Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2009 Forsætisráðuneytið

A-309/2009 úrskurður frá 14. ágúst 2009

A-309/2009. Úrskurður frá 14. ágúst 2009.

ÚRSKURÐUR

 Hinn 14. ágúst 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-309/2009.

 Kæruefni

Með tölvubréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 13. maí 2009, kærði [...], synjun Austurhafnar-TR ehf. á beiðni hans um aðgang að upplýsingum um hversu mikið Austurhöfn-TR ehf. greiðir eða ábyrgist vegna yfirtöku á Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu á austurbakka Reykjavíkurhafnar, að undanskildum þeim 14,5 milljörðum króna sem ríkið og Reykjavíkurborg hafa þegar lýst yfir að þau muni láta renna til hússins.

Atvik málsins eru þau að með tölvubréfi til Austurhafnar-TR ehf., dags. 21. apríl 2009, óskaði kærandi eftir aðgangi að ofangreindum upplýsingum. Með tölvubréfi, dags. 24. sama mánaðar, var beiðni kæranda synjað með þeim rökum að þær upplýsingar sem um væri beðið væri ekki hægt að veita þar sem þær féllu undir nýgert samkomulag Austurhafnar-TR ehf. við [A], [B] og [C] sem hafi að geyma viðkvæmar fjárhags- og viðskiptaupplýsingar sem fara beri með sem trúnaðarmál. Jafnframt var kæranda leiðbeint um að hann gæti borið synjun Austurhafnar-TR ehf. á beiðni hans undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 Málsmeðferð

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 15. maí 2009, var kæran kynnt Austurhöfn-TR ehf. og fyrirtækinu veittur frestur til 25. sama mánaðar til að koma að athugasemdum og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni um synjun. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran laut að. Með tölvubréfi dags. 25. maí 2009 óskaði Austurhöfn-TR ehf. eftir fresti til 2. júní 2009 til skila inn athugasemdum sínum og féllst úrskurðarnefndin á þá beiðni.

Með tölvubréfi, dags. 2. júní 2009, til úrskurðarnefndar um upplýsingamál bárust athugasemdir Austurhafnar-TR ehf. Kemur þar meðal annars fram sú afstaða að starfsemi fyrirtækisins félli ekki undir gildissvið upplýsingalaga. Tölvubréfinu fylgdu ekki afrit þeirra gagna sem úrskurðarnefndin hafði óskað eftir að fá afhent. Með bréfi dags. 12. júní 2009 til Austurhafnar-TR ehf. tók úrskurðarnefnd fram að af hennar hálfu hefði ekki verið tekin afstaða til þess hvort Austurhöfn-TR ehf. félli undir upplýsingalög en engu að síður væri þess farið á leit að umræddar upplýsingar yrðu afhentar nefndinni í trúnaði og veittur til þess frestur til 19. júní 2009. Samkvæmt beiðni Austurhafnar-TR ehf. var sá frestur framlengdur til 24. júní 2009 og barst úrskurðarnefnd afrit af gögnunum þann dag.

Með bréfi, dags. 12. júní 2009, veitti úrskurðarnefndin kæranda kost á  að setja fram athugasemdir sínar í tilefni af umsögn Austurhafnar-TR ehf. um kæru hans. Kærandi kom athugasemdum sínum við greinargerð Austurhafnar-TR ehf. á framfæri við úrskurðarnefnd í tölvubréfi, dags. 3. júlí.

Með bréfum dags. 22. júní sl. veitti úrskurðarnefnd [A], [C] og [B] færi á að setja fram athugasemdir vegna framkominnar kæru. Var nefndum aðilum í þessu skyni veittur frestur til 29. sama mánaðar. Sá frestur var síðar framlengdur til 3. júlí 2009. Athugasemdir frá [A] og [B] bárust með bréfum, dags. 2. og 3. júlí 2009. Bréf úrskurðarnefndarinnar til [C] var ítrekað með bréfi, dags. 14. júlí 2009. Svör bárust ekki frá fyrirtækinu.

Í athugasemdum Austurhafnar-TR ehf., [A] og [B] er í öllum tilvikum bent á það sjónarmið að Austurhöfn-TR ehf. falli ekki undir ákvæði upplýsingalaga, enda sé um að ræða einkaréttarlegt félag í skilningi 1. gr. laganna. Þá eru jafnframt í greinargerðum þessara aðila raktar ítarlega ástæður þess að rétt væri og heimilt að synja um aðgang að umbeðnum gögnum, jafnvel þó að félagið félli undir ákvæði laganna. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum.

Kærandi óskaði ekki eftir því að koma að frekari athugasemdum í tilefni af umsögnum [A] og [B].

Niðurstöður

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 taka ákvæði þeirra til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, og samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins taka lögin enn fremur til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í skýringum við 1. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum er rakið að lögin taki til þeirrar starfsemi sem heyri undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Þá er tekið fram að lögin taki einnig til þeirrar starfsemi einkaaðila sem lýtur að því að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Síðan segir í skýringunum: „Að öðru leyti gilda lögin ekki um einkaaðila, en undir hugtakið „einkaaðilar“ falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu. Ef rekstrarformi opinberrar stofnunar hefur t.d. verið breytt í hlutafélagsform fellur hlutafélagið sem slíkt utan gildissviðs laganna, jafnvel þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélags, nema því hafi verið falið sérstakt stjórnsýsluhlutverk, þ.e. að taka ákvarðanir, í skjóli stjórnsýsluvalds, um rétt eða skyldu manna.“

Eins og fram hefur komið í fyrri úrskurðum nefndarinnar í málum nr. A-264/2007, A-269/2007, A-273/2007, A-285/2008, A-290/2008 og 307/2009, hefur verið litið svo á, í ljósi framangreindra skýringa með upplýsingalögum, að einkaréttarleg félög, s.s. hlutafélög og sameignarfélög, sem eru í eigu hins opinbera, falli utan við gildissvið upplýsingalaga, enda hafi félaginu ekki verið falið að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. upplýsingalaga, eða í sérlögum sé beinlínis kveðið á um það að upplýsingalögin taki til viðkomandi félags.

Austurhöfn-TR ehf. er einkahlutafélag, stofnað af hálfu stjórnvalda ríkisins og Reykjavíkurborgar. Upphaflegri beiðni kæranda um aðgang að gögnum synjaði Austurhöfn-TR ehf. með vísan til upplýsingalaga. Synjuninni fylgdu leiðbeiningar um rétt kæranda til að bera synjunina undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Í skýringum til úrskurðarnefndarinnar hefur fyrirtækið á síðari stigum haldið fram þeirri afstöðu að félagið sé einkaréttarlegt félag í skilningi 1. gr. upplýsingalaga og falli ekki undir gildssvið laganna.

Með vísan til orðalags 1. gr. upplýsingalaga og þess sem að framan segir um skýringu þess ákvæðis, sbr. einnig fyrri umfjöllun úrskurðarnefndar um upplýsingamál um gildissvið upplýsingalaga gagnvart fyrirtækinu Austurhöfn-TR ehf., í úrskurði í máli nr. A-307/2009, verður á því að byggja í úrskurði þessum að starfsemi Austurhafnar-TR ehf. falli ekki undir ákvæði upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra laga, þrátt fyrir upphaflega afgreiðslu fyrirtækisins á beiðni kæranda. Jafnframt liggur fyrir að þau gögn sem kæra máls þessa beinist að tengjast ekki ákvörðunum um rétt eða skyldu manna sem Austurhöfn-TR ehf. kann að hafa verið falið að taka.

Samkvæmt framansögðu fellur úrlausn kæruefnisins utan gildissviðs upplýsingalaga og ber því að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.

 

Úrskurðarorð

Kæru [...] frá 13. maí 2009 á hendur Austurhöfn-TR ehf. er vísað frá.

 

 Friðgeir Björnsson

formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                               Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta