Hoppa yfir valmynd
25. júní 2021

Átök um grundvallarmál á leiðtogafundi

Að þessu sinni er fjallað um

  • leiðtogafund ESB þar sem tekin var staðan á viðureigninni við Covid-19
  • gagnrýni á nýja ungverska löggjöf sem þykir vega að samkynhneigðum
  • ágreining innan ESB um afstöðu til Rússlands
  • ·vinnu við nýja ferðamálastefnu ESB
  • ·ný loftslagslög
  • afstöðu ráðherraráðsins til reglna um reiki og gjaldtöku fyrir þungaflutninga á vegum

Kapphlaup milli bólusetninga og nýrra afbrigða

Í yfirlýsingu frá leiðtogafundi ESB sem fram fór 24. og 25. júní er því fagnað að vel gangi með bólusetningar og að staða faraldursins fari almennt batnandi. Þó megi ekki missa dampinn í bólusetningum og vera þurfi á varðbergi vegna nýrra afbrigða veirunnar.

Delta afbrigðið svokallaða sem verið hefur ráðandi í Bretlandi um skeið færist í aukana víða annars staðar. Afbrigðið er meira smitandi en önnur og leggst á þá sem ekki hafa hlotið bólusetningu. Í mörgum ríkjum er það áhyggjuefni að þótt töluvert sé í land að ná fram hjarðónæmi með bólusetningu hefur dregið mjög úr aðsókn almennings. Er nú rætt í fullri alvöru, til dæmis í Frakklandi, að skylda fólk í bólusetningu.

Þá var undirstrikað af hálfu leiðtoganna mikilvægi samkomulags sem tekist hefur um stafrænt Covid-19 vottorð en reglur í því efni eiga að taka gildi innan EES og Sviss 1. júlí. Íslendingum og fleirum gefst þegar kostur á að fá slík samræmd vottorð með QR-kóða. Fram hefur komið hjá framkvæmdastjórn ESB að nú þurfi að gæta þess að skönnun á slíkum vottorðum sé sem skilvirkust. Óþarfi sé til dæmis að skanna þau bæði fyrir brottför og við komu til áfangastaðar.

Það er til marks um batnandi ástand að nýlega var ákveðið að aflétta ferðatakmörkunum gagnvart allmörgum ríkjum og svæðum utan Schengen, þ.e.a.s. Albaníu, Bandaríkjunum, Hong Kong, Líbanon, Macao, Norður-Makedóníu, Serbíu og Tævan. Bætast þau við ríki sem fyrir voru eins og Ástralía, Japan, Ísrael og Nýja Sjáland.

Hörð viðbrögð við ungverskum lögum um börn og samkynhneigð

Á fyrri degi leiðtogafundarins var gerð hörð atlaga að forsætisráðherra Ungverjalands vegna nýrra laga þar í landi sem þykja fela í sér grófa mismunun vegna kynhneigðar. Um er að ræða lagabreytingu sem taka á gildi 1. júlí næstkomandi. Frumvarpi sem átti upphaflega að beinast gegn barnaklámi var breytt á þann veg að bannað væri að veita börnum aðgang að efni sem sýndi eða hvetti til samkynhneigðar eða kynskipta.

Fyrir leiðtogafundinn höfðu 17 aðildarríki, þar á meðal Frakkland, Þýskaland, Spánn og Ítalía, skrifað sameiginlegt bréf þar sem leiðtogaráðið og framkvæmdastjóri SÞ, sem er boðsgestur ráðsfundarins, er minnt á grundvallargildi í Evrópu og harmaðar eru ógnir við mannréttindi og einkum bann við mismunun vegna kynhneigðar.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, hafnaði því við komuna til Brussel að lögin beindust að samkynhneigðum. „Þau snúast um uppeldi barna í kynferðismálum,“ sagði hann og minnti á að hann hefði sjálfur þegar samkynhneigð var bönnuð undir kommúnistastjórn barist fyrir réttindum samkynhneigðra. Fjölmiðlar hafa bent á að þessi lagabreyting nú er ekki sú fyrsta sinnar tegundar. Á síðasta ári var m.a. samþykkt stjórnarskrárbreyting í Ungverjalandi sem kemur í raun í veg fyrir að tveir karlar eða tvær konur geti ættleitt barn.

Umræðurnar um þetta efni voru harkalegar á leiðtogafundinum á fimmtudag. Orban fékk helst stuðning frá pólskum og slóvenskum starfsbræðrum sínum. Haft var eftir Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, að Ungverjaland ætti ekkert erindi í ESB með þessum nýju lögum. Ef gildi sambandsins hentuðu ekki þá ættu Ungverjar að virkja 50. gr. sáttmálans, sem væri einmitt til þess að gera ríkjum kleift að segja sig úr sambandinu, sbr. Brexit. Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar, dró fram persónulega reynslu sína þegar hann sagði að fyrir sig hefði það að vera samkynhneigður ekki verið val. Þannig dró hann fram að forsendurnar að baki ungversku löggjöfinni væru rangar.

Opinberlega viðurkenndu ýmsir leiðtoganna að umræðurnar hefðu verið óvenju harkalegar og tilfinningaþrungnar. Michael Martin, forsætisráðherra Írlands, sagðist ekki hafa farið í grafgötur með að nýja löggjöfin væri skaðleg fyrir ungt fólk og þarna hefðu ungversk stjórnvöld farið yfir ákveðin mörk.

Ekki tímabært að stíga í vænginn við Rússa

Á leiðtogafundinum var því hafnað að stefna að fundi evrópskra ráðamanna með Vladimir Pútín Rússlandsforseta. Þjóðverjar og Frakkar höfðu lagt slíkt til en mikil andstaða reyndist vera við þau áform.

„Það er of snemmt því fram að þessu höfum við ekki séð nein róttæk umskipti hjá Pútín,“ var haft eftir Gitanas Nauseda, forseta Litháens. „Það væri misráðið að skuldbinda sig til viðræðna án nokkurra skilyrða.“ Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafði hins vegar lagt áherslu á mikilvægi þess að taka upp þráðinn í slíkum samskiptum æðstu ráðamanna.

Vinna við ferðamálastefnu ESB komin á fulla ferð

Eins og fram hefur komið sendi leiðtogaráð ESB frá sér ályktun um ferðamál í maí á þessu ári þar sem kom fram að í árslok 2021 skuli birta samevrópskrar stefnu í ferðamálum, European Agenda for Tourism 2030/2050. Í henni skal m.a. koma fram hvernig styðja má við stafræna og græna umbreytingu greinarinnar, í samræmi við grunnstefnu ESB, og efla þannig samkeppnishæfni hennar gagnvart öðrum atvinnugreinum.

Í framhaldinu hófst framkvæmdastjórn ESB þegar handa og lagði nýlega fram ítarlega áætlun, eða vinnuskjal, um ákveðnar sviðsmyndir og það hvernig framkvæmdastjórnin sér fyrir sér verklagið við stefnumótunina.

Í áætluninni er tekið á helstu áskorunum sem greinin stendur frammi fyrir og einnig sett fram mælanleg markmið sem stefnt skal að því að ná árið 2030. Þá kemur fram tillaga að samstarfi, og verkaskiptingu á milli framkvæmdastjórnar og aðildarríkjanna en einnig hvernig atvinnugreinin sjálf og hagsmunasamtök verða kölluð að borðinu. Samtímis birtingu plaggsins bauð Thierry Breton, framkvæmdastjóri innri markaðsmála, upp á samráð um áætlunina sem standa mun til 15. september n.k.

Í viðauka er lýsing á hugsanlegu ferðamynstri eftir Covid-19. Rannsóknir ESB vísa í sitthvora áttina í þessu efni, annars vegar er krafa um sjálfbærni og minni áhugi á „massa túrisma“ en hins vegar eru vísbendingar um allt verði eins og það var fyrir faraldur.

Talið er að m.a. eftirtalin atriði muni hafa mest áhrif á ferðaþjónustu, sumt til skemmri tíma, annað til lengri:

  • Viðskiptaferðir. Þrýstingur á að að fjarfundir haldi áfram og að ekki þurfi að mæta á vinnustað. Þarna geta leynst tækifæri fyrir ferðamannastaði með afbragðs nettengingu þar sem fólk muni í auknum mæli tvinna saman vinnu og ferðalögum.
  • Ferðalög nær heimabyggð. Þau muni halda áfram til ársins 2022 þegar reiknað er með að ferðamynstur verði svipað og 2019.
  • Áhrif efnisveitna. Netflix bætti við sig 26 milljón áskrifendum í faraldrinum. Líklegt verði að teljast að margir þeirra staða sem birtast í þáttum og kvikmyndum verði eftirsóttir áfangastaðir á næstunni.
  • Auknar kröfur um hreinlæti. Í áðurnefndri könnun töldu 75% þátttakenda mikið öryggi í ströngum hreinlætisreglum á ferðamannastöðum.

Sama dag og þessi vinnuáætlun framkvæmdastjórnarinnar var birt boðaði ESB ráðgjafanefnd um ferðamál til fyrsta fundar um stefnumótunarvinnuna. Þar hélt Alessandra Priante, yfirmaður Evrópudeildar Alþjóðaferðamálastofnunarinnar (UNWTO) áhugaverða tölu um stöðu ferðaþjónustunnar á heimsvísu. Evrópu gengur langbest allra heimsálfa að endurreisa atvinnugreinina á meðan hinar álfurnar horfa til ársins 2024 sem fyrsta eðlilega ferðamannaársins eftir faraldurinn. Ljóst sé að milljarðar á milljarða ofan hafa horfið úr hagkerfum flestra landa og skaðinn gríðarlegur.

Annars var efni fundarins fyrst og fremst að ræða hugmyndir um nýtt mælaborð í evrópskri ferðaþjónustu enda nauðsynlegt að horfa til fleiri þátta en hagtalna þegar lagt er mat á þýðingu greinarinnar.

Fulltrúar Rannsóknarstofnunar ESB (Joint Research Center, með höfuðstöðvar á Ítalíu) kynntu hugmyndafræðina. Um yrði að ræða útvíkkun á annarri tölfræði en þeirri sem fyrir er, t.d. sem Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) tekur saman og birtast einnig í svokölluðum Tourism Satellite Accounts TSA (hliðarreikningi við þjóðhagsreikninga), sem Ísland tók upp árið 2008. Nú á að leitast við að mæla t.d. umhverfislega þætti, félagslegt álag o.s.frv. Þessu var misvel tekið á fundinum og spurt út í tilgang og fjármögnun.

Ísland stendur vel að vígi á þessu sviði þar sem svokallaður Jafnvægisás ferðamála hefur verið tekinn upp (2019) en hann er stjórntæki til að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins. Jafnvægisásinn kemur til með að nýtast við ákvarðanatöku vegna álagsstýringar á ferðamannastaði í þeim tilgangi að stuðla að jafnvægi og sjálfbærri þróun.

Vinnustofur um einstaka efnisþætti stefnumótunarvinnunnar munu taka til starfa í september og mun fastanefndin í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gæta þess að vera með fulltrúa þar eftir því sem þörf krefur.

Næsti fundur í ráðgjafanefndinni verður væntanlega um miðjan október n.k. en í millitíðinni mun framkvæmdastjórnin halda áfram vinnu við stefnumótunina og fara yfir niðurstöður ofangreindrar könnunar.

Ný loftslagslög formlega afgreidd

Evrópuþingið afgreiddi í vikunni nýju loftslagslögin svokölluðu. Þau fela í sér að samdráttur í losun gróðurhúsaloftegunda verði að minnsta kosti 55% 2030 miðað við það sem var árið 1990.

Ráðherraráðið nær samkomulagi um afstöðu til reglugerðar um reiki

Í samningsafstöðu ráðherraráðsins sem kynnt var 16. júní sl. eru lagðar til nokkrar breytingar miðað við reglugerðartillögu framkvæmdastjórnarinnar, m.a. að auka vernd og gagnsæi gagnvart notendum, t.d. farþega á ferjum, gagnvart reikiþjónustu sem nýtir innviði utan bandalagsins s.s. gervihnetti og skýra betur hlutverk ólíkra eftirlitsstofnana gagnvart reikiþjónustu. Þá er kveðið á um hlutverk BEREC við að halda utan um tengileiðir til neyðarþjónustu 112 innan hvers ríkis bandalagsins.

Þá er orðalagi reglugerðarinnar sem kveður á um gæði þjónustunnar breytt og kveður nú á um að gæðin skuli ekki vera minni en í heimaríki notandans ef innviðir gestaríkisins (s.s. aðgengi að 4G eða 5G sendum) styðji við jafngóða þjónustu.

Loks leggur ráðherraráðið til að hámarksgjöld fyrir reiki verði hærri en tillaga framkvæmdastjórnarinnar lagði til, að heildsala mínútugjalda verði hæst 0,027 Evrur í stað 0,022, heildsala SMS í reiki verði hæst 0,007 í stað 0,004 Evrur og heildsölugjöld fyrir gagnaflutninga í reiki verði hæst 2,25 Evrur í stað 2,00 fyrir hvert gígabæti. Sömuleiðis er lagt til að ákvæði um frekari lækkanir í framtíðinni á þessum gjöldum verði breytt þannig að lækkunin verði minni.

ITRE nefnd þingsins á eftir að taka afstöðu til tillögu framkvæmdastjórnarinnar og í framhaldi af því hefjast samningaviðræður þessara þriggja stofnana (ráðs, þings og framkvæmdastjórnar) um endanleg ákvæði reglugerðarinnar.

Samningsafstaða um gjaldtöku af þungaflutningum á vegum (EUROVIGNETTE)

Ráðherraráðið náði einnig 16. júní sl. saman um afstöðu sína til tillögu framkvæmdastjórnarinnar um samræmda gjaldtöku fyrir þungaflutninga á vegum. Tillagan var lögð fram fyrir fjórum árum síðan og var hún afar umdeild meðal aðildarríkjanna sem náðu ekki að samræma afstöðu sína til hennar. EFTA-ríkin sendu ráðinu umsögn þar sem lögð var áhersla á sveigjanlega útfærslu á reglum um gjaldtöku þar sem aðildarríkin hefðu nægilegt svigrúm til þess að aðlaga gjaldtökuna að aðstæðum í hverju ríki fyrir sig. Í stuttu máli þá má segja að niðurstaða ráðsins sé í þessa átt, hún veiti góðan sveigjanleika til útfærslu í hverju ríki um sig, en setur um leið ramma um gjaldtökuna sem þó gengur ekki eins langt og lagt var til.

Gert er ráð fyrir að afstaða þingsins liggi fyrir fljótlega og að samningaviðræður hefjist á milli ráðsins, þingsins og framkvæmdastjórnarinnar að svo búnu.


Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta