Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2009 Forsætisráðuneytið

A 307/2009B úrskurður frá 14. ágúst 2009

A 307/2009B. Úrskurður frá 14. ágúst 2009.

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 14. ágúst 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-307/2009B.

 Málsatvik

Með bréfi, dags. 22. júlí 2009, fóru Ríkiskaup þess á leit við úrskurðarnefnd um upplýsingamál, með vísan til 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, að réttaráhrifum úrskurðar nr. A-307/2009, sem kveðinn var upp 16. sama mánaðar, yrði frestað. Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að Ríkiskaupum bæri að veita kærendum í málinu aðgang að tilteknum gögnum sem þar eru tilgreind og eru viðaukar eða fylgigögn samnings Austurhafnar-TR ehf. og [A] frá 9. mars 2006, um byggingu, eignarhald og rekstur tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels, ásamt tilheyrandi bílastæðum við austurhöfnina í Reykjavík. Ríkiskaup stóðu, fyrir hönd Austurhafnar-TR ehf., að samningsgerðinni. Að hluta til var í úrskurðinum fallist á synjun Ríkiskaupa á beiðni kærenda um aðgang að gögnum.

Vegna misritunar í úrskurðarorði úrskurðar nr. A-307/2009, var Ríkiskaupum, [B] og [C] með bréfum, dags. 6. ágúst 2009, birt nýtt og leiðrétt endurrit úrskurðarins með vísan til 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þessa gaf úrskurðarnefndin jafnframt Ríkiskaupum færi á að endurskoða beiðni um frestun réttaráhrifa.

Í erindi Ríkiskaupa, dags. 22. júlí, kemur fram að þeir samningar sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði að stofnunin skyldi afhenda hafi að geyma sambærilegar upplýsingar og sé að finna í þeim samningum sem nefndin hafi fallist á að synja ætti um aðgang að á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Þeir samningar sem samkvæmt úrskurðinum beri að afhenda séu svo nátengdir þeim samningum sem synjun um aðgang að hafi verið talin heimil að ekki sé forsvaranlegt að veita aðgang að þeim fremur en hinum síðarnefndu. Í samningunum sem upplýsa skuli um sé að finna tilvísanir til þeirra samninga sem úrskurðarnefndin hafi talið heimilt að synja um aðgang að og sé veittur aðgangur að samningum sem innihaldi slíkar tilvísanir jafngildi það því að veittur sé aðgangur að samningum sem úrskurðarnefndin hafi fallist á að innihaldi upplýsingar sem megi fara leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga.

Telja Ríkiskaup að vegna þessara sérstæðu aðstæðna sé ekki annað forsvaranlegt en að heimila frestun á réttaráhrifum og gefa aðilum kost á að bera málefnið undir dómstóla. Auk þess benda Ríkiskaup á að málefnið sé afar viðkvæmt.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kynnti lögmanni [B] og [C] framkomna beiðni Ríkiskaupa. Í svari lögmannsins, dags. 23. júlí 2009, kemur fram að hann telji kröfu Ríkiskaupa studda óhaldbærum rökum. Ekkert liggi fyrir um að upplýsingagjöf sú sem kveðið er á um í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A-307/2009, frá 16. júlí 2009, valdi Ríkiskaupum tjóni auk þess sem alltaf hafi legið fyrir að samningsaðili félagsins væri opinber aðili og að upplýsingalög nr. 50/1996 ættu þar af leiðandi við. Hefðu Ríkiskaup því mátt gera ráð fyrir að samningarnir yrðu gerðir opinberir að einhverju eða öllu leyti. Bendir lögmaðurinn jafnframt á að frestun skaði hagsmuni umbjóðenda hans.

Af erindi sem barst úrskurðarnefndinni frá lögmanni Ríkiskaupa, dags. 12. ágúst 2009, verður ráðið að til viðbótar við fyrri rökstuðning á beiðni um frestun réttaráhrifa fari Ríkiskaup þess á leit við úrskurðarnefndina að frestað verði réttaráhrifum hans hvað varðar þrjú tiltekin gögn, eða hluta þeirra. Er í því sambandi nánar vísað til tiltekinna upplýsinga sem fram koma í fundargerðum dags. 8., 9. og 30. september 2005. Þessar fundargerðir tilheyra allar viðauka nr. 3 við samning Austurhafnar-TR ehf. og [A] frá 9. mars 2006.Nefndarmaðurinn Sigurveig Jónsdóttir er vanhæf til meðferðar þessa máls skv. 3. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og tók varamaður hennar, Helga Guðrún Johnson, því sæti í nefndinni við meðferð og afgreiðslu málsins.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti, að kröfu stjórnvalds, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa sú sem hér er til úrskurðar barst innan þessa frests.

Í athugasemdum við umrædda grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. svo: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á.“ Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðum nr. A-78/1999C, A-117/2001B, A-233/2006B og A-277/2008B lagt til grundvallar að með 18. gr. upplýsingalaga hafi fyrst og fremst verið höfð í huga tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu að verða skýrð af dómstólum.

Nefndin hefur yfirfarið þau gögn sem fjallað er um í úrskurði í máli nr. A-307/2009, frá 16. júlí sl., með tilliti til þeirra röksemda sem fram hafa komið af hálfu Ríkiskaupa fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa. Í úrskurðinum í máli nr. A-307/2009 tók úrskurðarnefndin hvert og eitt þeirra gagna sem beiðni kæranda laut að til sjálfstæðrar skoðunar m.t.t. þess hvort veita bæri að þeim aðgang skv. upplýsingalögum. Nefndin fellst á þá afstöðu Ríkiskaupa, sem fram kemur í beiðni um frestun réttaráhrifa, að í sumum þeirra gagna sem nefndin heimilaði aðgang að í úrskurði sínum frá 16. júlí sl. er að finna tilvísun til annarra gagna málsins, sem eftir atvikum var talið heimilt að synja um aðgang að. Að öðru leyti verður ekki talið að umrædd gögn innihaldi sömu upplýsingar þannig að niðurstaða nefndarinnar um réttmæti synjunar á hluta þeirra leiði til þess að ekki sé af þeirri ástæðu rétt skv. upplýsingalögum að veita aðgang að öðrum gögnum. Hvað varðar þær tilteknu upplýsingar sem Ríkiskaup hafa í greinargerð sinni frá 12. ágúst vísað til og fram koma í fundargerðum, dags. 8., 9. og 30. september 2005, og lúta að tilteknum fjárhæðum og greiðslum í tengslum við tilboð og samning aðila, verður ekki séð að þær séu þess eðlis að á grundvelli þeirra verði réttlætt frestun á réttaráhrifum úrskurðarins í heild eða að hluta.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar hennar frá 16. júlí sl. Ber því að hafna kröfu Ríkiskaupa þar að lútandi.

Úrskurðarorð

Kröfu Ríkiskaupa um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar frá 16. júlí 2009 í máli nr. A-307/2009 er hafnað.

Friðgeir Björnsson,

formaður

Helga Guðrún Johnson                                                                                                                    Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta