson, sem var formaður hópsins, Arnhildur Pálmadóttir, Erna Hrönn Geirsdóttir, Orri Vésteinsson og Vilhelmína Jónsdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: Skýrslan sem starfshópurinn skilaði nú í dag er vönduð og góð, enda komu margir að gerð hennar. Skilaboðin eru skýr, það er verk að vinna og sannarlega margar áskoranir. Okkur liggur á að bjarga menningarminjum sem víða eru að hverfa en það eru líka mörg sóknarfæri fyrir minjavernd á Íslandi. Skýrslan er góður grunnur fyrir okkur til þess að vinna áfram með. Það er og verður forgangsmál hjá okkur að vinna áfram með þessar ábendingar og tillögur.

Meðal lykiltillagna sem fram koma í skýrslunni er að þörf sé á að:

  • Blása til sóknar í að auka áhuga fólks á minjum og koma á hvötum til að vernda þær
  • Setja kraft í öflun og miðlun þekkingar
  • Efla rannsóknir á sviði menningarminja og menningararfs
  • Koma á grænum hvötum í tengslum við loftslagsmál og hringrásarhagkerfið í átt að breyttri nýtingu húsa
  • Greina hvaða möguleikar eru til þess að styrkja fjárhagslegar stoðir minjaverndar
  • Vernda merkar nýminjar í lögum
  • Gera aðgerðaáætlun um hvernig vekja megi áhuga almennings á minjum

Telur starfshópurinn að hlúa þurfi betur að friðlýstum minjastöðum og fá þurfi gleggri mynd af ástandi þeirra. Þá þurfi að byggja upp grunnrannsóknir á sviði menningarminja og menningararfs og auka yfirsýn. Eins hvetja höfundar til að ríkið taki stærri skref í fjármögnun grunnrannsókna menningarminja og að í því sambandi sé horft til þess hvernig staðið er að grunnrannsóknum á náttúru innan Náttúrufræðistofnunar Íslands. Loks er sérstaklega hvatt til þess að evrópski landslagssamningurinn verði innleiddur, þar sem komið er inn á samhengi sjónrænna gæða, náttúrugæða og menningarlandslags.

Minjavernd - staða, áskoranir og tækifæri

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta