Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2003 Innviðaráðuneytið

Ný lög um húsnæðissamvinnufélög

Þann 15. mars sl. samþykkti Alþingi frumvarp félagsmálaráðherra til nýrra heildarlaga um húsnæðissamvinnufélög sem koma í stað laga um húsnæðissamvinnufélög, nr. 161/1998. Lögin eru númer 66/2003 og taka gildi 1. júlí 2003. Helstu nýmæli laganna eru þau að innlausnarskylda húsnæðissamvinnufélaga á búseturétti er afnumin, endursala búseturéttar er gefin frjáls, ákvæði um númeraröð færð í samþykktir félaganna og gert ráð fyrir að viðhaldssjóður verði einn sameiginlegur sjóður.

Frumvarpið var samið af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði. Verkefni nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi var að vinna að heildarendurskoðun laga um húsnæðissamvinnufélög, nr. 161/1998. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar félagsmálaráðuneytis, Íbúðalánasjóðs, Búseta hsf. Reykjavík og Búmanna hsf.

Eftirfarandi er helstu nýmæli laganna. Að öðru leyti skal vísað í lögin sjálf og frumvarp ásamt greinargerð sem hægt er að nálgast hér neðar auk nefndarálits frá meiri hluta félagsmálanefndar um frumvarpið.

Innlausnarskylda afnumin
Í núgildandi lögum um húsnæðissamvinnufélög skal húsnæðissamvinnufélagið annast innlausn og endursölu búseturéttar. Með nýju lögunum er gert ráð fyrir að húsnæðissamvinnufélagið ákveði á aðalfundi og setji í samþykktir sínar með hvaða hætti endursala fari fram. Meðal annars er fallið frá kaupskyldu húsnæðissamvinnufélaga en áfram ber félagsmaður aðeins ábyrgð á greiðslu búsetugjalds á meðan hann býr í íbúðinni, þar með talið út uppsagnarfrestinn. Eftir þann tíma er húsnæðissamvinnufélagi heimilt að leigja íbúðina hafi ekki tekist að selja búseturéttinn.

Endursala búseturéttar gefin frjáls
Í nýju lögunum er gert ráð fyrir að húsnæðissamvinnufélögin ákveði sjálf hvernig endursöluverð skuli ákveðið. Með því væri endursala og verðlagning gefin frjáls ef félögin ákveða svo. Í þessu samhengi má vísa til nýlegra laga um heimild til að víkja frá kaupskylduákvæðum vegna félagslegra eignaríbúða. Þróun á Norðurlöndum hefur verið á þann veg að verð búseturéttar ákvarðast af markaðsverði fremur en fyrir fram gefnum forsendum.

Ákvæði um númeraröð felld brott
Í núgildandi lögum um húsnæðissamvinnufélög er kveðið á um að félagsmenn öðlist rétt til að fá keyptan búseturétt í þeirri röð sem þeir ganga í félagið. Í nýju lögunum er lagt til að aðalfundur félagsins taki ákvörðun um slíkt og setji um það reglur.

Viðhaldsjóður einn sameiginlegur sjóður
Í nýju lögunum er kveðið á um viðhaldssjóð þannig að hann verði einn sjóður og alfarið á hendi húsnæðissamvinnufélagsins sem varðveitir viðhaldssjóðinn og ráðstafar fé úr honum í samráði við viðhaldsráð. Lagt er til að aðalfundur húsnæðissamvinnufélags setji nánari reglur um viðhaldssjóðinn, svo og reglur um viðhaldsráð. Framlag í viðhaldssjóð er hluti búsetugjalds. Með einum öflugum viðhaldssjóði húsnæðissamvinnufélags er ætlunin að ná betri ávöxtun, betri nýtingu fjármagns, aukinni samræmingu og ekki síst að tryggt verði enn frekar en áður að allar fasteignir húsnæðissamvinnufélagsins fái eðlilegt viðhald. Viðhaldsráð gegnir þarna veigamiklu hlutverki en gert er ráð fyrir kosningu viðhaldsráðs á aðalfundum félaganna en það skal starfa eftir reglum sem húsnæðissamvinnufélagið setur. Gerður er skýrari greinarmunur en áður á hvað er viðhald og hvað er endurnýjun sem og hvað viðhaldssjóðir eiga að greiða og hvaða viðhaldi íbúar sinna beint á sinn kostnað. Sjóðir sem nú eru í vörslu búsetufélaganna munu því renna í sameiginlegan viðhaldssjóð húsnæðissamvinnufélaganna enda er um að ræða fjármagn sem er sannarlega í eigu búsetufélaganna sem síðan er eign húsnæðissamvinnufélagsins. Félagið ber jafna ábyrgð á öllum fasteignum sínum óháð núverandi ástandi á húseignunum og fjárhagsstöðu einstakra viðhaldssjóða.

Til nánari fróðleiks:

Skjal fyrir Acrobat ReaderLög um húsnæðissamvinnufélög nr. 66/2003

Frumvarp ásamt greinargerð (þingskjal nr. 457)

Nefndarálit um frumvarp til laga um húsnæðissamvinnufélög frá meiri hluta félagsmálanefndar (þingskjal nr. 1234)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta