Breyting á lögum um húsaleigubætur
Ný lög nr. 168/2002 um breytingu á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, með síðari breytingum, hafa tekið gildi.
Helstu efnisatriði þessara lagabreytingar eru eftirfarandi:
Breyting á kostnaðarþátttöku ríkisins í húsaleigubótakerfinu
Meginbreytingin með lagabreytingunni er í samræmi við efni viðræðna ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum þessara aðila. Í 1. gr. laganna er núverandi ákvæði um þátttöku ríkissjóðs í greiðslu húsaleigubóta fellt niður. Einnig er gerð breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, um að hluta af framlagi ríkissjóðs verði ráðstafað til úthlutunar framlaga til sveitarfélaga vegna greiðslu húsaleigubóta samkvæmt nánari reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sjá nánar breytingarlög nr. 167/2002 varðandi lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
Húsaleigubætur til umsækjenda sem flytja tímabundið í annað sveitarfélag vegna veikinda
Í 2. gr. laganna er lögfest heimildarákvæði vegna veikinda umsækjanda eða fjölskyldu hans. Sveitarfélagi verði þannig heimilt að greiða húsaleigubætur til leigjanda sem búa þarf tímabundið í öðru sveitarfélagi vegna veikinda. Umsókn um bætur skal send því sveitarfélagi þar sem umsækjandi á lögheimili. Þannig meti sveitarfélögin sjálf í hverju tilviki fyrir sig hvort ástæða sé til að verða við slíkri beiðni umsækjanda. Ástæða þess að heimild þessi er lögð til eru mörg tilvik þar sem annað hjóna eða sambýlisfólk hefur þurft að flytja til höfuðborgarsvæðisins til að fá læknisþjónustu sem það hefur sjálft þurft á að halda eða börn þeirra. Mikill kostnaður er við að reka tvö heimili. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, skulu þeir leigjendur, sem eiga rétt á húsaleigubótum, eiga lögheimili í hinu leigða húsnæði en skv. 7. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, skulu hjón og sambýlisfólk eiga sama lögheimilið. Öðru hjóna er því gert ókleift að færa lögheimili sitt til að öðlast rétt til húsaleigubóta. Heimildarákvæði þetta getur ekki átt við í þeim tilvikum þar sem umsækjandi á rétt á vaxtabótum og lágmarksleigutími er hér einnig sex mánuðir, sbr. 2. og 3. tölul. 6. gr. laganna.
Skilafrestur umsókna um húsaleigubætur og áhrif þess að umsókn berist of seint
Í 4. gr. laganna er kveðið svo á að umsókn um húsaleigubætur hafi borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar og ef umsókn berist seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Vegna tölvukerfis sveitarfélaga er betra að hafa ákveðinn dag sem síðasta skiladag umsóknar í hverjum mánuði, fremur en að miða við 15 daga fyrir hver mánaðamót. Samkvæmt núgildandi kerfi er þessi síðasti skiladagur ýmist 15. eða 16. hvers mánaðar auk frávika vegna febrúarmánaðar. Húsaleigubætur eru greiddar eftir á og því eðlilegt að gera kröfu um að umsókn berist að minnsta kosti fyrri hluta þess mánaðar sem sótt er um að greitt verði fyrir.
Sjá lög nr. 168/2002